27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

99. mál, ráðstafanir til að fyrirbyggja raforkuskort á Vestfjörðum

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin. Hins vegar get ég ekki tjáð mig sammála þeirri niðurstöðu Rafmagnsveitna ríkisins, að raforkumál Vestfjarða séu raunar í besta lagi. Það kom fram ein setning hjá hæstv. ráðh., sem er mikilvæg. Hann sagði: „nema til komi meiri háttar bilanir“. Og það er einmitt við þetta, sem við höfum átt að stríða, ekki einu sinni og ekki tvisvar, heldur æðioft. Ég geri mér grein fyrir því, að þrátt fyrir stóraukna raforkunotkun og þörf á Vestfjörðum má fullnægja henni nú með keyrslu dísilstöðva til viðbótar þeim vatnsaflsstöðvum, sem þar eru til staðar. En það er einmitt þegar slíkar bilanir verða, sem nú hafa orðið æðitíðar, sem í ljós kemur, að varaafl er hvergi nærri fullnægjandi.

Ég vil einnig leggja áherslu á, að það er villandi að líta á aflstöðvar Vestfjarða í einu lagi, eins og Rafmagnsveiturnar gera í svari sínu. Nauðsynlegt er að greina þetta í tvennt. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef, eru dísilstöðvar á norðurhluta svæðisins, þ. e. a. s. sem tengdar eru þeirri línu, sem liggur frá Arnarfirðinum norður, með 1907 kw. aflgetu, en vatnsaflsstöðvar hins vegar 1560 kw. Við síðustu bilun var mjög dregið á vatnsforða vatnsaflsstöðvanna á norðurhluta svæðisins, sem von er, og er það þá mjög háð veðráttu, hver orkuframleiðslugeta þeirra verður á þessum vetri. Ég leyfi mér því að fullyrða, að þarna sé teflt á tæpasta vaðið, og tel raunar ekki annað forsvaranlegt en þegar sé bætt við dísilstöðvum á þessu svæði, ekki bara á einum stað, heldur er nauðsynlegt að bæta við bæði á norðurhluta svæðisins og á suðurhluta svæðisins, því að eins og ég sagði áðan er nauðsynlegt að líta á þetta í tvennu lagi.

Ég vil vekja athygli á því, að framleiðsla Vestfjarða hefur stóraukist upp á síðkastið. Þar eru nú framleiddar um 27–28% af frystum sjávarafurðum allra landsmanna. Þetta er því ekki aðeins stórkostlegt mál og mikilvægt fyrir Vestfirðina sem slíka, heldur fyrir landið í heild. Það má ekki draga úr þessari framleiðslu, okkur veitir ekki af henni, og það á ekki að þurfa eldgos til þess að grípa til nauðsynlegra ráðstafana.