27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

376. mál, endurskipulagning utanríkisþjónustunnar

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti.

Það verður stutt svar hjá mér að þessu sinni við þeim fsp., sem hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur flutt hér, en svarið er svona:

Endurskoðun á skipulagi utanríkisþjónustunnar hefur verið til athugunar, og ættu skýrslur um þá athugun að liggja fyrir, áður en langt um líður. Á sínum tíma samdi ég við dr. Ólaf Ragnar Grímsson um að kynna sér starfsemi utanríkisþjónustunnar með sérstakri hliðsjón af viðskipta- og markaðsmálum og gera till. í því efni. Hvað snertir skipulag utanríkisþjónustunnar að öðru leyti, hef ég óskað eftir till. sendiherra Íslands erlendis, og hafa svör sumra þeirra þegar borist. Einnig hef ég óskað eftir því sérstaklega við einn starfsmann utanrrn., Pétur Eggerz sendiherra, að hann láti mér í té till. varðandi endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar og staðsetningu sendiráða.

Hvað snertir síðari spurninguna get ég sagt, að samráð hefur verið haft við ýmsa aðila útflutningsins. Eins og ég sagði, ættu skýrslur um endurskoðunina að liggja fyrir, áður en langt um líður, og verður þá unnið úr þeim og hægt að gefa hv. Alþ. frekari skýrslu um þessa athugun.