27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

375. mál, landkynningarstarfsemi

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt, hversu miklu opinberu fé sé áætlað að ráðstafa til landkynningarstarfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins á næsta ári. Svar mitt er það, að samkv. fjárlagafrv. 1974 eru það 8 millj. 270 þús. kr.

Í öðru lagi er spurt, hversu há sé sú upphæð, sem lögð hefur verið fram af íslenskri hálfu til að standa straum af kostnaði við norrænar kynningarskrifstofur í Bandaríkjunum og Þýskalandi á undanförnum þremur árum og hversu miklu fé sé áætlað að ráðstafa í því sambandi á næsta ári. Svar mitt er þetta, að árið 1970 var þessi upphæð 603 580 kr. 70 aurar, árið 1971 var þessi upphæð 1 743 962 kr., árið 1972 var upphæðin 3 763 453 kr. og árið 1973 5 millj. kr., en þar af til Bandaríkjanna 4.4 millj. kr. Á árinu 1974 er áætlað, að til þessarar starfsemi fari 5.3 millj. kr., eða um 64% af landkynningarfénu í heild, þar af 4.7 millj. kr. til Bandaríkjanna.

Fé til þessarar sameiginlegu landkynningarskrifstofu í Bandaríkjunum fer fyrst og fremst til norrænnar kynningarskrifstofu, sem Norðurlönd hafa þar sameiginlega, þar sem Íslendingar hafa starfsmann, en nokkurt framlag einnig til kynningarskrifstofu í Los Angeles. Á meginlandi Evrópu tökum við þátt í kynningarskrifstofum í 4 borgum: Hamborg, München og Róm ásamt Dönum og Zürich ásamt Dönum og Svíum. Í sérstakri athugun er nú, hvort eða að hve miklu leyti þessari þátttöku okkar verður haldið áfram.