26.11.1973
Neðri deild: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

111. mál, sveitarstjórnarlög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Samkv. 76. gr., stjórnarskrárinnar skal rétti sveitarfélaganna til að ráða sjálf málum sínum með umsjón stjórnarinnar skipað með lögum. Það er viðurkennt, að sveitarfélögin eru mjög mikilvægar einingar í allri byggingu og skipulagi þjóðfélagsins. Þess vegna þarf að styrkja sjálfstæði þeirra hvers um sig og efla samtök þeirra. Athuga verður gaumgæfilega verkefnaskiptingu ríkisins og sveitarfélaganna. Þess verður sérstaklega að gæta, að réttur hinna fámennari sveitarfélaga sé ekki fyrir borð borinn.

Frv. það, sem hér er rætt, fjallar um breytingu á sveitarstjórnarl., nr. 68 frá 1961. Gerir það ráð fyrir, að nýjum kafla verði bætt í þau lög, þ. e. a. s. ákvæðum um landshlutasamtök sveitarfélaga. Þessi samtök hafa sprottið upp og starfað í nokkur ár utan Reykjavíkur, og má segja í meginatriðum, að hér sé um að ræða kjördæmasamtök sveitarfélaga. Í grg. með frv. er sagt, að ákvæði þess haggi í engu ákvæðum gildandi laga um einstök sveitarfélög og sýslufélög, og í nýrri gr., sem ætlað er að verði 111. gr. í sveitarstjórnarlögum, segir, að samtökunum sé heimilt að veita sýslufélögunum aðild að landshlutasamtökunum.

Vitað er, að sýslur innan sama kjördæmis eða byggðasvæðis hafa oft unnið saman að ýmsum ákveðnum málum. Fer að sjálfsögðu mjög vel á því, að sveitarfélög vinni saman í einni eða annarri mynd á ýmsum vettvangi að hinum mikilvægustu héraðs- og byggðamálum í frjálsri samvinnu. Vandinn er aðeins sá, hvernig málum þessum verður öllum best skipað með lögum og hvaða tekjustofnum hinum ýmsu samtökum er úthlutað úr hendi ríkisins, úr hendi hins opinbera.

Án þess að ræða þessi mál nánar að sinni finnst mér ástæða til að vekja athygli þeirrar n., sem þetta mál fer til, hvort ekki sé full ástæða til að senda það til umsagnar út í sýslufélög landsins, sem samkv. sveitarstjórnarlögum þeim, er nú gilda, er m. a. falið að annast till. um hvað eina, sem verða má byggðum sýslufélaganna til gagns og heilla.