22.11.1973
Neðri deild: 28. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

86. mál, rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég styð þá till., sem hér er til umr., en ég hef við hana að athuga hið sama og hv. síðasti ræðumaður, að hún sé ekki nógu víðtæk. Ég tel, að hún ætti að taka til landhelgisgæslunnar ekki aðeins frá 15. okt. s. l., heldur alveg frá því að landhelgin var færð út í 50 mílur. Ég leyfi mér að beina því til þeirrar n., sem fær till. til athugunar, að það má auðveldlega breyta henni í það horf, sem ég er hér að tala um, með því að setja í stað orðanna „15. okt. s. l.“ orðin : „1. sept. 1972“ og fella brott í 3. og 4. línu orðin „á Vestfjarðamiðum“. Þá tekur till. til alls þessa tímabils og allrar landhelginnar.

Ég vona sem sagt, að till. hljóti samþykki og það sem allra fyrst. Það er kominn tími til þess, að upp létti þeirri þoku, sem grúft hefur yfir þeim málum, sem varða stjórn Landhelgisgæslunnar. Óánægjan með þau mál hefur oft bitnað á þeim, sem síst skyldi, þ. e. a. s. áhöfnum varðskipanna og sérstaklega yfirmönnum þeirra. Hún hefur bitnað á þeim mönnum, sem hv. síðasti ræðumaður, Pétur Sigurðsson, nefndi hér í ræðu okkar „bestu löggæslumenn“. Það er fullkomin ástæða til þess að ætla, að þeim hafi hvað eftir annað verið settar hömlur í störfum og jafnvel bannað að gera það, sem þeir hefðu sjálfir viljað gera og talið réttast að gera. Þessir menn eiga að mínum dómi ótvíræðan rétt til þess, að þjóðin fái vitneskju um það, hverjir þessu hafa ráðið. Þeir eiga allt annað skilið heldur en að verða að liggja undir ámæli fyrir dugleysi og jafnvel hugleysi. Og ég er sannfærður um það, að þeir fagna allir innilega þessari till., því að ef sett verður rannsóknarnefnd í þessi mál, þá leiðir af sjálfu sér, að yfirmenn varðskipanna verða kallaðir fyrir, og þá gefst þeim kærkomið tækifæri til þess að gera þjóðinni grein fyrir því hlutskipti, sem þeir hafa orðið að sæta í störfum sínum.

Til þess að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning, þann misskilning, að í þessum orðum mínum felist einhver sérstök ásökun í garð hæstv. dómsmrh. persónulega, þá vil ég taka það fram, að þrátt fyrir allt er það einróma álit yfirmanna Landhelgisgæslunnar, — það veit ég, — það er einróma álit þeirra, að þeir eigi nú að mæta meiri skilningi af hálfu viðkomandi yfirvalda en verið hefur um langt árabil.

Hv. síðasti ræðumaður taldi, að þessi till. beindist fyrst og fremst að hæstv. forsrh. og dómsmrh. Nú er það að vísu rétt, að þegar þessi mál hefur borið á góma, þá hefur hæstv. dómsmrh. í yfirlýsingum sínum aldrei dregið neitt úr varðandi sína eigin ábyrgð. Í þessu kemur að mínum dómi fram drengskapur mannsins. Hann telur sér siðferðilega skylt að bera blak af yfirmönnum Landhelgisgæslunnar, þ. e. a. s. þeim, sem hafa með hendi hinn daglega rekstur, miklu meira en hæstv. dómsmrh. Og ég virði ráðh. fyrir drengskap hans. En ég hef fullkomna ástæðu til þess að ætla, að það, sem okkur ýmsum finnst að miður hafi farið í gæslu Landhelgisgæslunnar, hafi oft og kannske oftast gerst á ábyrgð annarra yfirmanna gæslunnar heldur en hæstv. ráðh. þrátt fyrir hans háa embætti. Ég hef fullkomna ástæðu til þess að ætla, að hann hafi oft vegna anna eða af öðrum ástæðum ekki haft aðstöðu til afskipta, þegar fyrirmæli hafa verið gefin, og jafnvel, að hæstv. ráðh. hafi á stundum verið gefnar rangar eða jafnvel villandi upplýsingar.

En m. ö. o.: ég styð þessa till., vegna þess að ég er sannfærður um það, að rannsóknarnefnd í þessum málum mundi leiða í ljós, að ekki aðeins yfirmenn varðskipanna hafa verið hafðir fyrir rangri sök, heldur einnig hæstv. ráðh. oft á tíðum.

Úr því að ég er farinn að tala hér sérstaklega um hæstv. ráðh., vil ég nota tækifærið til þess að óska honum til hamingju með það, að sá alkunni landhelgisbrjótur, sá argi þrjótur Northern Sky hefur verið strikaður út af skrá þeirra skipa, sem leyfi fengu til veiða innan 50 mílna markanna við undirskrift samninganna við Breta, — að fyrsti breski togarinn eftir undirskrift samninganna hefur verið settur úr leik. Og það er einmitt Northern Sky, en skipstjórinn á þeim togara hafði sig jafnan mest í frammi, þegar bresku togaraskipstjórarnir voru að heimta, að breski flotinn yrði sendur inn fyrir landhelgismörkin til þess að kenna okkur Íslendingum „mannasiði“, eins og þeir kumpánar orðuðu það, „good manners“. Mér er þeim mun ljúfara að flytja hæstv. ráðh. þessar hamingjuóskir sem ég hef fundið samkomulaginu margt til foráttu, einkum ákvæðinu um eftirlitið. Hæstv. ráðh. hefur haldið því fram, að ákvæðið tryggði nægilega rétt okkar. Það höfum við hins vegar ekki talið ýmsir. En ég læt í ljós þá von, að þetta fyrsta próf í því efni sé fyrirboði þess, að hæstv. ráðh. hafi haft þar lög að mæla, en að grunsemdir mínar og annarra gagnrýnenda umrædds ákvæðis eigi eftir að reynast hafa verið ástæðulausar.

En víkjum svo aftur að þeim vægast sagt takmarkaða skilningi, sem okkar bestu löggæslumenn hafa nú um langt árabil orðið að sæta af hálfu viðkomandi yfirvalda. Ég vil nefna aðeins örfá dæmi.

Á varðskipunum íslensku eru aðeins gúmmíbátar. Þessir bátar voru settir um borð í skipin jafnóðum og úr sér gengu trébátar, sem áður voru á skipunum. Ef til stæði að taka landhelgisbrjót, sem sýndi einhvern mótþróa, þá yrðu viðkomandi varðskipsmenn að freista þess að komast um borð í hann í einhverjum þessara gúmmíbáta. Og því liði, sem til varnar kynni að búast um borð í landhelgisbrjótunum, yrði sennilega ekki skotaskuld úr því að sökkva þessum bátum og þyrfti e. t. v. ekki til þess annað en venjulegar hausningasveðju eða sting eða stjaka, verkfæri, sem eru til taks meðfram lunningum á hverju einasta skipi, a. m. k. hverjum einasta togara. Það virðist sannarlega ekki til of mikils mælst, sýnist mér, að varðskipunum séu fengnar einhverjir öflugri bátar en þessir, bátar, sem líklegir væru til þess að haldast á floti, ef til átaka kæmi.

Annað dæmi: Götulögreglan hér í Reykjavík hefur til afnota sterka og vel útbúna stálhjálma, sem notaðir eru, þegar einhverjir þeir atburðir gerast, sem talið er, að geti valdið því, að höfuðin á lögreglunni verði fyrir hnjaski. Landhelgisgæslumenn okkar hafa hins vegar ekki fengið til afnota aðra hjálma en þá, sem notaðir eru á vinnustöðum víða og eru gerðir úr plasti, einhver ómerkilegasta tegund hjálma. Stálhjálmarnir munu vera allmiklu dýrari en plasthjálmarnir. Skyldi það vera ástæðan til þess, að löggæslumenn okkar úti á sjónum hafa orðið að sætta sig við svona miklu ófullkomnari höfuðbúnað en löggæslumenn á götum Reykjavíkur?

Það er talið sjálfsagt að veita löggæslumönnum í landi sérstaka þjálfun til þess að gera þá hæfari að fást við óeirðamenn, kenna þeim réttu aðferðirnar við að handtaka menn o. s. frv. Löggæslumenn okkar úti á sjónum, að undanteknum kannske yfirmönnum varðskipanna, — ég veit það ekki, en löggæslumenn okkar allir aðrir á skipunum, allar áhafnir, hafa enga slíka þjálfun fengið. Skyldi það vera vegna þess, að talið sé, að slíkrar kunnáttu yrði síður þörf, þegar við væri að eiga t. d. breska landhelgisbrjóta, heldur en skulum við segja ungt fólk, sem efnir til mótmælaaðgerða hér í Reykjavík?

Mörg dæmi þessu svipuð mætti nefna um það, hversu hraklega hefur verið búið að þeim mönnum, sem íslenska þjóðin sendir í fremstu víglínu til varnar lífshagsmunum sínum. Og margra fleiri svipaðra spurninga mætti spyrja í þessu sambandi. Og það er kominn tími til, að svör fáist við þessum spurningum. Með því að samþykkja þá till., sem hér er til umr., munum við alþm. stuðla að því að knýja fram þessi svör, svo og þær endurbætur, sem nauðsynlegar eru til þess, að þessum málum verði þann veg skipað, að landhelgisgæslumönnum okkar, já, og hæstv. forsrh: og dómsmrh. verði fullur sómi að.