27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

374. mál, ferðamál

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. spyr í fyrsta lagi, hvað líði framhaldsathugunum á vegum Sameinuðu þjóðanna um þróun íslenskra ferðamála. Um það vil ég segja þetta, að eins og kunnugt er veitti Þróunarsjóður Sameinuðu þjóðanna árið 1971 fjárhagslega aðstoð til gerðar ferðamálaáætlunar fyrir Ísland, og nemur aðstoðin 140 þús. Bandaríkjadölum. Fyrri hluti þessarar áætlunargerðar var unnin af bandarísku fyrirtæki, Checchy & Co., á s. l. ári og þessu ári, og skilaði það skýrslu sinni til Sameinuðu þjóðanna og ríkisstj. í sumar. Með skýrslunni er m, a. stefnt að því að lengja ferðamannatímabilið á Íslandi, og eru fjórar leiðir eða þróunarsvið valin til sérstakrar athugunar í skýrslunni. Það eru skíðasvæði, vötn, ár og sjór til fiskveiða, ráðstefnu - og fundaaðstaða og jarðhiti til heilsuræktar. Niðurstöður bandaríska fyrirtækisins varðandi aukningu erlendra ferðamanna til Íslands eru þær, að hæfilegt sé að stefna að 12% aukningu fram til 1980, 8% eftir það fram til 1990. Með þessu móti mundu ferðamálin öðlast aðeins aukinn hlut í þjóðarbúskapnum, en jafnframt væri unnt að halda ferðamannastraumnum innan æskilegra marka með tilliti til landverndar og þarfa okkar sjálfra. Bandaríska fyrirtækið bendir á, að verði hins vegar ekkert að gert í ferðamálum, muni aukning erlendra ferðamanna stöðvast af sjálfu sér strax á árinu 1976. Sú aukning, sem hefur orðið í ár, aðeins 6–7%, bendir til þess, að þessi fullyrðing sé á rökum reist. Bandaríska fyrirtækið leggur til, að á næstu árum verði lagt í ákveðnar framkvæmdir, sem jafnframt því að laða erlenda ferðamenn komi að fullum notum fyrir landsmenn sjálfa. Það er ekki ástæða til þess hér að rekja, í hverju þessar framkvæmdir eru fólgnar, en heildarkostnaður við þær er áætlaður rúmlega 2 milljarðar kr. Ríkisstj. hefur ekki tekið ákvörðun um, hvort eða að hve miklu leyti ráðist verði í þessar framkvæmdir, en samþ. fyrir sitt leyti, að síðari hluti áætlunargerðarinnar fari fram, en í henni verður m. a. kannaður rekstrargrundvöllur fyrir þessar framkvæmdir og annað, sem máli skiptir í því sambandi. Þessum áætlunum mun verða lokið á árinu 1975, og þá, en ekki fyrr, mun ákvörðun verða tekin um það, hvort ráðist verði í þessar framkvæmdir.

Í öðru lagi er spurt: „Hafa ráðstafanir verið gerðar til að tryggja fé til þeirra, og hver yrði hlutur íslands í því sambandi?“ Áætlað er, að greiðslur til erlends fyrirtækis, sem vinni að áætlanagerðinni, þ. e. a. s. þeirri síðari, nemi 135 þús. Bandaríkjadölum. Þar af eru 55 þús. dalir óafturkræft framlag Þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna, en 40 þús. framlag frá ríkissjóði. Auk þess mun ríkissjóður þurfa að greiða innlendan kostnað við áætlunargerðina, en hann er einkum fólginn í ferðalögum innanlands, vélritunarþjónustu og kostnaðinum við íslenska starfsmenn. Áætla má, að hann verði á bilinu 2–4 millj. kr. Á fjárl. 1974 verða teknar inn í þessu skyni 5 millj. kr.

Í þriðja lagi er spurt: „Hafa verið gerðar ráðstafanir af opinberri hálfu til að leysa hreinlætisvandamál á fjölförnum ferðamannastöðum?“ Samgrn. hefur nú um nokkurra ára skeið haft fjárveitingu á fjárl. til að bæta salernisaðstöðu á fjölförnum ferðamannastöðum. Enda þótt þessi fjárhæð hafi verið lág og raunar allt of lág, hefur þó töluvert miðað í þá átt að koma þessum málum í betra horf. Ríkissjóður stuðlaði á sínum tíma að byggingu snyrtiskálans á Laugarvatni, sem er við tjaldstæðið þar, og var m. a. greitt fyrir þeim framkvæmdum með lánum úr Ferðamálasjóði. Ríkissjóður keypti á s. l. ári veitingaskálann við Gullfoss, en þar hafði þá verið hætt veitingarekstri, og salernisaðstaða, sem þá var þar fyrir hendi, var algerlega óhæf. Á þessu ári fengust svo 2 millj. kr. í fjárl. til þess að koma upp snyrtiaðstöðu við Gullfoss. Var hluti af því fé notaður til þess að koma upp snyrtiaðstöðu í gamla veitingaskálanum, og er óhætt að segja, að sú aðstaða hafi verið skammlaus í sumar, þó engan veginn til frambúðar, og hefur samgrn. farið fram á að fá 10 millj. kr. framlag á fjárl. ársins 1974 til þess að byggja nýjan snyrtiskála við Gullfoss.

Í fjórða lagi er spurt: „Hafa ráðstafanir verið gerðar til að kynna alþjóðlegum fjármálastofnunum umræddar áætlanir og hugsanlega þörf á lánveitingu vegna framkvæmda á ferðamálum?“ Þessari spurningu get ég raunar ekki svarað nema neitandi. Það hefur ekki farið fram nein formleg könnun á þessu né fjármálastofnunum verið kynntar með formlegum hætti þessar áætlanir, m. a. vegna þess, að ákvörðun hefur ekki enn verið tekin. Hins vegar hefur verið um algerlega óformlegar kynningar að ræða í því sambandi.