20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

369. mál, breytingar á skattalögum

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af fsp. á þskj. 117 frá Karli St. Guðnasyni, hv. þm., vil ég segja það, að í fjárlagaræðu minni gerði ég grein fyrir því, að ég væri algerlega mótfallinn undanþágum á sköttum og teldi, að undanþágur á sköttum væru mikill þáttur í skattsvindli. Þess vegna get ég svarað fyrri hluta fsp. neitandi. Það er ekki ætlan mín að fara að gefa fleiri undanþágur frá sköttum en orðið er.

Síðari hluta fsp. get ég hins vegar svarað játandi. Það hefur verið unnið að endurskoðun á skattamálum síðan þessi ríkisstj. kom til valda, og það er verið að athuga skattamálin m. a. út frá þeim óskum, sem fram hafa komið frá verkalýðsfélögunum, og verða af hálfu ríkisstj. athugaðir möguleikar til þess að ná samstöðu um breytingu þar að lútandi.