22.11.1973
Sameinað þing: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

35. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég bjóst við því, að það mundu heyrast hér einhver andmæli hjá einhverjum hv. þm. gegn þessu máli. Ég hinkraði því við með að biðja um orðið og bjóst við, að þeir létu í sér heyra, sem væru hugsanlega á móti þessu máli. Það gerðist ekki núna. Það gerðist ekki heldur á síðasta Alþ., þegar þessi till. var flutt. Það komu engin mótmæli fram í umr. í sambandi við þetta mál. Allir, sem töluðu í þeim umr., voru meðmæltir þáltill. En ég æski þess mjög gjarnan, að kunni einhverjir hv. þm. að vera á móti þessu máli, þá komi þeir fram og láti í sér heyra. Ég vildi það mjög gjarnan. En verði það ekki, þá lít ég svo á, að menn séu almennt samþykkir henni. En það er vissulega og hefur verið til aðferð til þess að koma málum fyrir kattarnef, og þá er gjarnan talað um að þegja mál í hel. Það virtist hafa gerst á síðasta Alþ. með þetta mál, a. m. k. virtist sú hv. n., sem málið fékk til meðferðar, sofa værum svefni á því allt til þingloka. Ég vænti þess og vil beina því til hæstv. forseta, að hann hlutist til um það, að sú hv. n., sem málið fær til meðferðar nú, skili því til þingsins aftur, þannig að það fái þinglega meðferð. Ég tel það ekki sæmandi Alþ., að mál, sem flutt eru hér, fái ekki þinglega meðferð, ekki síst þegar um er að ræða svo geigvænlegt vandamál, sem íslenskt þjóðfélag á við að stríða, þar sem áfengisvandamálið er.

Það var sagt hér áðan, að hvergi hefðu komið fram andmæli. En það hafa allvíða komið fram meðmæli víðs vegar að af landinu, frá einstaklingum og frá félagasamtökum og sveitar- og bæjarstjórnum með þessu máli, svo að ég tel að það sé illt við að búa, komi það fyrir aftur nú á þessu þingi, að málið fáist ekki afgreitt. (Gripið fram í.) Ég ætlaði að koma að hv. utanflokkaþm. hér síðar, en það er best að taka hann strax.

Þegar þessi þáltill. var flutt hér á síðasta Alþ., stóðu að henni þm. úr öllum flokkum. Nú hefur þetta viðhorf breyst. Nú er kominn einn, a. m. k. í munnmælum manna talað um einn þingflokkinn til viðbótar, og ég hefði gjarnan viljað æskja þess sérstaklega, að einhver rödd, þótt ekki væri nema ein, úr þessum þingflokki léti í sér heyra, hvaða afstöðu sá þingflokkur hefur til þessa máls. (Gripið fram í: Má veita sherry eða . . .) Hefur þm. mestan áhuga á því? Ég sem sagt óska eindregið eftir því að fá að heyra afstöðu þessa hv. þm. og þess þingflokks, sem ekki er með í flutningi till. Hann hefur bæst við, síðan hún var fyrst flutt. Ég hygg, að það verði kannske meira eftir því tekið, hvaða afstöðu sá þingflokkur hefur til málsins, heldur en margri þeirri afstöðu, sem hann hefur haft uppi hér á hv. Alþ.

En það þurfti raunar engu við að bæta þær ræður, sem l. flm. og frsm. flutti hér áðan og síðasti ræðumaður, og ég skal ekki lengja umr. frekar. En ég vil ítreka að koma því á framfæri, að séu einhverjir hv. þm. andvígir þessu máli, þá láti þeir í sér heyra og komi fram í dagsljósið og standi við sína sannfæringu, ef það er þeirra sannfæring, að hér sé um vont mál að ræða.