22.11.1973
Neðri deild: 28. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

86. mál, rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Gamalt íslenskt máltæki segir: „Bragð er að, þá barnið finnur“, og er það eftirtektarvert, að meðflm. hv. 1. flm. þessarar till. er fyrrv. ráðh. í hæstv. Ríkisstj., nýskriðinn úr náðarfaðmi hæstv. forsrh., — maðurinn, sem eftir að hafa verið samgrh. í tvö ár, lætur sitt fyrsta verk hér á hv. Alþ. vera að flytja frv. um, að það verði tekið nokkurra tuga millj. kr. lán eða gefin út skuldabréf til þess að ljúka Djúpvegi svokölluðum.

Hv. frsm. sagði í sinni framsöguræðu hér áðan:

Ég hef ekki ástæðu til annars en að ætla, að forsrh. fari með rétt mál.

Í sambandi við þessa till. hljóta auðvitað allir að sjá, að það er farið fram hjá máli málanna, sem er að vega fyrir sér orð og skýringar æðsta manns Landhelgisgæslunnar, hæstv. dómsmrh. Það fer náttúrlega ekki fram hjá neinum, þótt hv. frsm. sé nú að reyna að komast fram hjá þeirri staðreynd, að það er dómsmrh., sem á að svara fyrir það, sem gerst hefur hjá Landhelgisgæslunni, ef eitthvað hefur þar gerst, sem við höfum ekki enn þá sannreynt, þótt ég hins vegar vilji ekki enn átelja þá skipstjórnarmenn hina íslensku, sem hafa ákært gæsluna og yfirstjórn hennar fyrir það að hafa ekki gætt sinnar skyldu. Ég vil þess vegna strax taka það fram, að ég mun heils hugar fylgja þessari till., en þó með nokkrum breytingum.

Áður en ég held áfram með mál mitt, mun ég efnislega skýra frá því nú þegar, hvað ég teldi, að deildin þyrfti að gera, til þess að þessi till. næði tilgangi sínum og uppfyllti sjálfsagðar óskir þeirra, sem hafa sömu skoðun og ég. Ég sé enga ástæðu t. d. til þess, að það eigi að vera aðeins 5 menn í þessari n. Við skulum láta vera jafnmarga í þessari n. eins og þingstyrkur þingflokkanna segir til um og hafa hana 7 manna n. og kjósa þá að sjálfsögðu hlutfallskosningu. Það gæti þá verið, að við gætum komið þar inn litla þingflokknum okkar með Bjarna Guðnason hv. þm. þar í fararbroddi, enda ekki margir á eftir honum í þeim þingflokki. En ég gæti trúað því, að hann hefði líka áhuga á því að fylgjast með slíkri rannsókn og komast til botns í þessu máli.

Þá tel ég alveg óhæft að vera að miða við þessa rannsókn við tímann frá 15. okt. s. l. og aðeins við Vestfjarðamið. Minnast engir orða íslenskra sjómanna og skipstjórnarmanna við Austurland á yfirstandandi ári? Eigum við ekki að láta þessa rannsókn ná yfir allt yfirstandandi ár og þá t. d. yfir Austfjarða- og Vestfjarðamið? Hæstv. forsrh. hefur gefið yfirlýsingar og skýringar á framkomu og starfi Landhelgisgæslunnar við Austurland á yfirstandandi ári, og ég tel alveg nauðsynlegt, að þessi rannsókn nái yfir starf gæslunnar allt þetta ár, ef út í rannsókn á að fara á annað borð.

Í till. segir, að n. eigi að hafa rétt, — hún auðvitað hefur það samkv. stjórnarskránni, — til þess að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum. Af hverju er verið að fara í kringum þetta eins og köttur í kringum heitan graut? Af hverju ekki að orða það á þann veg, að n. skuli hafa rétt til þess að krefjast skýrslna, munnlega og bréflega, bæði af embættismönnum og ráðherra, dómsmála, svo og starfsmönnum Landhelgisgæslunnar og öðrum einstaklingum, og þar koma að sjálfsögðu til þeir einstaklingar úr stétt og röðum sjómanna, sem hafa borið þessar þungu ákærur á yfirstjórn Landhelgisgæslunnar.

Það vakti mikla athygli mína, þegar umr. stóðu yfir hér fyrir nokkrum dögum á hv. Alþ. um samkomulagið við Breta, hve margir þm. í ræðum sínum og fyrirsvörum voru áfjáðir í að telja afstöðu þeirra hinna sömu byggða á því, að þeir væru að gæta öryggis sæfarenda hér við Ísland, og þá geri ég ráð fyrir, að átt hafi verið við íslenska sjómenn og ekki aðeins fiskimenn, heldur og sjómenn á skipum Landhelgisgæslunnar. Við vitum, að það hefur verið talað um, að einn sjómaður hafi látið lífið og orsök þess slyss hafi verið óbeinn árekstur á milli eins af okkar varðskipum og breskra lögbrjóta, sem ég kalla í þessu tilfelli. Það virðist gleymast um leið og hafa gleymst þeim hinum sömu, sem hafa haft þetta á vörunum, að þeir væru að gæta öryggis íslenskra sjómanna hér í kringum landið, að fyrir utan þennan eina sjómann, sem hefur látið lífið, við skulum segja beint vegna árekstra í deilunni við Breta og Vestur-Þjóðverja, eru 32 sjómenn aðrir íslenskir, sem hafa látið lífið frá 1. sept. s. l., þegar landhelgin var færð út, og þeirra dauði verður ekki rakinn til þessa. En ég minnist þess, að um leið og hæstv. dómsmrh. og hæstv. ríkisstj. tók leigunámi eitt af skipum Hvals hf., þá varaði útgerðarmaður og aðaleigandi þeirra skipa mjög við því, að þessi skip væru ákaflega hættuleg, þau væru mjög hættuleg til þessara starfa, sérstaklega yfir vetrartímann. Ég hafði spurnir af því nú í gær, að stórt og mikið fiskiskip, tiltölulega nýlegt, sem var að koma frá Noregi, var keypt þaðan til Vestfjarða, — sneri við út af Austfjörðum og fór suður fyrir land vegna mikillar ísingarhættu, sem skipstjórinn á skipinu taldi vera, og vildi þess vegna ekki stofna skipshöfn sinni í hættu með því að sigla norður fyrir land. Við verðum þess vör nú í fréttum og það er engin dul dregin þar á, að nú í fyrsta skipti um langan tíma eru okkar varðskip látin draga fiskiskip til hafnar, ekki aðeins íslensk, heldur og erlenda báta norðan úr hafi, þó að mörg önnur skip hefðu getað dregið þann hinn sama bát til hafnar án þess að stofna lífi skipshafnar eða hagsmunum útgerðar í hættu á þeim bát. Tvö af þrem aðalvarðskipum okkar eru bundin í þessu, en skipið, sem eigandinn taldi vera hættulegt að vetrarlagi, er látið vera úti fyrir Vestfjörðum við landhelgisgæslu. Og þarna er komin umhyggja sömu manna fyrir lífi og öryggi íslenskra sjómanna. Hræsnin í þessu máli dylst auðvitað engum, sem til þekkir, og ég vil leyfa mér að skora á hv. þd. að samþykkja þessar till., þó með nokkrum breytingum, sem ég mun koma síðar að, ef ástæða gefst til í ræðu, en annars með brtt.