28.11.1973
Neðri deild: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

107. mál, lántökuheimild vegna framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar 1973

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Síðan ég talaði hér áðan hafa verið haldnar tvær ræður, í fyrsta lagi af hv. 2. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, og kenndi margra grasa, svo sem vænta mátti í ræðu þess hv. þm. Ég verð að segja það eins og er, að það er þá orðin æðimikil breyting á okkur báðum tveim, ef það er orðið eitthvert vandræðamál. að við getum átt samtal saman, og ég held, að hv. þm. þurfi ekki að vera með neinar glósur um það, að ég sé að sýna eitthvert lítillæti, þegar ég ræði við hann eða aðra hv. þm. Ég tel mig ekki hafa lagt það inn, að menn þurfi að grípa til þess háttar orðalags, jafnvel þótt þá bresti rök fyrir því, sem þeir vilja mæla fyrir. En það er hans mál, en ekki mitt.

Þetta um frekjuna, — það var nú það, sem gerðist, að það var leitað eftir afbrigðum hjá hv. þm. um að mega láta málið koma fyrir. Voru allir hv. þm., sem viðstaddir voru, sammála um að verða við þeirri frekju. Þetta hefur ekki fallið í hlut eins ráðh. og það þarf ekki ráðh. til að leita eftir því, að mál séu afgr. hér með afbrigðum, enda brugðust hv. alþm. vel við, og þakka ég þeim vel fyrir það.

Hv. þm. fór um það mörgum orðum, að þetta mál hefði legið hér fyrir og ég hefði verið að laumast með það og ekki látið það koma hér til umr. fyrr en nú, þegar þetta bréf hefði komið. Ég skal að vísu viðurkenna það, alveg eins og ég gerði í fjh.- og viðskn. í gær, að það varð misbrestur á því, að bréfið bærist hv. n., eins og til var ætlast, og tek ég á mig þá sök ekkert síður en aðrir. Hitt vil ég minna hv. þm. á, að í fjárlagaræðu, sem ég flutti 23. okt. s. l. og ég hélt a. m. k., að hv. þm, hefði hlustað á að einhverju leyti, var þetta mál eitt af því, sem ég ræddi þar, og getur hv. þm. og þeir aðrir, sem vilja tala um laumuspilið, litið í Alþingistíðindin, dálk 103 og þá finna þeir frásögn af þessu máli. Þar er sagt frá málinu í heild og ekkert undan dregið, enda þurfti ekki að hafa neitt laumuspil frá minni hendi í sambandi við þetta mál. Ég tel mér málið til sóma, en ekki til vansæmdar.

Ég vil líka segja það, að það er rétt hjá hv. þm., að það hefði mátt hraða afgreiðslunni meira. En ástæðan til þess, að henni þarf að hraða, er einmitt sú, að það var búið fyrir löngu að ganga frá þessum samningum, þegar ég flutti hér mína fjárlagaræðu, enda skýrði ég frá því þar og skýrði frá því áðan, að það hefði þurft að hraða þessu máli af ótta við, að við töpuðum af því að njóta þeirra kjara og þess að fá lán hjá Alþjóðabankanum til hafnargerðar, því að það hefðum við ekki fengið að öðrum kosti. Ég vil því segja það, að grg. mín í fjárlagaræðunni er fullkomleg um þetta mál og þess vegna þurfti enginn að stökkva upp á nef sér út af því, að það hafi ekki áður verið skýrt, því að það hefur verið gert vel og skilmerkilega, ég leyfi mér að halda því fram.

Þá kom hv. 2. þm. Vestf. að þeim rökum, sem hann taldi ekki rök vera, að þetta flýtti fyrir öðrum hafnargerðum í landinu. Man ekki hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, eftir tali um Vestfjarðaáætlun. Hvað var talað um að gera í Vestfjarðaáætlun? Það var talað um að byggja hafnir, það var talað um að leggja vegi og gera flugvelli. Hvernig var þetta gert? Var það gert með því að leggja fram fé úr ríkissjóði, sem aflað var samtímis? Nei, það var ekki gert með því. Það voru tekin lán, eins og nú eru tekin hjá Alþjóðabankanum, nema að því leyti, að þetta lán er hagstæðara. Samt var þetta talið gott mál. og hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, hefur hælt bæði sér og öðrum vegna þessa máls. Enginn dregur í efa, að vegna þess að lánið var tekið, var flýtt fyrir bæði hafnargerð, vegamálum og flugvallagerð á Vestfjörðum. Það hefur enginn dregið það í efa, að svo hafi verið. En man ekki hv. 2. þm. Vestf. eftir því, að það kom til umr. eitt sinn í fjvn. í sambandi við vegaáætlun, þegar átti að fara að endurgreiða af þessum lánum, þá voru það sumir þm., sem héldu því fram, að það ætti að draga úr fjárveitingu til Vestfjarða vegna þessarar afborgunar. Var hv. 2. þm. Vestf. á þeirri skoðun? (MB: Nei, alls ekki.) Það er rétt. Hv. 2. þm. Vestf. var ekki á þeirri skoðun. Og hann var ekki á þeirri skoðun að önnur kjördæmi ættu að njóta þess, að það hefði verið sérstaklega vel fyrir Vestfirði gert í þessum efnum. Það var fjarri því.

Nú má halda því fram, að það sé óforsvaranlegt að taka lán til hafnargerða í Þorlákshöfn og Grindavík og Höfn í Hornafirði nema þá að gera sér fullkomlega grein fyrir, hvernig eigi að fjármagna aðrar hafnir. Það hefði einnig mátt segja þetta um vegina og annað, sem gert var á Vestfjörðum á sínum tíma samkv. framkvæmdaáætlun Vestfjarða.

Ég vil taka annað dæmi. Ég vil minna á veginn hér austur yfir Hellisheiði til Selfoss. Hvað hefði skeð, ef þessi eyðsluhákur, núv. fjmrh., hefði ekki komist í fjmrh.-stól og sagt: Nei, ekki einn eyrir úr ríkissjóði, Vegasjóður greiðir lánið, sem hann er búinn að taka, og enginn annar? — Heldur hv. 2. þm. Vestf., að það hefði gert þm. léttara með að skipta, eða heldur hann, að það hefði verið sagt: Þeir á Suðurlandi eru búnir að fá alveg nóg, þeir ágætu menn, og þeir skulu ekki fá neitt meira, þeir eru búnir að fá teppalagðan veg, eins og hv. þm. orðaði það, austur á Selfoss, og þeir þurfa ekki að fá teppi ofan á teppi, það er fjarri öllu lagi?

Það halda því engir fram, að þetta hafi ekki verið rétt verk. Það er fjarri öllu lagi. Það kostaði peninga, og þeir peningar voru teknir að láni. Þá var hægt að fá hjá Alþjóðabankanum lán til þess að leggja þessa vegi, og það lán var tekið, og við hækkuðum einnig hér á hv. Alþ., bensínskattinn, m. a. vegna þess arna, og ég stóð eins og grjótpáll með hv. 1. þm. Sunnl. í því og var ekki að deila á hann fyrir að leggja þessa vegi. Hitt er annað mál, að það kom ekki mikið í Vesturlandskjördæmi út á þetta, og ég gerði ekki þá kröfu til þáv. ráðh., að hann segði mér, hvenær ég fengi brúna á Borgarfjörð, ef ég stæði með honum að veginum á Suðurlandi. Það er hægt að halda fram núna, að þannig eigi að gera. Það er auðvitað af þessari einföldu ástæðu eins og hv. 2. þm. Vestf. sagði: Ég geri meiri kröfur til þín heldur en ég gerði til Magnúsar Jónssonar, hv. 2. þm. Norðurl. e. — Það voru orð hv. þm. áðan, hann gerir meiri kröfur til mín en til fyrirrennara míns. Og með þeim hætti er hægt að halda slíku fram og telja það rök. En það er ekki hægt að gera það með öðrum hætti. Staðreyndin er þessi.

Það gleður mig stórlega, að hv. 3. þm. Sunnl. skyldi nú sverja það af sér, að hann væri að mótmæla þessum höfnum, sem hann gerði þó reyndar í fyrri ræðunni. (Gripið fram í: Það er röng túlkun hjá hæstv. ráðh.) Það er ekki röng túlkun, það kom ekkert fram annað í ræðu þessa hv. þm. En það er gleðilegt, að hann skuli hafa áttað sig á því og hafa tekið sinnaskiptum, það gleður mig stórlega. En það er ekkert um það að ræða, það er alveg eins með þessi lán og önnur lán, að við flýtum verkum með lántökum, en við verðum að fá síðar meir peninga til þess að greiða þetta, og þannig verður það með þessi lán líka.

Því var haldið fram, að það, sem ég sagði að við værum að flýta fyrir öðrum höfnum með þessu, væri einber vitleysa. Hvernig í ósköpunum er hægt að halda því fram? Það dettur engum í hug, að það væri hægt að komast hjá því að öðrum kasti að taka af því fé, sem við höfum til skipta í hafnir á árinu 1974, til Þorlákshafnar, Grindavíkur og Hafnar í Hornafirði. Það hefði engum hv. þm. dottið það í hug. Þess vegna er ég undrandi, eins og ég sagði áðan, þegar ég heyrði rödd af Suðurlandi, sem fór að gæla við slíkar hugmyndir.

Þá kom hv. þm. að því ákvæði sð taka tollana og söluskattinn af Viðlagasjóðshúsunum inn í þetta mál. Nú er það svo, að þegar ákveðið var að flytja Viðlagasjóðshúsin, þá var borið undir mig, hvort það yrðu reiknaðir tollar af þessum húsum þá þegar. Ég gaf þau svör, að það yrði ekki gert, þetta yrði lánað, en það þýddi ekki það, að þetta yrði fellt niður, þessi hús mundu síðar meir verða seld á almennum markaði og þess vegna væri engin ástæða til að fella þetta niður, Hins vegar fannst mér og fleirum það kjörið tækifæri að nota þá fjármuni, sem fengjust af þessu, eins og aðra fjármuni, sem við höfum orðið að taka af þjóðinni vegna gossins, til þess að byggja upp hafnir, sem voru þær einu, sem gátu tekið við fiskiskipum frá heimahöfninni í Vestmannaeyjum, og voru þær þær einu, sem Alþjóðabankinn taldi sig vera reiðubúinn til að lána fé til, ef við hefðum mótframlagið. Þess vegna er í því enginn höfðingsskapur að hafa gert þetta, og það er heldur engin ástæða til annars en að gera þetta, því að þessi hús verða á almennum markaði fyrr en seinna. Ég vona, að sem flestir Vestmannaeyingar flytjist heim til sín, og þá verða húsin seld. Og það er engin ástæða til að gefa þá eftir tolla eða söluskatt af þeim. En hitt, að nota féð til verka, sem eru tengd eldgosinu og afleiðingum þess, finnst mér eðlilegt, og ég verð að segja alveg eins og er, að mér finnst, að það hafi sýnt sig, að Þorlákshöfn og Grindavík hafi leyst fyrir þjóðina svo stóran þátt í þjóðarbúskapnum í vetur, að það sé sæmd að því að meta það og leggja þeim lið með því að leysa þessi verkefni, eins og hér er lagt til að gera.

Ég vil svo segja það út af boðaðri till. hv. 3. þm. Sunnl., að samningurinn um þetta mál er gerður og frágenginn og við höfum hér ekkert um að velja nema þiggja eða hafna. Það var álit allra þeirra, sem um þetta mál fjölluðu, að við gætum ekki dregið þetta lengur, enda óskaði bankinn alveg sérstaklega eftir því, að málið yrði ekki dregið, því að sérfræðingarnir, sem komu hingað til þess að skoða þessi mál, gerðu sér grein fyrir því, að með því að gosið félli niður, gætu einnig möguleikarnir til hafnalánsins fallið niður. Hér er því ekkert um að ræða nema annaðhvort samþykkt eða synjun. Ef hv. þm. vilja hafna þessu, þá er það þeirra mál, en ekki mitt. Ég vil það ekki. Og ég er ekki farinn að trúa því, að hér í hv. Alþ. sé hópur manna, sem vilji hafna því að taka þetta lán með þeim skilyrðum, sem hafi verið boðin. En þessu verður ekki breytt, því að hér er um samninga að ræða, sem ekki verður breytt með neinni ályktun hér á hv. Alþ. (Gripið fram í: Eru það úrslitakostir?) Það er gerður samningur, frágenginn og undirskrifaður með fyrirvara um samþykki Alþ. til staðfestingar eða synjunar. Hv. þm. má kalla það úrslitakosti eða ekki, það var samningur, sem við gengum til af frjálsum vilja og gerður var af frjálsum vilja á háðar hendur. Hins vegar varð að gera hann á þeim tíma, sem hann var gerður, ef átti að hugsa um þetta.

Þá kom hv. 2. þm. Vestf. að því, að lítið væri nú hugsað um fiskihafnirnar. Það er nú svo með okkur báða, hv. 2. þm. Vestf. og mig, að við sitjum ekki í fyrsta sinn á Alþ. þessi ár, sem núv. ríkisstj. hefur farið með völd, og fiskihafnirnar eru ekki nýtt mál á Alþ. Eitt af þeim málum, sem Vestfjarðaáætlun var talið til ágætis og hún átti að leysa, voru hafnirnar, sem hún átti að gera á Vestfjörðum. Nú vil ég leyfa mér að nefna tölur, eins og manni hættir til að gera í slíkum umr. sem þessum, og nefna þá dæmi um breytinguna, sem orðið hefur á þeim upphæðum, sem veittar eru til hafna í tíð núv. ríkisstj. og þeirrar, sem áður var: 1971, sem var það rausnarlegasta, sem þá hafði þekkst, var fjárveitingin til hafnamála 201 millj. Fyrir árið 1972 var hún 273 millj., fyrir árið 1973 var hún 324 millj. og fyrir árið 1974 er hún, eftir að búið er að draga frá framlagið til Þorlákshafnar og Grindavíkur og Hafnar í Hornafirði, 601 millj. Þetta eru samanteknir liðirnir til hafnarframkvæmda og greiðslur til hafnamála vegna landshafnanna og annarra, eins og hv. þm. þekkir ósköp vel. Ef Vestmannaeyjar, eða Þorlákshöfn og þær hafnir eru teknar með, þá eru þetta 813 millj. kr. Það er æðimikið stökk. Þó kemur það fram í fjárlagaræðu minni, að ég geri ráð fyrir því, að þessi liður muni hækka við meðferð Alþingis. Þegar er verið að ferðast út um landið og tala um eyðsluhákinn, þá er þetta gott dæmi, því að þá er bara talað um töluna, sem er niðurstaðan, en það er ekki verið að tala um, að það sé verið að hækka úr 200 millj. í 800 millj. framlagið til hafnanna í landinu. Það var ekki verið að eyða tíma í það í þann tíð. Nei, það er bara talað um, hvað fjárl. hækka hjá þessum fjmrh., sem nú situr. En þetta eru staðreyndir, sem segja sitt, og þetta er nú svona, að hv. 2. þm. Vestf. gekk í það að samþykkja þetta fyrir sína ríkisstj. Ánægður hefur hann vafalaust ekki verið, það efast ég ekkert um, en hann gerði það samt. Það má svo halda því fram, að það sé ekkert gert núna. En þetta eru samt staðreyndir, sem fyrir liggja, og ég held, að hv. þm. geti ekki í raun og veru haldið því fram, að hér hafi ekki verið stórkostlega að staðið, þrátt fyrir það að mér sé ljóst, að þörf er á meiri aðgerðum. Og ég get tekið undir það með hv. 2. þm. Vestf., að hafnirnar eru að mínum dómi það, sem þarf að hafa forgang. Það er m, a. vegna þess dugnaðar og framtakssemi, sem hefur verið hjá núv. ríkisstj. við að auka fiskiskipaflotann. Það knýr auðvitað á hafnir og sýnir hennar dugnað þar eins og á fleiri sviðum.

Þá kom hv. þm. enn þá að þessu með styrkinn frá í sumar. Ég gerði grein fyrir því á hv. Alþ. í gær og sé því ekki ástæðu til að fara að lýsa því yfir aftur, en get þó endurtekið það, að það er alveg eins hægt að styrkja þessar hafnir síðar meir við afgreiðslu á afborgunum og vöxtum af lánum, þegar þau koma til afborgunar, eins og taka um það ákvörðun núna. Og þetta mál er ekki á því stigi nú, að það væri framkvæmanlegt. Það skorti þær upplýsingar, sem þurfti til þess að gera slíkt. En Hafnabótasjóður hefur alltaf möguleika til þess að styrkja hafnir samkv. sínum lögum og getur því gert það, hvenær sem er, ef honum sýnist svo.

Hv. 2. þm. Vestf. lýsti með mörgum og sterkum orðum ástandinu í hafnamálum. Það var ekki fögur lýsing. Það var ekki fögur lýsing eftir 12 ára stjórnarsetu viðreisnar hér á landi.

Það var ekki hátt risið á þeirri lýsingu á ástandinu í hafnamálum, eftir að hans eigin menn höfðu setið 12 ár samfleytt í ríkisstj. Ég dreg í efa, að ég hefði komist öllu lengra í að lýsa eymdinni og volæðinu og aðgerðarleysinu í þessum málum heldur en hv. 2. þm. Vestf. gerði með myndarskap hér áðan. Það þarf því enginn um það að efast — (Gripið fram í.) Það þýðir ekki fyrir hv. þm. að halda því fram, að það hafi versnað, vegna þess að tölurnar tala sínu máli. Hins vegar, eins og ég tók fram áðan, hefur þörfin aukist, einnig vegna þess, að dugnaður núv. ríkisstj. er það mikill, að hún byggir upp fiskiskipaflotann fyrir landsmenn alla, en pantar ekki bara togara fyrir Reykjavík, Hafnarfjörð og Akureyri. Það var byggðastefna viðreisnarstjórnarinnar. Það var fyrir þessa þrjá staði, sem togarar voru pantaðir.

Ég vil líka spyrja, þegar hv. þm. fer að tala um byggðastefnu í framkvæmd, hvort það sé einhver voðalegur brestur á byggðastefnu að styðja þorp eins og Grindavík og Þorlákshöfn og Höfn í Hornafirði, staði, sem eru geysilegir framleiðslustaðir og er áskaplega mikils virði fyrir þjóðina að efla, og á svo að halda því fram, að þeir séu ekki verðir þess að búa við sæmileg hafnarskilyrði? Það vita allir, að allir þessir staðir búa við slæm hafnarskilyrði. Sker er í miðri höfninni í Grindavík, sem hefur orðið mörgum bátum að tjóni. Í Höfn í Hornafirði hefur orðið mannskaði við útsiglinguna úr höfninni. Og allir vita, hvernig Þorlákshöfn er. Þar verður ekki stórum flota fyrir komið, ef hann á að vera tryggur. Og er ástæða til að hafa þessa staði í sérflokki, þegar talað er um byggðastefnu? Nei, það er síður en svo, að það sé ástæða til, og það er von, að hv. 1. þm. Sunnl. gangi hér hratt um salinn, þegar hann heyrir, að samherjar hans eru farnir að tala á þennan veg um byggðarlög í hans kjördæmi. Mig skal ekki undar það. (MB: Vill ekki fjmrh. endurtaka þetta.) Ég vil endurtaka það, að hv. 2. þm. Vestf. taldi það fjarri öllu lagi í byggðastefnu að styðja staði eins og Þorlákshöfn, Grindavík og Höfn í Hornafirði. Mér finnst það þáttur í byggðastefnu og get endurtekið það. (Gripið fram í: Er þetta heiðarlegur málflutningur?) Það er heiðarlegur málflutningur að segja þetta svona, því að hv. þm. sagði þetta, og þýðir ekkert að vera að smjatta á því nú.

Ég var þegar búinn að gera grein fyrir því, svo að ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara út í það, með þessa 6 millj. dollara, — gerði vel grein fyrir því máli í minni fjárlagaræðu og þess vegna hefur engu verið leynt fyrir neinum í því. Þess vegna þarf ég nú ekki að fara öllu lengra út í ræðu hv. þm., nema eitt skemmtilegt kom hann með í lokin, og það var honum líkt, því að honum lætur betur brandarinn heldur en vonda skapið. Hann sagði, þegar hann var að tala um ástandið í hafnamálum, að það væri ekki ástæða til að vera að deila um það, hverjir ættu sökina. Þeir voru jafnsekir, sem höfðu setið á valdastólum í 12 ár, eins og hinir, sem höfðu setið í 27–28 mánuði. Það var ekki ástæða til að vera að deila um það. Og mér fannst það vorkunn, þó að hv. 2. þm. Vestf. vildi ekki fara að rifja það upp. En hann var bara búinn áður, meðan hann var í hæfilegum ham, að gera það, svo að ekki verður um deilt. Nei, ég get vel skilið það, að svo kappsfullur maður sem hv. 2. þm. Vestf. kæri sig ekki um að rifja það upp, en um það verður ekki deilt, ef um sök er að ræða, hvers sökin er. Því getur enginn hv. þm, leyft sér að halda fram.

Ég vil svo segja það, um leið og ég lýk því, sem ég ætlaði að segja um ræðu hv. 2. þm. Vestf., að framleiðslustaðir eins og Grindavík, Höfn í Hornafirði og Þorlákshöfn, það þýðir ekkert að halda því fram, að það séu ekki framleiðslustaðir af bestu gerð. Það eru margir aðrir góðir líka, og segir það ekkert um það, að þessir staðir standi ekki fullkomlega fyrir sínu. Það er langt frá því, að nokkur hv. þm. geti leyft sér að halda slíku fram.

Það var ekki margt, sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Sunnl., sem ég sé ástæðu til að fara hér út í, því að það var mest endurtekning á því, sem hann hafði áður sagt, nema það, að hann tók skýrt fram, að hann væri ekki á móti málinu. Ég treysti þá því, að það sé ekki verið að tefja þetta mál meira en ástæða er til, því að því, sem hann hafði áður sagt, nema það, að þegar skýrt frá því, að ég get viðurkennt mistök í því, eð það skyldi ekki vera fyrr á ferðinni. En nauðsyn ber til, að það fái afgreiðslu nú fljótlega eftir helgina. Hitt er annað mál, að ég get endurtekið það, — ég hef talað um tollana af Viðlagasjóðshúsunum, — ég get endurtekið það, að meðan ég verð fjmrh., verða þessir tollar eða söluskattur ekki notaðir til annarra þarfa en þeirra, sem tengdar eru Vestmannaeyjum eða Vestmannaeyjagosinu, eins og ég tel þessi mál vera, eða skila sér umfram það. Þá munu Vestmanneyingar fyrst og fremst njóta þess. En ég er ekki með þessu að segja, að málefni Vestmannaeyja fái ekki eðlilega afgreiðslu, eins og önnur málefni, það er síður en svo, heldur ef það skilar sér betur en þarna er reiknað með, þá tel ég, að Vestmannaeyjar eigi að njóta þess fyrst og fremst í hafnamálum, og samgöngumálin gætu komið þar einnig til. Þetta mega hv. þm. herma upp á mig, ef með þarf, síðar á hv. Alþ.