27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

366. mál, rekstur skuttogara

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti Ég hef leyft mér hér að beina til hæstv. sjútvrh. fsp. í 4 liðum um afkomu hinna nýrri skuttogara af minni gerð:

„1. Hvaða athuganir hafa átt sér stað um afkomu hinna nýju skuttogara á yfirstandandi ári?

2. Má gera ráð fyrir, að meiri hluti þeirra geti staðið í skilum með greiðslur af vöxtum og afborgunum?

3. Er einhver aðili, sem fylgist skipulega með þeim göllum eða bilunum, sem koma á fyrsta ári?

4. Hvað má gera ráð fyrir miklu meðalaflamagni og verðmæti á ári hjá 500 brt. skuttogara ?“

Umr. um afkomu hinna nýju skuttogara hafa orðið nokkrar manna á meðal og einnig í blöðum, og er nauðsynlegt, tel ég, að fá fram, hvernig þessi mál standa í dag, þó að ár sé ekki liðið síðan þeir fyrstu komu. Einhver athugun mun hafa átt sér stað, en hún hefur ekki verið birt opinberlega og kannske ekki mögulegt að birta allt opinberlega, en þess verður að vænta, að einhverju megi segja frá í því efni. Einnig hafa miklar umr. átt sér stað um ýmsar bilanir eða galla, sem fram hafa komið í skipunum, og var reyndar vitað, að þegar svona skyndilega yrði í kaup slíks fjölda skipa ráðist, þá hlyti eitthvað að misfarast. Spurningin er því: Er fylgst skipulega með og það skráð til þess að fyrirbyggja, að sömu mistök eigi sér ekki stað aftur og aftur? Síðan er fróðlegt að vita, hvert aflamagn þessara skipa kann að vera eftir reynslu liðinna mánuða, og þess vegna er 4. liður settur hér fram.

Það er mál þeirra, sem við reksturinn fást og eiga að sjá um peningagreiðslur þessara togara, að það sé erfitt að hafa nokkuð eftir í heftinu, m. a. vegna þess, að hátt í 50% fer beint í áhöfn á þessum skipum, 10+10% fara beint í vexti og afborganir, 8–10% lenda í veiðarfærakostnaði og mega þá lítil afföll verða. Síðan er olía að nálgast 10%, fer sennilega yfir það. Þá hafa menn í allar aðrar þarfir um 10%, og segja mér kunnugir menn, að þetta sé vonlaus barátta.

Ég fyrir mitt leyti tel dæmið horfa þannig við í dag, að 10+10% í vexti og afborganir séu of há tala. Við verðum að horfast í augu við það, að ríkissjóður verði að hlaupa undir hagga til að létta stofnkostnað skipanna. Þetta þykir kannske hart sagt þegar í stað með ný skip. En það er röng stefna frá mínu sjónarmiði að draga þessa hjálp, ef nauðsynleg er, um of, þannig að rekstur þessara skipa, sérstaklega úti um land, lendi í vandræðum. Það er ekki heldur lausn að tengja þessi skip einhliða við afkomu frystihúsanna, því að þótt sum geti lagt nokkuð af mörkum, er það hvergi nærri mögulegt hjá öllum frystihúsunum. Ég tel heilbrigt og eðlilegt, að útgerð þessara togara fái þann möguleika, að þeir geti skilað heilbrigðum rekstri og staðið í skilum. 20% kvöðin er mjög há, og það var reyndar talið fyrir fram af fjölda manna, sem í þessa útgerð réðust, að þetta yrði þeim um megn. En ég vænti þess, að nokkuð muni koma í ljós í svari hæstv. ráðh. varðandi þessa þætti.