27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

373. mál, olíuleit í hafsbotni umhverfis Ísland

Fyrirspyrjandi (Stefán Gunnlaugsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Þótt við Íslendingar höfum næga olíu fyrir okkur, eins og sakir standa, hefur olíukreppan í heiminum vissulega bitnað á íslendingum í sívaxandi mæli í verðhækkunum á olíu og bensíni undanfarið og gerir það áreiðanleg áfram í vaxandi mæli, ef svo heldur fram sem nú horfir í þessum efnum. Það ástand, sem nú ríkir í orku- og eldsneytismálum í heiminum, hlýtur að reka á eftir því, að gangskör verði að því gerð að kanna til hlítar, hvort olíu sé að finna í botni í hafinu umhverfis Ísland og hvort hagkvæmt reynist að ná henni á því dýpi, sem hana er að finna. Ég vona, að hæstv. ríkisstj. sinni þessum málum á þann veg, sem best kemur þjóðinni í bráð og lengd. Í því sambandi skiptir að sjálfsögðu miklu máli, við hvaða aðila haft er samráð um þessi efni erlendis og hvaða aðilar það eru, sem verða fengnir til aðstoðar og ráðleggingar í þessum efnum. Það liggur í hlutarins eðli, að til slíkra verður að leita, því að hér á landi er ekki sú sérfræðiþekking og tækni, sem þarf til þess að rannsaka þessi mál svo sem nauðsynlegt er. Og ég fagna því alveg sérstaklega, sem hér hefur komið fram hjá hæstv. ráðh., að hann hyggst hafa náið samráð við Norðmenn um þessi mál.