27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

108. mál, fjármál hafnarsjóða

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Í svörum hans kom fram, að hér væri, eins og ég gat um í inngangsorðum mínum að þessari fsp., um að ræða breytta stefnu hæstv. ríkisstj., frá því að sett voru ný hafnalög á síðasta Alþ., þ. e. a. s. að á nokkrum mánuðum hefur hæstv. ríkisstj. breytt um stefnu í þessum efnum. Og það er alveg glöggt af svörum hæstv. ráðh., að hæstv. ríkisstj. ætlar ekki að fara að lögum og ekki að virða Alþ. þess að fara að till. þess í þessum efnum.

Í því bráðabirðaákvæði, sem ég las upp áðan, er það alveg skýrt, að ætlunin var frá upphafi, að þessum stöðum, sem verst eru settir í þessum efnum, yrði komið til aðstoðar með óafturkræfum framlögum frá ríkissjóði. Það má náttúrlega lengi segja, að það sé ekki hægt að bæta meiru á ríkissjóð, og það er óendanlegt umræðuefni, sem ég skal ekki fara út í hér. En það liggur alveg skýrt fyrir, hvað Alþ. vildi í þessum efnum. Og það, sem hæstv. ráðh. minntist á, að ekki væri verjandi að hjálpa þeim, sem væru í vanskilum, hjá Ríkisábyrgðasjóði væntanlega, en taka ekki þá, sem hefðu reynt að standa í skilum, þarna er ekki um nein rök að ræða, vegna þess að það má auðvitað meta vanda hafnarsjóðanna alveg án tillits til þess, hvort þeir hafa reynt að standa í skilum með súrum sveita eða hvort þeir eru í vanskilum. Það þarf ekkert að koma inn í myndina. Fyrst og fremst er um það að ræða, að sé um drápsklyfjar á viðkomandi hafnarsjóði að ræða, hvort sem hann hefur staðið í skilum eða ekki, þá var það vilji Alþ., að það yrði komið með sérstökum hætti til aðstoðar í þessum efnum. En það hefur sem sagt ekki verið gert, og vita þá hv. alþm. það.