20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

370. mál, áætlanagerð

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég mun svara þessari fsp. eftir orðanna hljóðan, en ekki fara út í neinar deilur, eins og orð hv. fyrirspyrjanda gefa tilefni til. Svar við þessari fsp. hef ég fengið frá forstöðumanni áætlanadeildar, Bjarna Braga Jónssyni, og ég vil lesa það. Það er að vísu í lengsta lagi upp á tímann, en ég skal reyna að lesa það:

„Í lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins, nr. 93 24. des. 1971, segir í 11. gr.: „Ríkisstj. skal gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins.“ Fyrsta ársskýrsla stofnunarinnar þ. e. fyrir árið 1972, kom út í maímánuði s. l. Var skýrslunni þá dreift til alþm., og fylgdi forsrh. henni úr hlaði með ræðu, þar sem yfirlit var gefið um helstu efnisatriðin. Sérstakur kafli ársskýrslunnar fjallar um sjálfa starfsemi stofnunarinnar, og skiptist sá kafli eftir deildum og sjóðum stofnunarinnar. Er þar annars vegar greint frá þeim þjóðhagsspám og þjóðhagsáætlunum, sem unnar eru á vegum hagrannsóknadeildar, og hins vegar frá starfi að hvers konar áætlunum á vegum áætlanadeildar. Er til þess skýrslukafla vísað hér, þar sem alþm. hafa fengið hann. Og þar sem hér er svo ný um liðið, er enn að mestu unnið að sömu áætlunum, þótt einstök verkefni hafi bæst við. Ef menn skyldu hafa glatað þessari skýrslu, þá er það auðvitað sjálfsagt, að Framkvæmdastofnunin sendi mönnum afrit af því, ef óskað er eftir.

Hér verða áætlunarverkefni áætlanadeildar rakin stuttlega til yfirlits, svo sem málin standa nú, og verður stuðst við flokkun áætlana í þrennt skv. skilningi laganna:

1) Áætlanir um uppbyggingu mikilvægustu atvinnugreina, um heildarþróun atvinnulífs, sbr. 7. gr. Fiskiskipaáætlun, skýrsla um skuttogaraáætlun, sérstaklega birt í júní 1972. Í framhaldi af því hafa verið unnar umsagnir um einstök skipakaupaáform. Nú hefur áætlunargerð þessi verið færð út til fiskiskipaflotans almennt, og verður unnið að henni sem slíkri framvegis í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir og samtök.

2) Hraðfrystihúsaáætlun. Skýrsla um framkvæmdaáform frystihúsanna kom fram í jan. s. l. Hefur síðan verið unnið að mati áformanna og nánari úrvinnslu, forgangsröðun framkvæmdanna og skiptingu í ársáfanga. Nú liggja fyrir áætlunardrög um áfanga 1974 og 1975 til umræðu milli hlutaðeigandi stofnana, en í framhaldi þeirra umræðna er stefnt að því að ljúka áætluninni í heild.

3) Landbúnaðaráætlun. Fyrstu skýrslu um þetta áætlunarverk hefur nýlega verið dreift á Alþingi. Það er um þróun hins innlenda markaðar og stefnumörkun á þeim grundvelli. Ýmsir aðrir þættir áætlunarinnar eru komnir vel á veg.

4) Iðnþróunaráætlun. Að áætlunargerð á sviði iðnaðarins hefur fram til þessa verið unnið aðallega á vegum iðnrn. og stofnana, sem undir það heyra. Nú hefur verið óskað aukinnar þátttöku stofnunarinnar í því starfi, og hefur verið ráðinn starfsmaður til að anna því verkefni.

5) Almennar atvinnuvegaáætlanir. Árlega eru unnar áætlanir um fjármunamyndun atvinnuveganna næstu árin, og vinna deildar stofnunarinnar að því, hver með sínum hætti. Skýrslur og spár um mannfjölda og mannafla atvinnuvega og landshluta eru unnar í áætlanadeild, og er gerð langtímaspár í þeim efnum langt á veg komin. Enn fremur hefur verið unnin áætlun um nýtingu tækniaðstoðar Sþ. til undirbúnings ákvörðunar ríkisstj. í þeim efnum.

Þá eru í öðru lagi áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs víðs vegar um land, sbr. 8. gr. l. Landshlutaáætlanir eða byggðaþróunaráætlanir, almennar og sérgreindar, eru samtímis í gangi fyrir ýmis svæði. Er reynt að hafa not af því starfi jafnharðan við athuganir á og ákvarðanir um fyrirgreiðslu vegna framkvæmda atvinnuvega og hins opinbera, jafnframt því að stefnt er að heilstæðri áætlun í hverju tilviki.

Unnið er að eftirtöldum byggðaáætlunum: 1) Samgönguáætlun Norðurlands er nú á lokastigi, en ársáfangar 1972 og 1973 hafa þegar komið til framkvæmda samkv. bráðabirgðatillögum.

2) Atvinnu- og byggðaþróunaráætlun fyrir Norðurland vestra. Sérstök Skagastrandaráætlun telst upphaf þess áætlunarverks, og lá hún fyrir í tillöguformi í upphafi ársins, en síðan hefur verið unnið að almennum athugunum á svæðinu.

3) Byggðaþróunaráætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu er svipað eðlis, og hefur verið unnið að henni frá s. l. vori.

4) Atvinnu- og byggðaþróunaráætlun Austurlands. Unnið hefur verið að þessari áætlun frá því í mars s. l. Starfið að þessum þrem síðast töldu áætlunum fylgir í meginatriðum leiðbeiningum, sem áætlanadeild gaf út í mars s. l. um undirbúning og gerð slíkra áætlana.

5) Byggðaþróunaráætlun Vestfjarða og Vesturlands. Ákvörðun hefur verið tekin um gerð hliðstæðra byggðaþróunaráætlana um Vestfirði og Vesturland strax og tök verða á. Hefur nokkur undirbúningur þessara verka farið fram, og er áætlunarstarf fyrir Vestfirði í þann veginn að hefjast.

6) Endurreisnaráætlun Vestmannaeyja. Að beiðni stjórnar Viðlagasjóðs hefur áætlanadeild unnið að endurreisnaráætlun Vestmannaeyja, en í því felst öflun tæknilegra ráðgjafar, hönnunar og kostnaðaráætlana um staðsetningu og endurreisn mannvirkja, auk könnunar á högum og áformum Vestmannaeyinga.

7) Áætlun um leiguíbúðir sveitarfélaga og almenn húsnæðismálaáætlun. Að beiðni húsnæðismálastjórnar og í samvinnu við hana er að hefjast starf að áætlunargerð um byggingu 1000 leiguíbúða á vegum sveitarfélaga. Er ætlunin, að því verki verði fram haldið í mynd almennrar húsnæðismálaáætlunar.

Þá er það þriðja tegund áætlana, áætlanir um opinberar framkvæmdir, sbr. 9. gr. l. Á þessum vettvangi er hlutverk Framkvæmdastofnunarinnar háð sérstökum samningum við einstök rn. og þá fyrst og fremst fjmrn. Fellur verkefnið einkum í tvo hluta:

1)Árlegar framkvæmda- og fjáröflunaráætlanir ríkisins. Árið 1972 var unnið ásamt fjárlaga- og hagsýslustofnun að áætlun fyrir árið 1972 og áætlun 1973 undirbúin. En þeirri áætlun var lokið í apríl þessa árs í báðum tilvikunum var fjölrituð skýrsla fjmrh. unnin í áætlanadeild, og náðu skýrslurnar jafnframt til starfsemi fjárfestingarlánasjóðanna. Í ár hefur mun takmarkaðri þjónustu við gerð framkvæmdaáætlunarinnar verið óskað, einkum í sambandi við orkuframkvæmdir og að sjálfsögðu samgönguáætlun Norðurlands.

2) Langtímaáætlanir opinberra framkvæmda. Af samgönguáætlunum landshluta hefur sprottið allnáið samstarf um ýmsa þætti samgönguáætlana til nokkurra ára í senn. Hefur verið rætt um nauðsyn aukins kerfisbundins starfs að mati opinberra framkvæmda og heildstæðri áætlanagerð um þær.“

Ég hef þá lesið þessa grg. frá forstöðumanni áætlanadeildar og hef engu við hana að bæta.