25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

344. mál, endurskoðun skattalaga

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af 3. lið í spurningu hv. 3. landsk. þm. um staðgreiðslukerfi skatta, þá kom ég að því í fjárlagaræðunni, en hins vegar skal ég viðurkenna, að ég gerði því ekki eins góð skil og hinu, m. a. vegna þess, að það mál liggur ekki eins ljóst fyrir. Hins vegar er ég nú að láta vinna betur í því til þess að fá nokkurn veginn úr því skorið, hvað menn telja sér fært í því efni, og ég mun við innheimtu á sköttum á næsta ári bera mig saman við hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar um framkvæmd á því og reyna að nálgast þetta kerfi eins og tök eru á eftir gildandi lögum. Ég get hins vegar ekki svarað því, hvenær slíkt kerfi gæti verið komið til framkvæmda, en mun reyna seinna í vetur að gera um það betra yfirlit en ég er undirbúinn að gera nú, því að unnið er áfram að málinu.