25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

340. mál, laxveiðileyfi

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég er ekki vanur að blanda mér í fsp., en satt að segja fannst mér, að hæstv. fyrirspyrjandi hefði getað snúið sér til flokksbróður síns og yfirmanns og fengið upplýsingar hjá honum. Ég hélt, að það væri bankamálarh., sem hefði með Seðlabankann að gera. Þetta ætti allt að vera í góðu lagi, þegar þeir hafa fulltrúa sinn æðsta mann í bankamálum, að þarna sé alls hófs gætt. Hins vegar virðist mér aðalatriðið vera gleymt, og það er auðvitað: Fiska þessir menn? Hvað gera þeir við laxinn? Ætli bankinn fái hann ekki? Ég geri ráð fyrir því, að þegar menn leigi ár, þá geri þeir það ekki bara sér til gamans, heldur vegna þess að þeir veiða fisk, þeir veiða lax, og þeir selja laxinn. Það er best að athuga þetta í reikningunum. Ég hef spurt ýmsa laxveiðimenn, — ég hef aldrei haft tíma til að dunda við þetta, — hvers vegna þeir væru að þessu. Þeir segjast veiða nokkurn veginn fyrir því, sem þeir borga í leigu. Mér þykir ólíklegt, að Jóhannes Nordal sé ekki það mikill fjármálamaður, að hann sé sjálfur mikill laxveiðimaður eða hafi einhverja góða laxveiðimenn í bankanum til að fara með gestum sínum, og þá getur þetta verið gróði fyrir bankann. Þetta ætti fyrirspyrjandi að geta fengið allt upplýst hjá sínum yfirmanni og herra, Lúðvík Jósepssyni.