27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

366. mál, rekstur skuttogara

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir upplýsingarnar. Þær bera með sér, eins og hefur komið fram í blöðum og umr. manna á milli, að reksturinn hefur gengið misjafnlega og því miður heldur þunglega, svo að hægt sé að standa í skilum, og þeim þætti um, að þessi skip hafi möguleika á að standa í skilum, svaraði hann afdráttarlaust neitandi varðandi vexti og afborganir, og það er auðvitað illt. Þetta yfirlit sýnir tap, að meðtöldum afskriftum, upp á 15–18 millj., og er þá aðeins tekið 71/2% í það af vátryggingarverði, sem er lágt. Ef að líkum lætur, miðað við þessar upplýsingar, er þegar um beint tap á rekstri hvers skips að ræða, sem nemur nokkrum millj., og vita allir hv. alþm., að vissir staðir úti á landi hafa ekkert bolmagn til þess að mæta þessu tapi. Þegar útgerðin er að nokkru á bæjarsjóði eða með hjálp bæjarfélagsins og í sumum tilfellum eins konar almenningshlutafélag, þá verður þetta útgerðarform og rekstur þessara skipa strax í vandræðum, og má ekki til þess koma. Þess vegna vil ég undirstrika það, þó að það sé nokkuð erfitt að segja það strax, að við verðum að gera okkur grein fyrir því, að ríkissjóður er til neyddur að hjálpa um fjármagn fljótlega, því að það er óhæfa, að þessi skip, svo afkastamikil sem þau eru, afla 3–4 þús. tonn á ári, fari að liggja bundin við bryggju. Framleiðsluverðmæti þeirra er það mikið, að þegar allt er komið um kring, þá verður að hjálpa þeim, svo að reksturinn geti gengið. Það er líka óhæfa, að það eigi að draga það að halda skipunum við, það eigi að draga það að borga þjónustu, því að þá stöðvast allt um leið. Og enn meiri óhæfa er það, ef skipshöfnin fær ekki gerð upp laun sín reglulega, þá er allt um hvolf þegar í stað. Ég vil þess vegna vekja athygli á því, að nauðsynlegt er að fylgjast mjög náið með því, hvernig framvinda þessara mála verður, og þessi skip lendi ekki í óviðráðanlegum rekstrarörðugleikum.