27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

371. mál, móttökutækin sem fundust í Kleifarvatni

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Hún er oft undarleg, pólitíkin á Íslandi. Undanfarna daga hefur allt ætlað af göflunum að ganga vegna lesturs sænskrar barnasögu í útvarpinu, og ekki er annað að heyra en örlög íslenskra stjórnmála og pólitísk framtíð barna okkar verði ráðin af flutningi þessarar barnasögu. Nú skal ég viðurkenna, að í fyrstu stóð ég í þeirri trú, að allt væri það meira og minna í gamni, sem um þennan sögulestur var sagt. En ég er löngu búinn að átta mig á því og hygg, að flestir séu búnir að átta sig á því, að formælendum og andmælendum þessarar sögu er enginn húmor í huga. Alvaran í hinni pólitísku umr. hefur náð hámarki, og allt sprettur þetta af því, að blessaða stúlkan, sem les söguna, skorti skotsilfur í utanreisu. Í dagvaxandi undrun minni get ég ekki fundið aðra skýringu á þessari barnasöguumr. en þetta sé ein ósvikin sönnun þess, að skammdegið ráði meiru í íslenskri þjóðfélagsgerð en sagnfræðingar hafa gert sér grein fyrir, a. m. k. eru svona historíur árvissir atburðir á haustdögum.

Ég get ekki stillt mig um að minnast á þessar séríslensku þjóðfélagsumr. til samanburðar þeim atburði og umr, um hann, sem ég hef leyft mér að bera fram þessa fsp. um, sem hér er nú á dagskrá.

Dagana 8. og 13. sept., s. l. fundust í Kleifarvatni allmörg og forvitnileg móttökutæki. Morgunblaðið sagði rétt sæmilega frá þessum atburði, sennilega vegna þess að tækin voru talin rússnesk. En Þjóðviljinn sló þessu upp í grín og hélt fram þeirri kenningu, að líklega hefðu Bandaríkjamenn kastað tækjunum í vatnið til að draga athyglina frá Watergate. Önnur blöð sögðu frá þessum atburði með sama jafnaðargeðinu og aflafréttum og veðurfari. Meira var ekki gert úr þessum tíðindum, sem meðal annarra þjóða hefðu áreiðanlega þótt gefa tilefni til alvarlegra ályktana um stórtæka njósnastarfsemi.

Nú má vel vera, að það eigi að taka því með jafnaðargeði, þegar erlend móttökutæki finnast af tilviljun í miklu mæli í Kleifarvatni á Íslandi, og ég skal játa, að það hefur ekki haldið fyrir mér vöku. E. t. v. eigum við að láta okkur það í léttu rúmi liggja, enda þótt hér á landi séu stundaðar umfangsmiklar njósnir af erlendum aðilum. Ég hef hins vegar verið þeirrar skoðunar, að ástæðulaust sé, að málið liggi í kyrrþey eða það gleymist í skúffum dómsmrn. Ef allt er svo undursaklaust á Íslandi sem menn vilja vera láta og Íslendingar telja sjálfum sér trú um, hvað er þá eðlilegra en að upplýsa það, sem fram hefur komið við rannsókn þessa máls? Það ætti vart að meiða neinn, ef tilurð þessara tækja er hvort sem er öll af hinu ómerkilegra taginu. Það ætti a. m. k. að vera lágmarkskrafa okkar Íslendinga að fá að fylgjast með því, hverjir njósna og hverjir ekki, ég tala nú ekki um, ef ætlast er til, að við sættum okkur við, að hér séu starfræktar alþjóðlegar njósnastöðvar.

Í þessu sambandi er auðvitað hægt að varpa fram ótal spurningum: Hvers lensk eru þessi tæki? Hvert voru þau seld af framleiðendunum? Til hvers eru þau brúkleg? Voru þau búin að liggja lengi í vatninu? Var þeim hent þar vegna þess, að notandinn var hættur að nota þau, eða var hann að endurnýja tæki sín og fá sér önnur betri og nýrri? Er líklegt, að slík tæki séu í fórum innlendra einstaklinga eða á vegum erlendra sendiráða? Hafa erlendir sendiráðsmenn verið spurðir að því eða eru þeir reiðubúnir til þess að veita umbeðnar upplýsingar um þessi tæki? Hefur verið leitað hinna erlendu framleiðenda og þeir spurðir, hvert tækin hafi verið send? Og áfram mætti spyrja: Hafa innlendir aðilar ekki möguleika á því að miða slík fjarskiptatæki út, ef þau eru í notkun hér á landi? Hversu langt draga slík tæki, og hverjir hafa möguleika á að koma svo stórkostlegum tækjum inn í landið án leyfis? Eða fékkst ekki leyfi fyrir þessum tækjum? Þetta eru spurningar, ,sem vakna við slíka atburði.

Nú má það vel vera, að í samræmi við tíðarandann eigi að meta málið í öfugu hlutfalli við mikilvægi þess og ég ætti frekar að bera fram till. um að rannsaka skotsilfrið, sem þeir hafa til ráðstöfunar hjá útvarpinu. En ef talað er í fullri alvöru, þá er óneitanlega forvitnilegt að fá svör við þeim fjölmörgu spurningum, sem vakna vegna tækjafundarins í Kleifarvatni, og það á að vera metnaður okkar Íslendinga að fá svör við þeim og skýra opinberlega frá niðurstöðum þeirrar rannsóknar.

Herra forseti. Fsp. mín er því þessi: Hvað líður þessari rannsókn?