24.10.1973
Neðri deild: 4. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

22. mál, happdrættislán ríkissjóðs

Lárus Jónason:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð út af þessu frv., sem hér er til 1. umr. Hér er hreyft mjög merku og viðamiklu máli, sem ég vænti eins og 1. flm., að verði vel tekið af hv. Alþ. Ég vil í þessu sambandi, að þessu máli er hreyft, minna á það, að á undanförnum árum hafa verið framkvæmdar vegáætlanir á landsbyggðinni, sérstakar landshlutaáætlanir. Þannig hefur verið unnið að Vestfjarðaáætlun, Norðurlandsáætlun og Austfjarðaáætlun. Það hefur verið eindóma álit manna heima fyrir á landsbyggðinni, að leggja bæri höfuðáherslu á að bæta samgöngur milli byggðarlaganna sjálfra í landshlutunum. Nú hefur þetta verk verið hafið með þessum hætti, að sérstakar áætlanir hafa verið framkvæmdar og eru í framkvæmd á þessum sviðum, og þá er fyllilega tímabært að taka þetta mál sérstaklega til meðferðar og framkvæma þær miklu vegabætur, sem er vikið að í þessu frv. Ég tel, að það sé ástæða til að benda sérstaklega á það, að hér er verið að vinna í beinu framhaldi af þessum landshlutaáætlunum og þetta mikla mál, sem hér er, komi þannig til góða fólkinu í landinu í þeirri réttu framkvæmdaröð miðað við þarfir fólksins í landinu.