25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

340. mál, laxveiðileyfi

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég vil færa hv. 5. þm. Vesturl. þakklæti mitt fyrir, að hann skuli hafa komið með þessa fsp. inn á Alþingi. Þetta er í beinu framhaldi af þeirri fsp., sem ég kom með um Seðlabankann. Það kom í ljós, að hann getur fjárfest 500 millj. kr., án þess að neitt afl í þjóðfélaginu geti stöðvað það. Þetta er einn þáttur í þessu öllu saman, að höfðingjarnir þar kaupa laxveiðileyfi fyrir ½ millj. ár eftir ár, og enginn virðist geta ráðið við það. Þetta er ekki aðeins Seðlabankinn, það er líka, að ég hygg, Landsbankinn og svo fína og ódýra stofnunin, sem heitir Landsvirkjun. En þetta eru allt meira og minna sömu mennirnir. Það, sem blasir auðvitað við, er, að Alþingi þurfi að hafa stjórn á og eftirlit með fjárreiðum banka. Þetta er grundvallaratriðið. Þess vegna er það nátengt þeirri fsp., sem ég var með áður, að bankavaldið væri ekki ríki í ríkinu.