22.11.1973
Sameinað þing: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég býst ekki við, að ég noti tvær mínútur. Ég tel, að það sé tilgangslaust að vera að pexa um þetta mál hér í hv. Alþ. Ég talaði við hæstv. forsrh. áðan, meðan umr. stóðu yfir, og hann lofaði mér því, að þetta mál yrði tekið fyrir í ríkisstj. og athugað þar nánar. Ég efast ekkert um, að úr því að hæstv. ráðh. ætlar að taka þetta mál fyrir í ríkisstj., þá leiði það til þess, að hann útvegi það fé, sem vantar. Ég efast ekkert um, að hæstv. forsrh. og ríkisstj. öll mun útvega 15–20 millj. til að lána í þessa báta, svo að hún geti staðið við þá samþykkt, sem hún gerði í okt. s. l. Því verður ekki trúað, að ríkisstjórnarsamþykktin verði gerð ónýt. Þótt ég beri takmarkað traust til hæstv. ríkisstj., er ég alveg viss um, að hæstv. forsrh. setur metnað sinn í það að leysa þetta mál.