22.11.1973
Neðri deild: 28. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

86. mál, rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Við hv. 3. þm. Vestf. höfum leyft okkur að bera fram till. til þál. um rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu. Till. þessari var útbýtt hér á Alþ. hinn 9. nóv., að ég held, og er því nokkur tími liðinn frá því og þar til nú, að hún kemur hér til umr. Einnig hefur það gerst síðan þessari till. var útbýtt hér á Alþ., að gert hefur verið bráðabirgðasamkomulag við Breta í landhelgisdeilunni. Hvorugt þessara atriða, sem hér hefur verið minnst á, breytir í neinu þeirri nauðsyn, að mál það, sem till. fjallar um, verði rannsakað ofan í kjölinn.

Till., sem er á þskj. 93, hljóðar svo, með leyfi forseta:

Nd. Alþ. ályktar að skipa n. skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka framkvæmd landhelgisgæslu frá 15. okt. s. l. og kanna, hvort ásakanir, sem fram hafa verið bornar um, að gæsla landhelginnar á Vestfjarðamiðum hafi ekki verið með eðlilegum hætti, hafi við rök að styðjast. Skulu nm. vera 5, einn tilnefndur af hverjum þingflokki. N. skal hafa rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum. Að loknum störfum skal n. gefa Nd. skýrslu um niðurstöður sínar.“

Það mun heldur fátítt, að till. til þál. séu bornar fram í deildum Alþingis. Þó munu þess nokkur dæmi, enda er ráð fyrir því gert, eins og fram kemur í till., í 39. gr. stjórnarskrárinnar, að hvor þd. geti skipað n. innan þdm. til að rannsaka mikilvæg mál, er almenning varða. Og að áliti okkar flm. þessarar till, er hér um svo mikilvægt mál að ræða, sem tvímælalaust varðar þjóðarheildina, að fyllsta þörf er á, að rannsókn fari fram, svo að hið rétta komi í ljós.

Ég tel víst, að öllum hv. þdm. sé ljóst, að allt frá því um miðjan okt., s. l. hefur gætt mikillar og vaxandi gremju og óánægju meðal skipstjórnarmanna og sjómanna almennt á Vestfjörðum, vegna mjög slakrar framkvæmdar landhelgisgæslu á fiskimiðum úti fyrir Vestfjörðum. Birst höfðu svo til daglega í fjölmiðlum viðtöl og yfirlýsingar skipstjórnarmanna á vestfirska skipaflotanum, þar sem þeir létu í ljós megnustu óánægju með gæslu landhelginnar. Þessir aðilar hafa ekki verið myrkir í máli, og ekki verður annað séð á því, sem birst hefur frá þeim, en að þeim beri saman í svo til öllum atriðum. Einnig hefur Útvegsmannafélag Vestfjarða samþykkt ályktun, þar sem mótmælt er augljósu afskiptaleysi Landhelgisgæslunnar. Hins vegar virðist, að því er best verður séð á því, sem heyrst hefur frá talsmönnum Landhelgisgæslunnar, að þar kveði við annan tón. Yfirstjórn landhelgisgæslu virðist ekki kannast við, að það ástand, sem skipstjórnarmennirnir vestfirsku munu hafa lýst, hafi ríkt á miðunum úti fyrir Vestfjörðum á umræddum tíma.

Hinn 22. okt. s. l. kvaddi ég mér hljóðs utan dagskrár í Sþ. ásamt hv. 2. þm. Vestf. og gerði að umræðuefni það ástand, sem ríkt hefði á Vestfjarðamiðum að sögn skipstjóra þar vestra. Ég vitnaði þá til yfirlýsingar, sem hæstv. dómsmrh. hafði gefið, áður en hann hélt til London, um, að engin breyting yrði á framkvæmd landhelgisgæslunnar, meðan viðræður hans við breska forsrh. stæðu yfir. Einnig spurði ég hæstv. dómsmrh. um það, hvort Landhelgisgæslunni hefði verið gefin fyrirmæli um að hafast ekkert að. Dómsmrh. greindi frá því, að fyrirmæli sín til Landhelgisgæslunnar væru þau sömu og verið hefðu. Ég vil taka það sérstaklega fram hér og nú, að ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að hæstv. ráðh. hafi þarna farið með rétt mál. Einnig gerði ráðh. grein fyrir því áliti gæslunnar, að eðlileg gæsla landhelginnar ætti sér stað.

Síðan þetta var, hefur óánægja mjög magnast, og síður en svo hefur dregið úr ásökunum skipstjórnarmanna þar vestra á hendur Landhelgisgæslunni. Dómsmrn. hefur nú óskað skýrslugerðar um þessa atburði, og hafa skýrslur verið teknar af skipstjórnarmönnum vestra hjá bæjarfógetaembættinu á Ísafirði, og eftir því sem ég best veit, hafa þeir þar staðfest framburð sinn og ásakanir á hendur gæslunni. En flm. þessarar þáltill. þykir svo mikið í milli bera í ásökunum skipstjórnarmanna annars vegar og umsögn talsmanna Landhelgisgæslunnar hins vegar, að ekki verði hjá því komist, að alhliða rannsókn fari fram, enda hér um alvarlegt mál að ræða, sem allan almenning varðar.

Að sjálfsögðu mætti miklu fleiri orðum fara um ýmis atriði, sem þetta mál varðar, en því skal sleppt að sinni. En með þetta eitt í huga, að sannleikurinn í þessu máli komi í ljós, er þáltill. þessi flutt, og ég vona, að hv. þdm. séu okkur flm. sammála um, að öllum sé fyrir bestu, að málið verði til mergjar krufið á þann hátt, sem þáltill. gerir ráð fyrir.

Ég vil taka það skýrt fram, að þessari till. er ekki beint að einum eða neinum ákveðnum aðila. En það virðist vera ljóst af því annars vegar, sem skipstjórnarmenn hafa haldið fram og hafa nú staðfest fyrir rétti, og hins vegar af því áliti, sem talsmenn Landhelgisgæslunnar hafa látið í ljós, að þar greinir svo mikið í milli, að vart verði hjá því komist, að hið rétta í málinu komi í ljós.

Ég sé ekki ástæðu til. herra forseti, að þessu sinni að fara fleiri orðum um þessa till. Ég hygg, að hv. þdm. sé öllum ljóst, af hvaða ástæðum hún er flutt. Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.