21.11.1973
Efri deild: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

113. mál, skipulag ferðamála

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru nokkrar almennar hugleiðingar um ferðamál, sem mig langar til að koma hér að við 1. umr. þessa máls. Um frv. sjálft fæ ég tækifæri til að fjalla ítarlega í hv. n., sem fær það til umsagnar, svo að ég mun ekki víkja mikið að einstökum atriðum þess.

Ísland sem ferðamannaland hefur lengi verið nokkuð almenn upphrópun ýmissa aðila hér á landi, og síst skal ég neita möguleikunum á því. Þessar hugmyndir hafa þó, að ég held, af allt of mörgum verið tengdar möguleikum til skjótfengins og auðfengins gróða og því um málið í heild, kosti þess og galla lítt verið hugsað af þeim sömu aðilum. Mikið kapp hefur verið lagt á það að laða hingað erlenda ferðamenn og með töluverðum árangri. Á sama tíma hafa ferðir Íslendinga út í lönd stóraukist, og má nú svo heita, að sá þyki maður að minni, sem ekki hefur gist einhverja sólskinsparadísina í Suðurlöndum og það helst sem oftast, jafnvel árlega. Ferðir um landið sjálft hafa auðvitað aukist einnig, en þær tilheyra þó hiklaust hinum lægri stiga ferðalaga að áliti manna yfirleitt. Við hvoru tveggja þessara atriða, ferðamannastraum inn í landið og út úr því, vil ég gjalda nokkurn varhug. Í fyrsta lagi held ég, að við verðum að fara ákaflega varlega í því að laða hingað erlenda ferðamenn um of, þótt af því megi hafa gróða í augnablikinu. Í öðru lagi held ég, að Íslendingum væri hollt og raunar skylt að kynnast landi sínu og margrómuðum töfrum þess og fegurð, áður en þeir heimsækja Miðjarðarhafssæluna, sem reyndar kvað oft vera fólgin fyrst og fremst í öðru en náttúruskoðun og raunverulegri ferðaþrá.

Þetta tvennt vildi ég leyfa mér að segja að ætti að vera þau mottó að öllu skipulagi ferðamála, sem hér væri á komið, og sannarlega má sjá þess merki í þessu frv., sem hér liggur fyrir, að til þeirra sé tillit tekið.

Náttúruvernd, landgræðsla og varðveisla einstakra staða koma hér mjög inn í alla myndina. Öll þessi atriði þurfa að vera í fyrirrúmi, þegar um ferðamál og aukningu ferðalaga er rætt. Mér sýnist frv. þetta einnig taka tillit til þess, þó að e. t. v. mætti þar í sumu kveða fastar að orði.

Ég skal ekki vanmeta þær tekjur, beinar og óbeinar, sem við höfum og kunnum að geta haft af erlendum ferðamönnum. En því fylgja ýmis meiri háttar vandkvæði einnig. Aðstaðan til móttöku ferðamanna og þjónustu við þá víðs vegar um landið er hér alger sérkapítuli, og að honum vík ég nánar síðar.

Eitt atriði er mér sérstaklega ofarlega í huga, en það er sú þjónusta við ferðamenn, sem oft virðist ærið hátt skrifuð, en þar á ég við möguleika þeirra til að eiga vinskap við Bakkus á sem fjölbreytilegastan og auðveldastan máta. Áfengisvandamál okkar Íslendinga eru nógu risavaxin, þótt ekki komi til sífelldur þrýstingur skammsýnna gróðamanna um rýmkanir og undanþágur frá gildandi áfengislögum í þjónustu, þyrstra útlendinga. Ég hef kynnst lítils háttar einu slíku dæmi úti á landsbyggðinni, þar sem þjónusta við erlenda ferðamenn var höfð að yfirvarpi fyrir vínveitingaleyfi. Hafi einhverjum dottið í hug minni drykkja og siðfágaðri í því sambandi, þá hygg ég, að sá hinn sami hafi orðið fyrir verulegum vonbrigðum, enda staðreynd, að auknu frelsi í áfengismálum fylgir hvarvetna enn meiri drykkja, en líka meiri vandamál. En nóg um þetta, þótt um það mætti vissulega hafa mörg orð.

Ég minnti áðan á það, hve gersamlega óviðbúin við værum til að taka á móti auknum ferðamannastraumi, í raun ófær um það í dag að veita ferðafólki viðunandi þjónustu. Hér á ég ekki við lúxushótel með tilheyrandi börum og fleiru í þeim dúr. Ég á aðeins við þá undirstöðuþjónustu varðandi t. d. hreinlætisaðstöðu, sem víða er af skornum skammti eða alls engin. Oft hefur verið á það minnt, að engin slík aðstaða væri t. d. fyrir ferðafólk á leiðinni Mývatnssveit — Egilsstaðir, en víða mun svipuð dæmi vera að finna. Mér finnst einhvern veginn, að í öllu talinu um ferðamál hjá forsvarsmönnum þessara mála hafi hinn venjulegi ferðalangur gleymst um of, en meir verið að hinum hugað, sem kæmi hingað til að eiga rólega hóteldvöl, svolítið í átt við Mallorcaferðir okkar sjálfra.

Skynsamlegustu ábendingar um þjónustu, jafnt á ferðaleiðum sem einstökum eftirsóttum stöðum, sem ég hef heyrt, komu fram í umr. á Alþ. í fyrra um þetta frv. einmitt, þá frá hv. 1. þm. Austf., þar sem hann ræddi einnig um fjölgun þeirra staða, sem ferðafólk ætti greiðan aðgang að, og þykir mér einsýnt, að til þeirra áhendinga verði tekið fullt tillit við athugun frv. þessa í n., enda talar hér bæði mikill ferðagarpur og forustumaður um náttúruvernd, sem fyllsta ástæða er til að taka mikið mark á.

Ég held, að ýmis varnaðarorð ágætra manna um þá hættu af örtröð ferðamanna, sem gæti orðið hlutskipti okkar í framtíðinni, eigi fyllsta rétt á sér. Við eigum hins vegar að hlynna að þeim ferðalöngum, sem koma hingað beinlínis til að ferðast, skoða og fræðast, og það þarf að gera sem víðast, jafnhliða því sem það ætti að vera stolt okkar sjálfra að láta ferðalög hér innanlands sitja í fyrirrúmi fyrir sólarferðum til Suðurlanda, sem ég álít reyndar, að þyrfti blátt áfram að skattleggja í þágu innlendra heilbrigðra ferðamála, t. d. með því að greiða söluskatt af slíkum fargjöldum, sem ætti raunar að vera sjálfsagt hvað sem öllum ákvæðum líður í alþjóðasamningum. Þeim þarf þá hreinlega að fá breytt.

Ég skal ekki tala hér öllu lengra mál, enda er hér um svo viðamikið mál að ræða, að efni væri í margar ræður slíkar sem þessa. Aðeins hlýt ég að láta í ljós vonbrigði mín með þær fréttir, sem ég hef haft af ferðamálatillögum þeim, sem einhverjir erlendir sérfræðingar frá Sameinuðu þjóðunum kváðu hafa lagt fram. Þær eru í fljótu bragði miðaðar við allt önnur sjónarmið en þau, sem ég hefði viljað og tel að eigi að sitja í öndvegi í íslenskum ferðamálum. Mér þótti vænt um að heyra hæstv. ráðh. lýsa því hér yfir, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki tekið neina afstöðu til þessara till. út af fyrir sig.

Ég hefði einnig viljað fá um það ótvíræð ákvæði í þetta frv., að þeir menn, sem gerst þekkja til náttúruverndar og annarra skyldra mála, ættu í ferðamálaráði sinn fasta fulltrúa, þótt ég hafi á því þá trú, að fram hjá þeim aðilum verði ekki gengið í vali ráðh. á mönnum í ráðið. Svo mikil áhersla er á þetta atriði lögð í frv. Þó væri e. t. v. betra að hafa hér um ótvíræð ákvæði.

Ég skal svo taka skýrt fram að lokum, að í flestum greinum tel ég frv. þetta þarft og gott, þó að ég áskilji mér allan rétt til brtt. við það.