21.11.1973
Neðri deild: 26. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

73. mál, almenn hegningarlög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Um það efni, sem hv. þm. Guðlaugur Gíslason minntist á, gilda sérlög, en það kann að vera, þó að ég hafi það ekki alveg í huga samt, að einhver brot viðvíkjandi þeim verknaði, sem hann minntist á, geti fallið undir almenn hegningarlög. Hvað sem því líður, má sjálfsagt athuga, hvort ekki sé rétt að fela það undir almenn hegningarlög. Ég skal koma því á framfæri við þá hegningarlaganefnd, sem er að starfi. Ég endurtek, að það er sérstök löggjöf fyrst og fremst, sem fjallar um eiturlyf og meðferð þeirra, og svo var auk þess, eins og menn minnast, settur á fót sérstakur og sérstæður dómstóll, til bráðabirgða a. m. k., til þess að fjalla um þessi mál. Reynslan virðist sýna, að þess hafi verið full þörf, þar sem verkefni hafa hlaðist mjög að þessum dómi að undanförnu, og það virðist vera svo, að misferli, sem um er að tefla í sambandi við þessi mál, sé miklu meira og alvarlegra en menn höfðu gert ráð fyrir. En ég held, að það sé rétt að taka fram, að þó að það geti um sum tilvikin og suma þá þátttakendur, sem þar er um að tefla, verið full ástæða til þess að beita mjög ströngum refsiákvæðum, þá held ég, að vandamálið sjálft, sem þarna er um að ræða, þurfi fyrst og fremst annarrar lækningar við og annarra viðbragða við en beint refsingar, þó að, eins og ég sagði, það sé sjálfsagt, að hún eigi hinn fyllsta rétt á sér og eigi auðvitað að beita henni gagnvart sumum þeim, sem fást við þetta, eins og t. d. sumum þeim, sem gera sér það að atvinnu að selja þessi efni og útbreiða.