21.11.1973
Neðri deild: 26. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

78. mál, Seðlabanki Íslands

Flm. (Bjarni Guðnason) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér 4 frv. um breyt. á l. um 4 ríkisbanka, og til þess að stytta mál mitt, þá hygg ég, að sé ekki óeðlilegt, að ég fylgi þessum 4 frv. úr hlaði undir sama dagskrárliðnum. Ber það þá til. að þessi frv. snerta ríkisbankana, og gert er ráð fyrir sams konar breytingum á l. þeirra allra.

Sú breyting, sem þessi frv. gera ráð fyrir á l. þessara ríkisbanka, hljóðar svo: „Allar meiri háttar framkvæmdir á vegum bankans eru háðar sérstöku samþykki beggja, ráðherra og bankaráðs“.

Tilefni þess, að ég flyt þessi frv. öll, eru þingheimi vafalaust kunn. Upphaf þessa máls var hið svokallaða Seðlabankamál frá því í sumar, þar sem í ljós kom, að hæstv. bankamrh. hafði ekki tök á eða völd til að stöðva þá byggingu, eins og fram kom í svari hæstv. forsrh., þegar ég flutti fsp. um þetta mál hér á hæstv. Alþingi. Hæstv. forsrh. tók af skarið um þetta mál með svofelldu svari, með leyfi hæstv. forseta: „Mitt svar er það, að ráðh., í þessu tilfelli viðskrh., sem fer með bankamál, hefur hvorki með óbreyttum l. né samkvæmt venju um starfshætti banka og bankaráðs heimild til þess að stöðva byggingarframkvæmdir ríkisbanka, hvorki Seðlabankans né annarra banka.“ Þó að ég persónulega dragi í efa þessa túlkun hæstv. forsrh., þá skiptir það ekki meginmáli, heldur hitt, að það sé búið þannig um hnútana, að ljóst sé, að ráðh., viðkomandi rn., geti stjórnað þessum málum út frá þeirri efnahagsstefnu, sem ríkjandi er á hverjum tíma. Ég hef látið nokkur orð falla þessu til röksemdar i grg. minni með frv. um Seðlabanka Íslands, og ég vil leyfa mér að lesa þá grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Óþarft mun að fara mörgum orðum um það, að ekki verður við það unað, að ríkisbankar geti ráðist í stórfelldar fjárfestingar og framkvæmdir, án þess að heimild framkvæmdavaldsins komi til. Ella væru bankarnir ríki i ríkinu. Löggjafarvaldið getur ekki látið afskiptalaust, að ríkisbankarnir geti ráðist í byggingarframkvæmdir, sem kosta mörg hundruð millj. kr., eins og höll Seðlabankans við Arnarhól vitnar um, á meðan opinberar stofnanir þurfa að sækja um hverja krónu til 60 manna þings til þess að fá einhverja úrlausn. Sumar stofnanir bíða áratugum saman eftir því að eignast þak yfir höfuðið og mæta litlum skilningi. Má minna á Ríkisútvarpið (hljóðvarp) í þessu sambandi. Af þessu eftirlitsleysi Alþingis og framkvæmdavalds hefur leitt óeðlileg þensla bankakerfisins og byggingar fjölmargra bankahýsa. Þar hefur skort stefnumótun. Allt tal um áætlunarbúskap og forgangsröðum verkefna verður nánast orðin tóm, hafi ríkisstj. ekki tök á þessu. Þess vegna rekur nauður til endurskoðunar á löggjöf Seðlabankans og annarra ríkisbanka, svo að ekki verði um það villst, að bankakerfið og þróun þess falli inn i þá heildarstjórn, sem verður að hafa á efnahagsmálum þjóðarinnar.“

Ég leyfi mér að tala um eftirlitsleysi Alþingis, þótt það sé vitað, að Alþingi kýs bankaráð ríkisbankanna. Ég hygg, að reynslan verði sú, að bankaráð lítur fyrst og fremst á hagsmuni þess banka, sem það stjórnar, og hefur ekki heildarsýn yfir allt bankakerfið, og sé því eðlilegt, að það sé einhver aðili, sem hafi slíka heildarsýn og heildarstjórn á bankakerfinu.

Þótt ég telji, að í lögum 3 ríkisbanka, þ. e. a s., Seðlabanka Íslands, Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands, sé í raun og veru ljóst, að bankamrh. fari þar með æðstu stjórn, þá er öðruvísi farið um Búnaðarhanka Íslands. Í l. um Búnaðarbanka Íslands er aðeins sagt, að ráðh. hafi „umsjón“ bankans, og það er þá nokkuð óljóst, hvað í því felst. Hins vegar er í l. um hina 3 bankana talað um „yfirstjórn“ bankans, og það virðist mér augljósrar merkingar. Þess vegna er ljóst, að það þarf að fella inn í 1. allra þessara banka sams konar ákvæði, þannig að ekki geti leikið nokkur vafi á því, að ríkisvaldið geti haft yfirstjórn og markað stefnu varðandi bankakerfið i heild.

Nú er það svo, að boðuð hefur verið endurskoðun bankakerfisins, og hæstv. bankamrh, sagði fyrir áramót, að lagafrv. þess efnis væri á næsta leyti, en ekki virðast miklar horfur á því. En fari svo, að fram komi einhver endurskoðun á löggjöf ríkisbankanna, þá tel ég nauðsynlegt, að ákvæði af þessum toga verði tekin upp í þá löggjöf, sem þá verður samin. A. m. k. er ljóst, að ekki er, að ég hygg, boðuð nein breyting á l. Seðlabankans, hvað sem segja má um viðskiptabankana, þannig að það fer ekki milli mála, að hér muni vera mikil þörf á að fella þetta inn i lög Seðlabankans.

Ég hefði kannske látið mér nægja að bíða með þetta, þar til nýtt frv. um viðskiptabanka ríkisins kæmi fram, en ég tel, að þannig hafi verið haldið á endurskoðun bankalöggjafarinnar, að það sé með öllu óljóst, hvað af verður og hvernig það muni líta út, þannig að ég tel, að þetta mál þoli ekki lengri bið.

Ég skal nú ekki hafa um þetta fleiri orð að sinni, en mælist til þess, að þessum frv. öllum 4 verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.