28.11.1973
Efri deild: 28. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

70. mál, starfskjör launþega

Frsm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Félmn. hefur kannað frv. til l. um starfskjör launþega o. fl. Frv. þetta er samið í fullu samráði við Alþýðusamband Íslands, og Vinnuveitendasamband Íslands mælti með samþykkt þess í umsögn sinni. Frv. er að meginefni annars vegar um það, að samningar aðildarsamtaka vinnumarkaðarins um kaup og kjör séu bindandi fyrir alla vinnuveitendur og launþega án tillits til þess hvort þeir séu aðilar að samtökum þeim, sem undirrita kjarasamninga, eða ekki, og hins vegar, að allir launagreiðendur séu skyldugir til að standa skil á greiðslum í lífeyrissjóði, sjúkrasjóði og orlofssjóði, enda í 2. gr. tekið fram, að öllum launþegum sé skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps.

Hér er um að ræða réttindamál, jafnt launþega sem vinnuveitenda, þar sem ýmsir aðilar hefðu hag af því að standa utan við vinnuveitendasamtökin og sleppa þannig við gjöld þessi, en launþegar, sem utan við sín samtök standa, ættu á hættu að fá ekki sín réttmætu kjör, m. a. í formi greiðslna til hinna ýmsu s,jóða verkalýðsfélaganna.

Félmn. mælir eindregið með samþykkt frv., en fjarverandi afgreiðslu málsins var hv. 1. þm. Vestf.