21.11.1973
Efri deild: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

113. mál, skipulag ferðamála

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Frv. það til l. um ferðamál, sem hér liggur fyrir til 1. umr, var lagt fyrir síðasta Alþ., en var þá ekki útrætt. Frv. er nú lagt fram að nýju óbreytt að öðru leyti en því, að gildistökuákvæði í 34. gr. er breytt, einnig ákvæði til bráðabirgða 2, um boðun til ferðamálaþings.

Frv. þetta er samið af nefnd, sem rn. skipaði 2. febr. 1972 til að endurskoða núgildandi lög um ferðamál, sem eru frá 1969, og skyldi nefndin taka sérstakt tillit í tillögum sínum til endurskipulagningar á uppbyggingu og starfsemi ferðamálaráðs og Ferðaskrifstofu ríkisins. Í þessari nefnd áttu sæti Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri, sem var formaður nefndarinnar, Heimir Hannesson lögfræðingur og Lúðvík Hjálmtýsson framkvæmdastjóri, en starfsmaður nefndarinnar var Ólafur Steinar Valdimarsson skrifstofustjóri.

Megintilgangur frv. er að koma á skipulegri vinnubrögðum en áður í íslenskum ferðamálum, bæði vegna ferðalaga Íslendinga sjálfra og útlendinga, sem hingað koma. Jafnframt er tilgangurinn með frv. sá, að hlutdeild okkar í alþjóðlegum ferðamálum verði aukinn, að svo miklu leyti sem þjóðhagsleg hagkvæmni og umhverfisverndarsjónarmið leyfa. Með þeirri byltingu, sem orðið hefur síðasta aldarfjórðung í flutningamálum, hafa ferðalög aukist mjög ört og eru enn í hröðum vexti. Í kjölfar batnandi lífskjara, svo og aukins frítíma, svo og með skipulagningu ferðamála, sérfargjöldum og hópdvölum, hefur almenningi orðið fjárhagslega kleift að ferðast miklu lengra og miklu meira en áður var unnt. Jafnframt þessu hefur skapast markaður með geysilegu fjármagni. Það er orðinn þýðingarmikill þáttur í efnahagslífi margra þjóða að fullnægja hinni miklu og sívaxandi eftirspurn eftir ferðamannaþjónustu. Sem dæmi um aukningu hennar í heiminum undanfarna tvo áratugi má geta þess, að ef litið er á hana sem útflutning, hefur ferðaþjónusta aukist undanfarin 20 ár að meðaltali um 12% á ári, meðan annar útflutningur hefur aukist um 7.7%. Ferðamannastraumurinn hefur hin víðtækustu áhrif í efnahags- og atvinnulífi hvers lands. Þar er ekki einungis um bein áhrif að ræða, svo sem auknar tekjur flugfélaga og gisti- og veitingastaða, heldur einnig óbein áhrif, svo sem á framleiðslu matvæla, á framleiðslu og sölu minjagripa og fatnaðar, á þjónustu, eins og leigubifreiðastjóra, sérleyfis- og hópferðabifreiðastjóra, eigendur veiðiréttar o. s. frv. Frá sjónarmiði okkar Íslendinga höfum e. t. v. sérstaka þýðingu, að erlent ferðafólk, sem fer um Ísland, gerir okkur kleift að halda uppi betra og fullkomnara samgöngukerfi en nokkur kostur væri á, ef einungis væri um íslenskan heimamarkað að ræða.

Frv. það, sem hér er til umr., byggist á þeirri meginskoðun, að jafnframt því sem Íslendingum verði tryggð eðlileg aukning í alþjóðlegum ferðamannamarkaði, sé að því stefnt, að sú aukning sé undir eðlilegu eftirliti og aðhaldi og þá ekki síst með tilliti til umhverfisverndar. Þetta aðhald og eftirlit gildir að sjálfsögðu einnig um ferðalög Íslendinga sjálfra um eigið land.

Á árinu 1972 kom hingað 68 þús. erlendir ferðamenn, og var þar um að ræða 12% aukningu frá árinu 1971. Á þessu ári eru horfur á, að fjöldi erlendra ferðamanna verði um eða yfir 72 þús., eða 6–7% aukning frá fyrra ári. Er hér um að ræða allmiklu minni aukningu en verið hefur undanfarin ár, en meðaltal þeirra er sem næst 15%. Beinar eða óbeinar gjaldeyristekjur af ferðamannaþjónustu námu árið 1972 1325 millj. kr., sem er um 7.9% af heildarútflutningsverðmæti landsmanna á árinu 1972. Árið 1971 var þessi prósenta 9.3%. Hefur því verið um nokkra hlutfallslega lækkun að ræða, og er ekki ólíklegt, að svo verði einnig á þessu ári. Þrátt fyrir þennan samdrátt fer ekki hjá því, að ferðamál eru verulegur þáttur í efnahagslífi okkar.

Eins og kunnugt er, veitti Þróunarsjóður Sameinuðu þjóðanna árið 1971 fjárhagslega aðstoð til gerðar ferðamannaáætlunar fyrir Ísland, og nemur aðstoðin 140 þús. Bandaríkjadala. Fyrri hluti þessarar áætlunargerðar var unninn af bandaríska fyrirtækinu Checchi & Co. á s. l. ári og skilaði það skýrslu sinni til Sameinuðu þjóðanna og ríkisstj. í sumar. Með skýrslunni er m. a. stefnt að því að lengja ferðamannatímabilið á Íslandi, og eru fjórar leiðir eða þróunarsvið valin til sérstakrar athugunar í skýrslunni. Það eru skíðasvæði, vötn, ár og sjór til fiskveiða, ráðstefnu- og fundaaðstaða og jarðhiti til heilsuræktar. Niðurstöður bandaríska fyrirtækisins varðandi aukningu erlendra ferðamanna til Íslands eru þær, að hæfilegt sé að stefna að 12% aukningu fram til 1980, en 8% eftir það fram til 1990. Með þessu móti mundu ferðamálin öðlast nokkuð aukinn hlut í þjóðarbúskapnum, en jafnframt væri hægt að halda ferðamannastraumnum innan æskilegra marka með tilliti til landverndar og þarfa okkar sjálfra. Bandaríska fyrirtækið bendir á, að verði hins vegar ekkert gert í ferðamálum, muni aukning erlendra ferðamanna stöðvast af sjálfu sér strax á árinu 1976. Sú aukning, sem orðið hefur í ár, 6–7%, bendir til þess, að þessi fullyrðing sé á rökum reist.

Bandaríska fyrirtækið leggur til að á næstu árum sé lagt í ákveðnar framkvæmdir, sem jafnframt því að laða að erlenda ferðamenn komi að fullum notum fyrir landsmenn sjálfa. Er ekki ástæða til að rekja hér, í hverju þessar framkvæmdir eru fólgnar, en heildarkostnaður við þær er áætlaður rúmlega 2 milljarðar kr. Ríkisstj. hefur ekki tekið ákvörðun um, hvort eða að hve miklu leyti ráðist verði í þessar framkvæmdir, en samþ. fyrir sitt leyti, að síðari hluti áætlanagerðarinnar fari fram, en í henni verður m. a. kannaður rekstrargrundvöllur fyrir þessum framkvæmdum og annað, sem máli skiptir í því sambandi. Þessum áætlunum mun verða lokið á árinu 1975, og þá, en ekki fyrr, verður ákvörðun tekin um framkvæmdir.

Frv. þessu, sem hér liggur fyrir, er skipt í 6 kafla, auk þess sem þar eru ákvæði til bráðabirgða.

I. kaflinn er um tilgang og yfirstjórn, og kemur þar m. a. fram, að við þróun og skipulagningu ferðamála skuli bæði hafa hliðsjón af þjóðhagslegri hagkvæmni og umhverfisvernd.

Í II. kafla frv. er fjallað um ferðamálastofnun Íslands, en hún á að fara með stjórn ferðamála undir yfirstjórn samgrn. Ferðamálastofnunin verður til við sameiningu Ferðaskrifstofu ríkisins og ferðamálaráðs, þess sem nú starfar. Með sameiningu þessara tveggja stofnana er stuðlað að aukinni hagkvæmni, auk þess sem verkefnaskipting milli þeirra er ekki nægilega skýr samkv. gildandi l. Auk þessara verkefna, sem þessum tveimur stofnunum eru nú falin, er gert ráð fyrir ýmsum verkefnum varðandi skipulagningu ferðamála, þjónustustarfsemi, eftirliti og umhverfisvernd, sölustarfsemi, svo og ýmiss konar öðrum óskilgreindum verkefnum.

Í frv. er lagt til, að Ferðamálastofnuninni verði sett sérstök 5 manna stjórn og jafnframt sérstakur framkvæmdastjóri eða ferðamálastjóri, en hann mundi taka við verkefnum núverandi forstjóra Ferðaskrifstofu ríkisins og framkvæmdastjóra ferðamálaráðs, auk nýrra verkefna, sem honum yrðu falin.

III. kafli frv. fjallar um ferðamálafélög, ferðamálaþing og ferðamálaráð. Á síðari árum hafa víða risið upp sérstök ferðamálafélög, sem eru samtök einstaklinga, sveitarfélaga og annarra aðila, sem vinna að ferðamálum á því svæði, sem undir hvert félag heyrir. Þar sem fyrirsjáanlegt er, að þessum félögum á eftir að fjölga verulega á næstu árum, þykir rétt að hafa um þau sérstök ákvæði í l. Í stað ferðamálaráðstefna þeirra, sem haldnar hafa verið undanfarin ár á vegum ferðamálaráðs, er gert ráð fyrir, að haldin séu ferðamálaþing. Á þessum þingum eiga sæti ákveðnir fulltrúar þeirra félaga, stofnana og annarra aðila, sem ferðamál snerta á einhvern hátt. Í fskj. með frv. eru taldir upp nokkrir aðilar, sem rétt þykir, að eigi rétt til að tilnefna fulltrúa á ferðamálaþing. Þessi upptalning er þó engan veginn tæmandi.

Í 9. gr. frv. er gert ráð fyrir, að ferðamálaþing kjósi til eins árs í senn 7 fulltrúa til setu í ferðamálaráði og jafnmarga til vara. Þetta er veruleg breyting á skipun ferðamálaráðs frá því, sem nú er. Samkvæmt frv. er ferðamálaráð ekki beint ráðgefandi fyrir yfirstjórn ferðamála, eins og nú er, heldur gætir skoðana þess og áhrifa fyrir atbeina þeirra tveggja fulltrúa, sem lagt er til, að ráðið eigi af þeim 5, sem sitja í stjórn Ferðamálastofnunar Íslands. Telja verður, að skipun ferðamálaráðs, eins og það er nú, sé of einhliða bundin við tiltölulega lítinn hluta þeirra aðila, sem hlut eiga að máli, og auk þess eiga neytendur engan fulltrúa í ráðinu. Það er því nauðsynlegt annaðhvort að fjölga mikið í ráðinu eða fara þá leið, sem frv. gerir ráð fyrir.

Í IV. kafla frv. er fjallað um almennar ferðaskrifstofur. Aðalbreytingarnar á þessum kafla frá gildandi l. eru þær, að tryggingarfé ferðaskrifstofa er hækkað nokkuð og möguleikar samgrn. til að stöðva rekstur ferðaskrifstofa eru rýmkaðir. Opinber afskipti af þessari starfsgrein umfram aðrar eru nauðsynleg og fyrst og fremst byggð á eðli starfseminnar.

Í V. kafla frv. er fjallað um Ferðamálasjóð. Þau ár, sem Ferðamálasjóður hefur starfað, mun hann hafa lánað til gisti- og veitingahúsa milli 90 og 100 millj. kr. Samkv. l. nú eru útlán Ferðamálasjóðs eingöngu bundin við gisti- og veitingastaði, og er hann því í rauninni fyrst og fremst hótellánasjóður. Með því frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir viðtækara starfssviði Ferðamálasjóðs en verið hefur, en í ljós hefur komið, að vissir þættir ferðamála hafa orðið útundan, þar sem Ferðamálasjóður hefur ekki heimild til að lána til þeirra, en aðrir aðilar hafa ekki talið sér það skylt. Einnig er gert ráð fyrir því í frv., að Ferðamálasjóður geti lagt óafturkræft fjármagn fram til endurbóta á hreinlætis- og snyrtiaðstöðu á fjölsóttum ferðamannastöðum utan alfaraleiða, svo og til annarrar umhverfisverndar, vegna umferðar ferðafólks. Þetta óafturkræfa framlag hefur hins vegar þótt rétt að takmarka við 10% af árlegum tekjum sjóðsins. Sjóðurinn hefur alla tíð haft lítið fé úr að spila til lána. Gert er ráð fyrir, að tekjuöflun sjóðsins aukist verulega, fái hann í sinn hluta tekna af aðgöngumiðagjaldi að vínveitingahúsum. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir neinni hækkun á beinu framlagi ríkissjóðs til sjóðsins frá því, sem gert er ráð fyrir á fjárlögum næsta árs.

Loks eru ýmis ákvæði í VI. kafla. Þar er m. a. kveðið á um heimild handa ráðh. til að innheimta aðgangseyri af fjölsóttum ferðamannastöðum, sem eru í eign ríkisins, enda sé því fé, sem þannig aflast, varið til fegrunar og snyrtingar á viðkomandi stað.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, aðeins segja það, að ég legg áherslu á það, að brýna nauðsyn ber til að þetta frv. nái fram að ganga á yfirstandandi þingi, og það yrðu þeim, sem að ferðamálum vinna, mikil vonbrigði, ef svo yrði ekki, og til mikils tjóns fyrir æskilega þróun þessarar mikilvægu atvinnugreinar, en einnig fyrir íslenska umhverfisvernd, því hvort tveggja verður að haldast í hendur, ef vel á að fara. Þetta þýðir þó engan veginn, að ég telji ekki koma til greina að gera einhverjar breyt. á frv., á einstökum ákvæðum þess, sem kynnu að horfa til bóta að bestu manna yfirsýn.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði nú vísað til 2. umr. og hv. samgn. og vil treysta því, að hún taki það til meðferðar og afgreiðslu án mikillar tafar.