21.11.1973
Efri deild: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

112. mál, vegalög

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við að bæta ræðu 1. flm þess frv., sem hér liggur fyrir til umr. Þó vildi ég taka fram örfá atriði.

Það verður að segja, eins og síðasti ræðumaður drap á, að, í algjört óefni er víða komið í sýsluvegamálum. Sýsluvegir eru að sjálfsögðu ekki síður notaðir af stærri og minni farartækjum heldur en þjóðvegirnir. Þar fara um hinir þyngstu bílar, mjólkurbílar, olíuflutningabílar og sitthvað fleira af þyngri ökutækjum, fyrir utan aðra minni bíla, og þessi umferð er allan ársins hring. Og það er alveg víst, að ef ekki verður bætt stórlega við tekjustofna til sýsluvegasjóðs, þá fer svo, að sýsluvegakerfið getur gjörsamlega brotnað niður. Eins og er, og fram hefur verið tekið, eru hreppaframlögin langt undir skynsamlegu og eðlilegu lágmarki. Og ef þau verða ekki hækkuð, þá þarf ekki að búast við því, að tekið verði til hækkunar það framlag, sem frá ríkissjóði kemur. Og því frv., sem hér liggur fyrir, er einmitt ætlað að koma á nokkurri lagfæringu, þótt hún sé að minni hyggju og sjálfsagt okkar allra flm. frv. hvergi nærri nóg, en þó skref til réttrar áttar. En hinn höfuðtekjustofn sýsluvegasjóða er svo ríkisframlagið, og það er í flestum tilfellum svo naumt, að það tekur varla tali. Þar þarf líka að ráða stórtæka bót á, ef sæmilega á að fara. Það er að sjálfsögðu algert lágmark, verði þetta frv. að lögum, að ríkissjóðsframlagið verði a. m. k. hlutfallslega hækkað.

Í minni sýslu, Rangárvallasýslu, eru 155 sýsluvegir, og lengd þeirra er um 250 km, eða réttir 248 km. Framlög 11 hreppa, sem standa að sýsluvegasjóði í þessu héraði, á árinu 1972 910 þús. kr. og ríkisframlagið 1 millj. 965 þús. kr., þannig að sýsluvegasjóður hefur fjármagn til þess að deila út til allra þessara vega á árinu 1972 samtals 2 millj. 800 þús. kr. rúmlega. Þetta er að sjálfsögðu upphæð, sem öllum þm. hlýtur að liggja í augum uppi, að er allt of lág. Upphæðin samanlögð nær ekki kaupverði meðalvörubíls. Í annarri sýslu, Árnessýslu, er vegalengd sýsluvega sennilega öllu meiri en í Rangárvallasýslu. Þar er tillag hreppa, sem eru 18 talsins, 1 millj. 833 þús. kr., en ríkisframlagið þar á móti 2 millj. 138 þús. kr., og er þá miðað við árið 1972. Í raun og veru segja þessar tölur, sem ég hef drepið hér á, sína sögu og að hér verður að bæta úr og það fyrr en seinna.

Um aðra tekjustofna er í raun og veru ekki að ræða en þetta hreppaframlag annars vegar og ríkisframlagið hins vegar. Þessir tveir tekjustofnar eiga að standa undir öllu vegaviðhaldinu og endurbyggingu sýsluvega, sem víðast hvar er mikil þörf fyrir. Þriðji tekjustofninn er til í löggjöfinni, fasteignaskattur til sýsluvegasjóðs, en um hann þarf varla að tala. Í Árnessýslu t. d., þar sem mikið er um sumarbústaði og önnur hýsi, sem eiga að greiða til sýsluvegasjóðs fasteignaskatt, er það svo, að það þykir ekki ómaksins vert að innheimta þennan fasteignaskatt. En hann mun vera á áætlun Árnessýslu fyrir árið 1973 um 200 þús. kr. alls, en þar eru um 1000 fasteignagjaldendur, eða 200 kr. á hvern gjaldanda að meðaltali.

Er alveg auðsætt, að hér þarf að stinga við fæti og bjarga þessum hluta vegakerfisins úr mjög alvarlegri hættu. Og með frv., eins og ég sagði áðan, er stigið spor í þá átt, þó að skammt nái að minni hyggju, ef ríkið kemur þá ekki að sínu leyti á móti og sýnir áþreifanlega viðleitni í því efni að leggja af sinni hálfu margfalt meira fjármagn fram en verið hefur. Og þess er að vænta, að þegar vegaáætlun verður tekin til endurskoðunar, verði vikið að þessum þætti vegamála. Og þm. verða að taka til mjög alvarlegrar yfirvegunar, í hverju horfi þessi hluti vega í okkar landi er, og þá er ég viss um, að augu þm. almennt munu opnast fyrir því, að hér þurfi að leggja fram framlag, sem nemur verulega hárri fjárhæð. Ég er í engum vafa um það, og ég vænti þess, að þegar að því kemur, að vegaáætlun verður endurskoðuð, þá komi sýsluvegir til íhugunar. Ég vildi því aðeins láta þessi fáu orð fylgja, þegar um svo veigamikið mál ræðir sem þetta er í raun og veru.