22.11.1973
Neðri deild: 28. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

86. mál, rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það hafa orðið allmiklar umr. um þessa till. á þskj. 93, sem ég er meðflm. að. Ég vil í tilefni af þessum umr. og ýmsu, sem þar hefur hrotið mönnum af vörum um tilganginn með flutningi þessarar till., taka skýrt fram, að tilgangurinn með flutningi þessarar till. er einn og aðeins einn, sá að leiða hið sanna í ljós um það, hvernig hafi verið háttað landhelgisgæslu við Vestfirði frá því tímabili, sem í till. segir, og ekkert annað, ekki til að fá höggstað á einum eða neinum, bara til þess að fá hið sanna leitt í ljós. Það er þess vegna algerlega út í loftið sagt, þegar fullyrt er, að hún sé flutt sem beint og óbeint vantraust á forsrh. og dómsmrh. (Gripið fram í.) Það er enginn hafður fyrir sökum í þessari till. og enginn sýknaður. (Gripið fram í.) Það væri nú gott, ef þingflokkurinn gæti þagað. Það er líka list að kunna að þegja.

Till. er ekki á neinu dulmáli. Hún er um, að það fari fram rannsókn samkv. ákvæðum stjórnarskrárinnar um, hvernig háttað var landhelgisgæslunni fyrir Vestfjörðum frá 15. okt. s. l. og hvort ásakanir þær, sem fram hafa verið bornar um, að landhelgisgæslan fyrir Vestfjörðum hafi þá ekki verið með eðlilegum hætti, eigi við rök að styðjast. Þessi orð eru skýr, og þau segja allan tilganginn með flutningi till. Ég tel því, að tillöguflutningurinn sé með öllu eðlilegur.

Það vita allir um tilefnið. Skipstjórar á Vestfjarðamiðum gáfu upplýsingar og skýrslur um það, að breskir togarar, — og að því er virtist síðar verða upplýst, að íslenskir togarar hefðu verið þar í hópi, því miður, — hefðu skarkað á Vestfjarðamiðunum, einnig á friðlýstum svæðum, á þessu tímabili, sem í till. getur. Landhelgisgæslan eða talsmaður hennar bar þetta til baka, og það virtust ekki fáanlegar upplýsingar um það, í hverju þessar missagnir lægju. Hvað var þá annað nær hendi en að óska eftir því, að það yrði farið ofan í þessi mál og það rannsakað til hlítar, hvað væri satt í málinu. (BGuðn.: Þetta er vantraust.) Bágt á hann.

Það er rétt, sem hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan, Landhelgisgæslan hefur mjög margvíslegum, ekki aðeins þýðingarmiklum, heldur mjög margvíslegum verkum að sinna lögum samkv. Það bæri t. d. að upplýsa í þessu sambandi, hvort Landhelgisgæslan var á þessu tímabili við önnur lögbundin skyldustörf. Og það er alveg hárrétt, sem dómsmrh. sagði áðan, að það er ástæða til þess, að þessi rannsóknarn., ef hún verður skipuð, reki alla þræði þessa máls, hvernig sem þeir eru, hverjir sem þeir eru. Hann sagði ekki skýrt frá því, hvaða þræði þarna mætti rekja, en ég tel það alveg sjálfsagt, að rannsóknarn. reki alla þræði þessa máls, hver sem í hlut á. Í till. er auðvitað enginn sýknaður og enginn sakfelldur. Rannsóknin á að leiða hið sanna í ljós.

Ég skal taka það fram, að ég hefði ekki talið óeðlilegt, þó að landhelgisgæslan væri ekki með harkalegar aðgerðir þá daga, þegar var verið að leita lausnar og sátta í málinu. En mér hefði aldrei dottið í hug og það er í mótsögn við þær yfirlýsingar, sem gefnar voru, að Landhelgisgæslan sinnti engu á Vestfjarðasvæðinu, þegar bresku togararnir yfir þetta tímabil skörkuðu þar á friðlýstum svæðum, og léti þá vera þar afskiptalausa. Það þarf að rannsaka, hvort það er satt.

Ég skal taka það fram af gefnu tilefni, að ég hef enga minnstu ástæðu til að ætla, að hæstv. dómsmrh. hafi gefið fyrirmæli um það, að bresku landhelgisbrjótarnir skyldu vera friðlýstir, á meðan hann var að leita sáttanna. (Gripið fram í) Ég vil fá það sanna í ljós, en það kærir hv. þingflokkur sig sjálfsagt ekkert um fremur nú en endranær.

Ég vil vænta þess, að hv. allshn., sem málið fær til meðferðar, fari vandlega í gegnum öll þau gögn, sem hæstv. dómsmrh. hefur látið afla í þessu máli, og komist hún að þeirri niðurstöðu, að málið sé þar að fullu upplýst, þá á till. sjálfsagt ekki neinum öðrum tilgangi að þjóna en að hafa fengið málið upplýst, en ef n. sýnist svo, að málið sé ekki að fullu upplýst og enn þá sé vafi um það, hverjir hafi haft réttar fregnir að færa af landhelgisgæslunni á þessu tímabili, sem till. fjallar um, þá á auðvitað að samþ. till.

Ég taldi alveg óviðurkvæmilegt að láta það vera óupplýst, hvort vestfirsku sjómennirnir væru að ljúga í þessu máli eða hvort þeir væru að segja satt og hvort þeir væru að bera fram eðlilegar og sjálfsagðar umkvartanir. Ef þeir hafa verið að gera það, þá eiga þeir heimtingu á því, að það sé sannað. Ef þeir hafa farið með rangt mál, þá á það líka að sannast á þá, að þeir hafi farið með rangt mál.

Í till. er eingöngu farið fram á, að málið sé upplýst til fulls, og það var ekki hægt að gera með öðru móti en að nota sér heimild stjórnarskrárinnar til þess að láta slíka rannsókn fara fram, með heimild til að taka skýrslur af hverjum einum, sem málið snertir, en það heimilar stjórnarskráin. (Gripið fram í.) — Ég gæti nú best trúað, að hv. þingflokkur væri oftast í kosningabuxum og atkvæðabuxunum líka og vildi fá atkv., ef hann gæti.

Ég þarf ekki að segja meira um þetta mál. Till. er að engum beint til þess að sakfella hann. Það er beðið um víðtæka rannsókn, eins og stjórnarskrá Íslands heimilar, að fram fari, og það á einungis að leita hins rétta og fá það upplýst, hvað rétt er í þeim ósamhljóða vitnisburðum, sem um þetta mál hafa gengið að undanförnu.

Ég vil svo, að málið fari sinn þinglega rétta ganga