27.11.1973
Sameinað þing: 25. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

31. mál, lækkun tekjuskatts á einstaklingum

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Róttækasta breyting og mesta umbót, sem gerð hefur verið í skattamálum á Íslandi, var gerð árið 1960. Þá var svo ákveðið, að almennar launatekjur skyldu verða tekjuskattsfrjálsar. Kom þetta m. a. fram í því, að tala skattgreiðenda lækkaði stórkostlega, niður í um 1/4 eða 1/5 part af því, sem áður hefði verið. Til þess að mæta þessum tekjumissi ríkissjóðs var ákv. að leggja á söluskatt, sem þá var 3%, og skyldi hann jafnframt notaður til þess að gera sveitarfélögum kleift að lækka verulega tekjuútsvör. Þessi breyting 1960 markaði djúp spor í skattasögu á Íslandi, og ég ætla, að það sé ekkert ofmælt, að þessari breytingu var mjög vel tekið af öllum almenningi á Íslandi. Það liðu svo nokkur ár, að þessi skipan hélst, en á árinu 1963 gekk hér yfir veruleg verðbólgualda, sem setti þetta kerfi að nokkru leyti úr skorðum. Síðar komu svo kreppuárin, sem urðu þess valdandi, að nokkuð varð að draga í bili úr þeim umbótum, sem þarna höfðu verið gerðar. Hins vegar var að kreppunni lokinni stefnt að því að koma aftur á hinum sömu umbótum og gert hafði verið 1960. Var að því stefnt, en hafði ekki verið náð því marki að fullu 1971, en var gert ráð fyrir, að það yrði þá á næsta ári.

Ég sagði, að mesta umbótin, sem gerð hefur verið í skattamálum á Íslandi, væri breytingin 1960. Mestu mistökin, sem átt hafa sér stað í skattamálum á Íslandi, eru hins vegar þær breytingar, sem núv. hæstv. ríkisstj. gerði snemma árs 1972, þau skattalög, sem þá voru sett. Engum aðvörunum frá stjórnarandstöðu var þá sinnt, heldur gífurleg hækkun á tekjuskatti lögfest. Nú hefur hins vegar komið í ljós eftir reynslu tveggja ára, að jafnvel þeir, sem að þessu stóðu, komast ekki hjá því að viðurkenna, að hér hafi alvarlegt axarskaft orðið. Er nú svo komið, að launþegasamtökin öll í landinu, bæði þau, sem standa undir forustu stjórnarsinna og önnur, eru sammála um eitt: að ein meginkjarabótin fyrir íslenska launþega sé stórfelld lækkun á tekjuskattinum. Ég geri ráð fyrir, að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafi nú sannfærst um, að skattana verði að lækka, og að launþegasamtökin knýi svo fast á, að einhver lagfæring muni koma frá hálfu stjórnarflokkanna, þótt ég sé hræddur um, að hún muni ganga of skammt.

Sjálfstfl. hefur undirbúið rækilega frv. til l. um breyt. á tekjuskattsl. Mikil vinna hefur verið lögð í þá breytingu, og verður það frv. lagt fyrir Alþ. innan fárra daga. Í meginatriðum munu þær breytingar auðvitað fela í sér þá stefnu, sem mótuð var 1960, að almennar launatekjur verði tekjuskattsfrjálsar, en fleiri endurbætur koma þar einnig inn í, og verður nánar skýrt frá því öllu, þegar það frv. verður lagt fram.

Að því er snertir till. Alþfl., sem hér liggur fyrir og hv. 1. flm., 7. þm. Reykv., gerði grein fyrir, vil ég taka fram, að í meginatriðum er hún í fullu samræmi við þá yfirlýstu stefnu viðreisnarstjórnarinnar, sem framkvæmd var 1980, enda sérstaklega tekið fram í l. tölul. þessarar till., að meginstefnan sé sú, að launþegar skuli ekki greiða tekjuskatt af almennum launatekjum. Ég get tekið undir mjög margt í ræðu hv. 1. flm. Þar var margt vel sagt og réttilega, ekki síst þegar hann lýsti annmörkum hárra beinna skatta og kostum þess að velja heldur leið hinna óbeinu skatta. Mér fannst, að sérstaklega í þeim kafla ræðunnar mæltist honum eins vel og best gerist, þegar sjálfstæðismenn ræða um skattamál.

Það, sem ég tel mjög gott og gagnlegt í þessari till. Alþfl., er m. a. þetta meginatriði, sem ég nefndi og við styðjum að sjálfsögðu af heilum hug, að almennar launatekjur skuli tekjuskattsfrjálsar. Í annan stað tel ég það mjög til bóta, sem greinir í 4. lið um sérsköttun hjóna. Þá tel ég einnig, að sú stefna sé rétt og til bóta, að stefnt sé að virðisaukaskatti hliðstæðum þeim, sem nú er innheimtur í stað söluskatts á Norðurlöndum og ýmsum löndum Vestur-Evrópu. í fjórða lagi tel ég mjög til bóta, að í 9. lið þessarar þáltill. er lagt til, að lög um tekjustofna sveitarfélaga verði endurskoðuð með það fyrir augum að auka frjálsræði þeirra til að ákveða, á hvern hátt þau afla sér tekna. Í fimmta lagi vil ég nefna og taka undir það, sem greinir í 7. tölul., að ráðstafanir séu gerðar til þess að hækka tekjur þeirra, sem engan eða lágan tekjuskatt hafa greitt. Þetta mál hefur einnig verið til athugunar hjá sjálfstæðismönnum alllengi undanfarið. Það er kunnugt, að sérstakt kerfi, sem stefnir í þessa átt, hefur verið undanfarin ár til meðferðar í Bretlandi, og ætla ég, að þegar sé búið að ræða þar að nokkru leyti það, sem hér er að stefnt. Allt þetta tel ég, að sé til mikilla bóta.

Ég vil svo aðeins nefna örfá atriði, sem ég tel, að þurfi nánari athugunar við eða eru vafasamari.

Það er í fyrsta lagi, að í 2. lið till. er gert ráð fyrir því, að launþegar, sem hafa hærri tekjur en sem nemur því tekjumarki, sem greint er í 1. tölul., þ. e. a. s. almennar launatekjur, skuli greiða stighækkandi tekjuskatt, en þó aldrei hærra hlutfall af tekjum en samkv. gildandi l. Samkv. gildandi l. er það þannig, að tekjuskattur að viðbættu tekjuútsvari fer upp í 55–56% með álagsheimildum, og það er a. m. k. álit okkar sjálfstæðismanna, að með því sé of langt gengið, það eigi aldrei að taka svo mikið af þeim tekjum, sem aflað er, að nemi yfir helmingi eða önnur hver króna sé tekin í skatt, og jafnvel teljum við margir, að æskilegt sé, að hámarkið sé lægra en 50%.

Þá er í 3. lið till. sagt, að af atvinnurekstri skuli greiddur tekjuskattur eftir sömu reglum og nú gilda. Við sjálfstæðismenn teljum, að einnig um tekjuskatt af atvinnurekstri þurfi ýmsu að breyta til bóta frá því, sem nú er, til þess að örva og efla atvinnulífið í landinu.

Í þriðja lagi vil ég nefna Viðlagasjóðsgjöldin, sem ég tel nokkuð varhugavert að ákveða um, eins og gert er ráð fyrir í till. Þegar l. voru sett á s. l. þingi, afgr. hér 7. febr., um neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey, voru ákveðnar ýmiss konar álögur til þess að afla Viðlagasjóði tekna. Þá var gert ráð fyrir því, að fram til 28. febr. 1974 skyldi leggja 2% viðlagasjóðsgjald á söluskatt, enn fremur 30% gjald á álagðan eignarskatt á árinu 1973. Á árinu 1973 skyldi einnig leggja 35% á aðstöðugjald, enn fremur 1% á útsvarsskyldar tekjur og 10% á álagt landsútsvar. Allt þetta, nema söluskattsálagið, var miðað við árið 1973, en söluskattsálagið skyldi gilda til febrúarloka næsta ár. Þegar þessar álögur voru lögfestar, var að sjálfsögðu látið í veðri vaka og yfir lýst, að þessir skattar væru álagðir af þessu sérstaka tilefni, hinum hörmulegu atburðum á Heimaey. Ég ætla, að almenningi hafi verið gefið til kynna eða a. m. k. gefið í skyn, að hér væri um að ræða bráðabirgðaráðstafanir, sem ekki stæðu lengur en Viðlagasjóður þyrfti á að halda. Almennt séð finnst mér varhugavert að ætla sér að framlengja svo allar eða flestar þessar álögur, þó að Viðlagasjóður þurfi ekki á þeim að halda til frambúðar. Það mundi styrkja þá skoðun manna, sem því miður er allútbreidd, að þegar Alþ. ákveði einhverjar álögur eða skatta til bráðabirgða, sé nokkurn veginn öruggt, að þótt það sé kallað til bráðabirgða vegna sér

Frv. á þskj. 41 er gamall kunningi, sem hefur stakra ástæðna eða til skamms tíma, þá verði þetta alltaf framlengt, þá verði það bara notað til annarra þarfa síðar og almenningur megi ekki treysta því, að þetta sé aðeins til bráðabirgða. M. a. frá því sjónarmiði tel ég vafasamt, þegar lagt er til í þessari till., að flest þessara gjalda skuli haldast, þó að eigi samkv. þeim að nota a. m. k. ýmis þeirra í mjög gagnlegum tilgangi.

Þá er að lokum eitt atriði, sem ég vil minnast á, og það er það, sem sagt er í frv., að þurfi að sjá ríkissjóði fyrir tekjum í staðinn. Þetta er út af fyrir sig ákaflega eðlilegt sjónarmið, að þegar lagt er til að lækka verulega tekjuskattinn, þá sé aflað tekna í staðinn eða bent á aðra tekjustofna. Þessi röksemd á fullan rétt á sér, ef allt er með felldu um fjármál ríkisins. En því fer svo fjarri, að svo sé nú. Þegar við litum á það, að útgjöld fjárl. og þar með skattaálögur vegna ríkissjóðs hafa nær þrefaldast á þrem árum, þ. e. frá fjárl. 1971 til fjárl. eins og þau væntanlega verða 1974, þá er það ekki alveg sjálfsagt mál og gefið, að það sé skylda þeirra, sem leggja til að lækka tekjuskattinn, að benda á jafnháa upphæð í staðinn. Það er gert ráð fyrir því, að þegar fjárlagafrv. nú verði endanlega afgreitt fyrir árið 1974, muni það væntanlega nálgast 30 milljarða, en þegar núv. ríkisstj. tók við, árið 1971, voru útgjöld fjárlaga 11.3 millj., eins og kunnugt er. Þegar það er athugað einnig, að hlutfall það, sem ríkissjóður tekur til sinna þarfa af þjóðarframleiðslunni, hefur aukist stórkostlega að hlutfallstölu eða úr 16–19% á s. l. áratug og upp í nær 30% væntanlega á næsta ári, á sama tíma sem þjóðartekjur og þjóðárframleiðsla hafa aukist stórkostlega vegna hækkaðs verðlags erlendis, þá leiðir það ekki af sjálfu sér, að sé skylt að benda á eða útvega tekjustofna jafnháa að fjárhæð í staðinn ríkissjóði til handa, eins og lagt er til, að sparað sé eða lækkað, að því er tekjuskattinn snertir. Mér virðist, að fyrst eigi að skoða rækilega, hvort þannig er í þjóðfélaginu, að á sama tíma sem ríkisstj. hækkar útgjöldin þrefalt, þá séu engir þeir liðir, sem nokkru verulegu skipti, sem hægt sé að spara eða draga úr.

Ég vil svo ítreka það, að ég vil eindregið taka undir mjög margt af því, sem hv. frsm., 7. þm. Reykv., sagði í sinni ágætu ræðu, þó að ég hafi talið rétt að láta einnig koma fram aths. um viss atriði, sem ég er ekki að fullu sammála.