22.11.1973
Sameinað þing: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

35. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta verða ekki mörg orð hér hjá mér. Ég vil aðeins taka það fram, að þessi till, er ekki flutt af neinni sérvisku einni saman, heldur ekki til þess að sýnast, hún er flutt í fullri alvöru. Það má um það deila, hvað hér sé gripið á þýðingarmiklum þætti áfengisvandamálsins, en þó virðist eftir öllum undirtektum að dæma, að fólki þyki hér komið að einum þeim þætti, sem ekki eigi að láta afskiptalausan.

Það er staðreynd, að áfengismálin í dag eru svartur blettur í þjóðlífinu. Þar blasa augljósar staðreyndir við allra augum en svo, að um þær sé þörf að ræða ítarlega. En mestu veldur tvennt: Tíðarandi þeirrar drykkjutísku, sem hvarvetna ríður húsum, andvaralaust eða spillt almenningsálit. Þau ráð, sem ég tel ein til úrbóta, standast ekki í slíku andrúmslofti drykkjugleðinnar sem hér ríkir. Ég vil því segja, að ég er að mestu ráðalaus gegn þessum ófögnuði. Tapaðar vinnustundir, heimili í rúst, glötuð mannsefni, slys, mannslíf, hvað stoðar að benda á allt þetta, þegar þetta þykja sjálfsagðar aukaverkanir þeirrar marglofuðu vínmenningar þess almenningsálits, sem allt afsakar, allt fyrirgefur í skjóli þeirrar rangsnúnu lífsskoðunar, sem kallast frelsi til að velja og hafna? Ég spyr: Er ekki menning vínbaranna ótvíræð? Er ekki frelsi ofdrykkjumannsins algert? Svör eru nánast óþörf.

Öll prédikun er mér víðs fjarri, en málið stendur mínu hjarta og huga nærri, og ég held, að það sé ekki sjálfselska sérvitringsins, sem ekki kann að meta hinar svokölluðu guðaveigar, sem ræður afstöðu okkar. Ég held, að einmitt mannleg samkennd sé þar efst á blaði. Sem kennari í nær tvo áratugi þekki ég vel þá tilfinningu að sjá á eftir ágætum nemanda sínum og vini beint í klær áfengisnautnar og jafnvel taumlausrar ofdrykkju. Kannske stendur þetta vandamál enn nær þeim, sem fást við svokallað uppeldi æskunnar og lækningu mannlegra meina, en jafnvel öðrum. Svo eyðileggjandi, svo tortímandi getur þessi bölvaldur verið, að maður spyr sjálfan sig: Til hvers er öll góð barátta gegn vandanum? Á þeim stundum eru frelsi og menning fjarri, svo að ekki sé meira sagt, og ljómi gullinna veiga vægast sagt upplitaður orðinn.

En hvað koma þessar blásaklausu og íburðarlausu veitingar ríkisstj. þessu stóra máli við? Enginn verður drykkjuræfill af þeim einum saman eða drepur sjálfan sig eða aðra af þeirra völdum. En betur skal að gáð. Ég læt mér ekkert annað til hugar koma en stjórnvöld hafi áhyggjur af áfengisvandamálunum. Ég tel fullvíst, að þau telji skyldu sína að draga úr því böli, sem því fylgir, þrátt fyrir þá hálfgerðu blóðpeninga, sem áfengissalan færir ríkinu. Ég þykist vita, að ráðh. vilji sannarlega annað ástand mála en við blasir í dag, og fyrst og síðast vil ég trúa því, að þeir ágætu menn vilji vinna að því að skapa annað almenningsálit en nú ríkir. Og þar er komið að þeirra hlut. Stjórnvöld eiga að sýna og sanna, að vinamót og gleðifundir kalla ekki á áfengi sem nauðsynlegt hjálpartæki. Með því taka þau afstöðu gegn áfenginu sem hinum eina sanna gleðigjafa, eins og flestir vilja líta á í dag.

Mótun almenningsálits fer eftir ýmsu, og ekkert er þar algilt. Sveiflur geta þar orðið á, eins og menn þekkja. En enginn efast um gildi hins forna orðtaks: „Eftir höfðinu dansa limirnir.“ Því er fordæmi stjórnvalda ærið mikilsvert þjóð, sem er ofurseld einhverri dýrðargloríu vínmenningarkjaftæðis mitt í allri eymdinni og vesaldómnum, sem af áfenginu leiðir. Því er þessi till. nú endurflutt, og skal ekki öðru trúað en hæstv. ráðh. fagni í sínu landsföðurlega hjarta að fá sitt gullna tækifæri í þessu einnig að vera þjóð sinni lýsandi fordæmi, svo sem í öllu öðru tilliti, andlegu og veraldlegu.

Samþykkt þessarar till. yrði stærra skref en marga grunar í þá átt að draga úr ágengisbölinu. Gott fordæmi er reyndar sjálfsagt, hvort sem reiknað er með, að upp verði skorið svo sem til var sáð, eða ekki. Því getur enginn neitað, að fordæmið er gott, því ber að samþykkja þessa till. okkar. A. m. k. ætla ég nú að biðja hv. allshn. að hrista af sér slen s. l. vetrar og leyfa mönnum að taka afstöðu með eða móta. Ég held, að fólk almennt eigi töluverða heimtingu á að vita afstöðu manna til þessa máls, þó að e. t. v. væri það enn meira virði að vita hug þm. yfirleitt til áfengismálanna í heild. En hver veit nema til þess komi einnig, þó síðar verði.