25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

344. mál, endurskoðun skattalaga

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gerði í fjárlagaræðu sinni rækilega grein fyrir tekjuöflunarleiðum ríkissjóðs, og má segja, að þar af leiðandi sé ástæðulaust, að hann svari við þetta tækifæri spurnarliðunum 1 og 2, enda mun þessi atriði bera á góma bæði í framhaldsumræðum um fjárlögin og við tækifæri, sem mun sjálfsagt koma upp á næstunni, þannig að ég tel ástæðulaust fyrir hæstv.fjmrh. að svara þeim spurnarliðum. Hins vegar vildi ég óska eftir því við hæstv. ráðh., að hann kæmi örlítið inn á staðgreiðslukerfi skatta, því að mér er enn nokkuð óljóst, hversu miðar í þeim málum, og satt að segja hef ég undrast dálítið seinaganginn í þessu efni. Mér þætti vænt um, ef hæstv. fjmrh. vildi eitthvað greiða úr því.