20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

105. mál, staðsetning opinberra stofnana

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þar sem ég á sæti í umræddri n., skil ég mætavel, að menn sé farið að lengja nokkuð eftir því að heyra frá henni álit. En ég vil taka það fram, að ég held, að það hafi verið tvímælalaust rétt að taka verkefnið einmitt svo nákvæmlega og vel fyrir eins og gert hefur verið og að dr. Ólafur Ragnar Grímsson hafi þarna einmitt gefið hinn eina og sanna tón, til þess að nokkurs árangurs mætti af þessu starfi n. vænta. Ég held, að slíkur flutningur stofnana sé svo vandasamur og viðkvæmur í eðli sínu, að það þurfi að styðja hann sterkum rökum, ef takast á að bifa sumum stofnunum héðan frá þéttbýlinu. Það hefur t. d. verið býsna lærdómsríkt að kynnast viðbrögðum sumra forustumanna þessara stofnana við spurningu um það, hvað þeir álíta um það að flytja stofnanir þeirra út á landsbyggðina. Það hefur jafnvel verið svo að sjá, að stundum færi um þá hrollur skelfingar og kvíða, þegar á þetta hefur verið minnst, líkt og þeir ættu þá yfir höfði sér einhverja Síberíuvist eða eitthvað þaðan af verra. Aðrir hafa tekið þessu með meiri karlmennsku, og sumir stungu jafnvel að fyrra bragði upp á því, að komið yrði upp útibúum og deildum, svona til að hafa vaðið fyrir neðan sig. Enda verð ég að segja það, að í mörgum tilfellum hljóti það að vera eðlileg vinnubrögð, þ. e. a. s. með því fororði, að þá fylgi eitthvert vald og einhver ákvarðanataka þessum sömu útibúum. En vitanlega verður það ekki nál., sem hér sker úr, á hvern veg það hljóðar. Ég reikna með, að það þyki nokkuð róttækt, þegar það kemur fram. Aðalatriðið er svo hitt, hvernig að framkvæmd á þessu nál. verður staðið á eftir.