27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

375. mál, landkynningarstarfsemi

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Ég hefði kannske getað sagt það strax, sem ég ætla að segja nú, að ég er að ýmsu leyti sammála hv. 3. þm. Norðurl. e. um það, hvernig landkynningarfé hefur verið varið. Það þarfnast að mínu viti endurskoðunar. Það er einmitt þess vegna, sem ég hef nú nýlega m. a. sett þrjá hæfa menn í það að athuga alla starfsemi og rekstur Ferðaskrifstofunnar og gera till. um framtíðarskipan þeirra mála. Ég hef enn fremur núna, í tilefni af því, að forstjóri Ferðaskrifstofunnar mun taka þátt í fundi norrænnar samstarfsnefndar um ferðamál, lagt fyrir hann í sambandi við þá ferð að kynna það, að þessi mál væru í endurskoðun og kæmi til greina, að við mundum að einhverju verulegu leyti draga okkur, a, m. k. að hluta, út úr þeirri starfsemi, án þess þó að við vildum slíta þau bönd, sem binda okkur saman í sambandi við það, sem er algerlega á vegum allra Norðurlandaþjóðanna. Þetta er m. a. mín hugsun í sambandi við það, sem hv. fyrirspyrjandi kom inn á, að á þeim skrifstofum, sem við rekum í Evrópu, höfum við ekki starfsfólk, ég held hvergi. Það er enginn vafi á því, að okkar landkynningarstarfsemi væri betur rekin einmitt í samráði og sambandi við skrifstofur og rekstur flugfélaganna heldur en þessar skrifstofur, sem við rekum annars vegar með Dönum og hins vegar með Svíum.