21.11.1973
Neðri deild: 26. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

78. mál, Seðlabanki Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Fyrst umr. eru hafnar um þessi frv. á annað borð, tel ég rétt að leggja hér nokkur orð í belg, í tilefni af því sérstaklega, að hæstv. dómsrh. gaf lögskýringu varðandi Seðlabankalögin og bankalögin yfir höfuð að tala í fyrirspurnatíma hér á hinu háa Alþingi fyrir fáeinum vikum, einmitt varðandi það mál, er tilefni til flutnings þessara frv. Hæstv. dómsmrh. sagði, eins og hv. síðasti ræðumaður vitnaði til, að lögum skv. og venju hefði ráðh. bankamála ekki rétt til afskipta af byggingarmálum bankanna. Ég tel, að fyrst umr. eru hafnar á annað borð, verði að koma fram hér, að um þessa lögskýringu hæstv. dómsmrh., sem er fyrrv. prófessor í stjórnskipunarrétti, eru starfsbræður hans mjög ósammála. Það er uppi önnur og gerólík skoðun í lögfræðingastéttinni í þessum efnum. Og það hefur komið fram opinberlega, að einn af núv. prófessorum Háskólans túlkar lagaákvæði um Seðlabankann og þá væntanlega um hina bankana líka með allt öðrum hætti en hæstv. dómsmrh. Mér er kunnugt um, að fleiri lögfræðingar, mikilsmetnir lögfræðingar bæði í stétt fræðimanna og lögmanna, eru á annarri skoðun en fram kom í skýringu hæstv. dómsmrh. Þeir eru þeirrar skoðunar, að túlka beri gildandi lagaákvæði um valdaskiptingu bankamrh., bankaráða og bankastjórna þannig, að ef um ágreining sé að ræða milli bankamrh. annars vegar og bankastjórnar, þ. e. a. s. bankaráðs og bankastjóra, hins vegar, þá ráði vilji ráðh., m. ö. o. ef skiptar skoðanir séu milli þessara tveggja aðila, þá sé það vilji ráðh., úrskurður hans, sem eigi að hafa gildi.

Ég er ekki lögfræðingur og skal engan dóm á það leggja, hvor lögskýringin sé réttari. Ég tel það verða að koma fram við þessa umr., fyrst umr. hefur orðið á annað borð, að það eru tvær skoðanir uppi meðal lögfræðinga um þetta efni. Í rauninni er það ekkert einsdæmi, að ólíkar skoðanir séu uppi meðal lögfræðinga eins og annarra fræðimanna. En það má ekki halda áfram umr. hér á hinu háa Alþingi á þeim grundvelli, að sú lögskýring, sem kom fram af hálfu hæstv. dómsmrh., sé sú eina, sem til greina komi, ekki hvað síst þegar hv. síðasti ræðumaður, fyrrverandi ráðh. Búnaðarbankans, virtist taka undir eða trúa þeirri lögskýringu, sem hæstv. dómsmrh. hafði gefið hér fyrir nokkrum vikum.

Ég vil vekja athygli á því, að ákvæði Seðlabankalaganna annars vegar og laganna um hina ríkisbankana hins vegar um valdaskiptingu milli bankaráðs annars vegar og bankastjórnar hins vegar eru ekki hin sömu, ákvæðin eru öðruvísi. Vald bankastjórnar Seðlabankans er mun meira en vald bankastjórna viðskiptabankanna, og vald bankaráðs Seðlabankans er mun minna, en vald bankaráða viðskiptabankanna. Þetta er með ráðnum hug gert með þessum hætti, þó að ég reki ekki ástæðuna fyrir því, en bæði löggjöfin um Seðlabankann og gildandi löggjöf um ríkisviðskiptabankana voru settar, meðan ég gegndi embætti bankamrh.

Það er rétt, sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, hv. þm. Ingólfs Jónssonar, að það hefur ekki verið venja, a. m. k. ekki í minni bankamálaráðherratíð, viðskiptabankanna að hafa samráð um byggingarframkvæmdir við ráðherra. Þó var mér ávallt kunnugt um þær framkvæmdir, sem á döfinni voru. Ég taldi aldrei ástæðu til að hafa nokkur afskipti af þeim. Ef ég hefði haft það, þá hefði kannske reynt á, hvor lögskýringin væri réttari. Ef mig hefði greint á við t. d. Landsbankann um byggingaframkvæmdir hans, hefði reynt á, hvor lögskýringin væri réttari, hæstv. dómsmrh. eða þess prófessors í lögum við Háskólann, sem nú þegar hefur sagt skoðun sína opinberlega á málinu og mun eiga eftir að gera það rækilega í grein eða greinum.

En samstarf bankastjóra og bankaráðs, ríkisviðskiptabankanna við ráðh. hefur verið og er og á að vera með allt öðrum hætti en samstarf milli hans og bankastjórnar og bankaráðs Seðlabankans, vegna þess að hlutverk viðskiptabankanna er allt annað en hlutverk Seðlabankans. Viðskiptabankarnir eru útlánastofnanir, og það er ekki ástæða til þess, að þeir hafi náin, vikuleg, hvað þá dagleg, jafnvel ekki mánaðarleg samráð við sína ráðherra um vandamál, sem á döfinni eru. Þó geta slík mál og voru oft í þau 10–11 ár, sem ég gegndi starfi bankamrh. á döfinni í ríkisviðskiptabönkunum, að stjórnir þeirra töldu ástæðu til þess að hafa samráð um þau við sínu ráðherra. En öðru máli gegnir um Seðlabankann. Starfssvið Seðlabankans og verkefni hans í heild eru þess eðlis, að mjög náið samstarf er eðlilegt milli stjórnar Seðlabankans annars vegar og bankamrh. hins vegar. Enda var það svo í öll þau ár frá því að Seðlabankanum var komið á fót 1961 og meðan ég hafði kynni af þessum málum, — ég hafði með þau að gera til ársins 1971, — að mjög náin samráð og mjög náið samstarf var á milli viðskrn. annars vegar og bankastjórnar Seðlabankans hins vegar. Um allt þetta árabil var um að ræða svo að segja vikulega fundi með fulltrúum frá viðskrn., þar voru ráðh. og ráðuneytisstjórar annars vegar og stjórn Seðlabankans hins vegar. Þetta var eðlilegt, vegna þess að Seðlabankinn er ríkisstofnun, sem falið er að móta framkvæmd á mjög veigamiklum sviðum varðandi efnahagsstefnu og fjármálastefnu ríkisins. Viðskiptabankarnir fjalla ekki um stefnumál á sviði efnahagsmála, heldur beina framkvæmd, þ. e. útlánastarfsemi. Seðlabankinn er stefnumótandi ríkisstofnun á mjög mikilvægu sviði, og þá er ekkert eðlilegra en að mjög náið samstarf sé á milli stjórnar hans annars vegar og ríkisstj. hins vegar, þ. e. þess aðila í ríkisstj., sem falin er yfirstjórn bankamála, enda var það svo allan þann rúma áratug, sem ég hafði með þessi mál að gera. Þess vegna er mér kunnugt um, hvernig stjórn Seðlabankans hefur unnið að fyrirhuguðum byggingarframkvæmdum sínum.

Þegar efnt var til teikninga á nýrri Seðlabankabyggingu á sínum tíma, var það gert í fullu samráði við mig, sem var þáv. bankamrh. Þær hugmyndir bankastjórnarinnar um byggingarframkvæmdir voru ræddar við okkur fulltrúa ríkisvaldsins á fundum. Ástæðan til þess, að ekki var hafist handa um framkvæmdir skv. teikningum, var sú, að það var sannmæli bankastjórnarinnar annars vegar og mín sem bankamálaráðherra hins vegar, að í þær skyldi ekki ráðist. Nú fyrir nokkru varð hins vegar breyting á, þ. e. eftir að núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Mér kemur það mjög á óvart, og ég leyfi mér hreinlega að draga í efa, að stjórn Seðlabankans hafi tekið ákvörðun um að hefja framkvæmd mörg hundruð milljóna kr. byggingar á þeirri lóð, sem búið var að úthluta, án samráðs við sinn ráðh., þ. e. án samráðs við ríkisstj. Hafi bankastjórn Seðlabankans gert það, þá er um gerbreytt vinnubrögð að ræða frá því, sem þau voru mótuð fyrir meira en áratug og var haldið í meira en áratug. Ég fullyrði, að það hefði verið óhugsandi frá stofnun Seðlabankans og þangað til stjórnarskipti urðu, að stjórn Seðlabankans, bankastjórn í samráði við bankaráð, hefði tekið ákvörðun um stórkostlega nýbyggingu fyrir 300–400 millj. kr. án samráðs við sinn ráðh. Ég tek vísvitandi svo til orða til þess að leggja ekkert orð í belg um það, hvor lögskýringin sé réttari, — ég segi viljandi og legg áherslu á það: ég tel óhugsandi, að bankastjórinn hafi tekið slíka ákvörðun án samráðs við sinn ráðh. Ég vil líka endurtaka, að ef svo er, þá er um nýja siði að ræða við stjórn þessara mikilvægu mála. En þess vegna segi ég þetta, að hæstv. núv. bankamrh. hefur talað þannig í fjölmiðlum, í sjónvarpi og útvarpi og látið hafa það eftir sér í hlöðum, að sér sé þetta bankabyggingarmál algerlega óviðkomandi, hann hafi hvorki rétt né skyldu til að hafa af því nokkur afskipti.

Ég skal ekkert blanda mér í þær umr., sem fram hafa farið um það, hvort byggingin sé æskileg eða óæskileg. Um það er búið að segja margt og mikið, og ég vil ekki blanda því inn í þetta mál, enda gefur frv. ekki beint tilefni til þess. En ég vil leyfa mér í allri vinsemd að beina þeirri fsp. til hæstv. bankamrh., hvort honum hafi virkilega verið ókunnugt um það, þegar bankastjórnin ákvað að hefja bygginguna, hvort honum hafi virkilega verið ókunnugt um það, þegar byggingin var í raun og veru hafin. Ég tel mjög mikilvægt að fá um þetta svar, vegna þess að þá kemur í ljós, hvort haldið hefur verið áður viðteknum starfsháttum í samstarfi Seðlabankans annars vegar og viðskrn. hins vegar eða hvort nýir siðir eru hér komnir til skjalanna. Ég mundi mjög harma, ef svo væri. Ég hef gengið út frá því sem vísu, að Seðlabankinn hafi haft samráð við sinn ráðh., áður en hann hóf bygginguna. Þess vegna hafa mér komið á óvart yfirlýsingar hæstv. ráðh. um hið gagnstæða í fjölmiðlum. Ég hef ekki viljað skipta mér af þessu fram til þessa, en fyrst umr. um þessi frv. eru hafnar í tilefni af einmitt þessu atriði, þá sé ég ástæðu til þess, að þessari mjög mikilvægu spurningu sé komið á framfæri og við henni fengið skýrt svar, og ég tel mjög mikilvægt, hvert það verður. Ef svarið er, að Seðlabankinn hafi hafið þessar framkvæmdir án nokkurs samráðs við sinn ráðh., tel ég það mjög vítavert. Ef svarið er hitt, að ráðh. hafi fengið að vita um fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir Seðlabankans og segi samt sem áður á eftir, að honum komi málið ekki við, þá kemur mér það mjög á óvart og tel það algerlega ranga afstöðu.

Ég er þeirrar skoðunar, að ef ráðh. hefur fengið að vita um byggingarframkvæmdirnar og ef hann hefði sagt við Seðlabankann: Ég er þeim andvígur, — þá hefði Seðlabankinn farið eftir orðum hans. Hann hefði viðurkennt í reynd, að síðasta orðið í þessum efnum er hjá ráðh., sem hefði þá auðvitað ekki sagt sitt síðasta orð nema að höfðu samráði við sína samráðh. í ríkisstj. Þannig hefði ég a. m. k. hagað mér, ekki sagt mitt síðasta orð í svo mikilvægu máli án samráðs við ríkisstj. alla. En ég segi það enn og aftur: Ef ráðh. hefur vitað um framkvæmdirnar og ef hann hefði sagt: Ég er á móti byggingunni — þá er ég sannfærður um, að Seðlabankinn hefði ekki ráðist í hana, ekki vegna þess að ég sé að andmæla lögskýringum hæstv. dómsmrh. og taka undir lögskýringar þess prófessors, sem ég nefndi áðan, heldur vegna þess, að ég tel það eðli málsins, að stofnun eins og Seðlabankinn eigi ekki að ráðast í að taka jafnmikilvæga ákvörðun og bygging 300–400 millj. kr. húss er, án þess að hann áður gefi yfirmanni sínum kost á að segja skoðun sína á málinu. Ef til þess hefði komið, að ráðh. hefði sagt nei og bankastjórarnir haldið við sitt já, ef ráðh. hefði sagt: Ég vil ekki, að ráðist sé í bygginguna, — en bankastjórnin hefði sagt: Ég vil byggja, — þá hefði reynt á það, hvor lögskýringin er réttari. En mér vitanlega hefur ekki til þess komið. Þetta tel ég mjög mikilvægt, að upplýst verði, og endurtek því spurningu mína til hæstv. viðskrh.: Vissi hann ekki um það, þegar bankastjórn Seðlabankans tók ákvörðun um að hefja byggingarframkvæmdir? Vissi hann ekki um það, þegar byggingarframkvæmdirnar voru hafnar í reynd?