22.11.1973
Neðri deild: 28. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

100. mál, kaupstaðarréttindi til handa Dalvíkurkauptúni

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég mun nú ekki hafa langa framsögu fyrir þessu máli, því að það var flutt hér í fyrra og þá gerð grein fyrir því. Frv. er flutt samkv. sérstakri beiðni hreppsnefndar Dalvíkurhrepps og á sér nokkurn aðdraganda. Það hefur verið rætt alllengi, í allmörg ár, í hreppsnefnd Dalvíkur, að æskilegt væri, að Dalvík fengi kaupstaðarréttindi. Að mínum dómi er höfuðatriðið nú, að þetta mál fái ítarlega skoðun í þn. Ég legg því til, herra forseti, að málinu verði vísað til félmn. eins og fleiri málum, sem fjallað hefur verið um hér í hv. deild og varða kaupstaðarréttindi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta öllu fleiri orð, en vænti þess, að hv. félmn. taki það til gaumgæfilegrar skoðunar.