28.11.1973
Efri deild: 28. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

125. mál, læknalög

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Gildandi læknalög, nr. 80 frá 1969, eru að stofni til frá árinu 1932, og svo verður enn þrátt fyrir það frv., sem hér er borið fram. Ástæðan til þess, að þetta frv. er fram borið, er fyrst og fremst sú, að samkv. gildandi l. geta þeir einir hlotið lækningaleyfi hér á landi, sem eru íslenskir ríkisborgarar. Þetta ákvæði hefur verið gagnrýnt í vaxandi mæli, og einkum er það orðið mjög frábrugðið því, sem gerist hjá grannþjóðum vorum á Norðurlöndum. Nokkur fjöldi manna frá Norðurlöndum, einkum Noregi, hefur lokið kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands undanfarin ár, en það hefur ekki verið heimilt að veita þessum læknum lækningaleyfi á Íslandi og vafalaust á það nokkurn þátt í því, að þessir læknar hafa ekki sest að hér á landi. Tvær konur, önnur norsk, hin finnsk, sem lokið hafa kandídatsprófi frá læknadeild Háskóla Íslands og eru nú búsettar hér á landi, hafa báðar leitað til rn. og Læknafélags Íslands út af þessu máli, og Læknafélagið hefur sent rn. bréf, þar sem það mælir með því, að núgildandi lagaákvæðum verði breytt, og sömuleiðis hefur landlæknir talið, að slíkt væri eðlilegt.

Þetta frv. gerir því ráð fyrir því, að allir, sem ljúka prófi frá læknadeild Háskóla Íslands og framhaldsnámi á sjúkrahúsum eftir þeim reglum, sem um þetta gilda, geti fengið lækningaleyfi á Íslandi, ef ekkert annað mælir á móti. Þá getur ráðherra einnig veitt lækni, sem hefur sambærilegt próf, lækningaleyfi, enda fáist fyrir því meðmæli læknadeildar og landlæknis.

Þær breytingar, sem ég hef hér rætt um, er að finna í 2. og 3. gr. frv., og eru það breytingar á 2. og 3. gr. læknalaga. Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir, að 4. gr. l. sé orðuð um, og er þar um að ræða breytingu þannig, að ótvírætt sé, að ráðherra geti með meðmælum landlæknis falið læknanemum að gegna öllum læknisstörfum um stundarsakir og þeir hafi þá til þess fullt lækningaleyfi þann tíma.

5. gr. hefur að geyma breytingar á 7. gr. læknal., og er þar aðeins um að ræða, að efni þeirrar gr. er fært til nútímalegra horfs en var í l. frá 1932. Sama máli gegnir um 9. gr., þar sem sams konar breytingar eru gerðar á 14. gr. núgildandi læknalaga.

Gert er ráð fyrir, að 13. gr. núgildandi læknal. falli niður. Þessi gr. hefur að geyma ákvæði um greiðslur fyrir héraðslæknisstörf og hefði raunar átt að falla niður, þegar breytingar voru gerðar á l. 1969, því að ákvæði um greiðslu fyrir störf héraðslækna voru tekin inn í læknaskipunarlög, nr. 43 frá 1965, og að nýju inn í lög um heilbrigðisþjónustu, sem taka gildi um næstu áramót. Greinin er því algerlega úrelt og óþörf.

Þá er í 11. gr. gert ráð fyrir breyt. á 18. gr. læknal., þar sem gert er ráð fyrir, að sektarákvæði hækki.

Eins og af þessu sést, er hér einungis um að ræða minni háttar breytingar á gildandi læknal., og af þeim ástæðum, sem ég hef greint hér áður, þ. e. a. s. þeim, að eins og gildandi lög eru, þá er ekki heimilt að veita nokkrum aðilum, sem að öðru leyti uppfylla skilyrði, lækningaleyfi um þessar mundir. Er mjög æskilegt, að afgreiðslu þessa frv. verði hraðað, og vil ég beina þeirri ósk til hv. n., sem málið fær til meðferðar.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni 1. umr, vísað til 2. umr, og hv. heilbr.- og trn.