25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

341. mál, bætur til bænda vegna vegagerðar

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 5. þm. Vestf. er á þá leið, hve mikið sé ógreitt af bótum til bænda vegna girðingakostnaðar og ýmiss konar jarðrasks, sem orsakast af framkvæmdum Vegagerðar ríkisins. Hefur verið gerð nokkrum sinnum könnun á því, hve miklar lögmætar kröfur væru fyrir hendi vegna girðinga meðfram þjóðvegum og vegna ristarhliða skv. girðingalögum frá 1965, og tek ég hér upp, hvað þessar upphæðir námu miklu, en þær voru í mars 1970 18 millj. kr., í árslok 1971 34,2 millj. kr. og í árslok s. l., 1972, 43.5 millj. kr. Þetta er vegna girðinga og ristarhliða, sem Vegagerðin á skv. girðingalögum frá 1965 að setja upp við eða á vegi, sem þegar hafa verið lagðir. Í flestum tilvikum á hér eftir að girða, en á stöku stað hafa bændur girt sjálfir, og skuldar þá Vegagerðin að sjálfsögðu girðinguna.

Til frekari skýringa á þessu nefni ég það, að á árinu 1972 var fjárveiting á vegáætlun til girðinga og uppgræðslu 15.2 millj. kr., og var 9.7 millj. kr. af þeirri upphæð varið til girðinga. Á vegáætlun fyrir árin 1974 og 1975 eru einnig veittar 15.2 millj. kr. hvort árið í þessum tilgangi, og ef skipting milli girðinga og uppgræðslu verður sú sama á yfirstandandi ári, verður í árslok 1975 búið að greiða um 29 millj. kr. af girðingabótunum. En þess ber þó að geta í sambandi við þessar tölur, að á hverju ári koma fram nýjar kröfur, sem vegagerðinni ber að mæta samkvæmt girðingalögum.

Varðandi jarðrask, sem er einnig spurt um, er það að segja, að það er í flestum tilfellum um það land, sem fer undir veginn, og í flestum tilvikum bætt, um leið og það er tekið til afnota, og það er greitt á verðgrundvelli, sem gerður hefur verið í samráði við Búnaðarfélag Íslands. Þegar ekki næst í upphafi samkomulag um greiðslufyrirkomulag, getur dregist, að samkomulag náist eða landið sé metið, og safnast að sjálfsögðu fyrir bótakröfur. Ekki eru fyrir hendi upplýsingar um, hversu háar kröfur af þessu tagi vegna jarðrasks liggja nú fyrir, þ. e. a. s. þær, sem ekki er samkomulag um og verða að fara í mat, enda í raun og veru ógerningur að spá í bætur, sem oftast verða allt aðrar en kröfurnar gera ráð fyrir.

Ef það mætti verða til frekari glöggvunar á því, hvað hér er um að ræða, vil ég lesa upp töflu um það, hvernig þessar ógreiddu bætur vegna girðinga og ristarhliða skiptast milli kjördæma. Suðurlandskjördæmi er með 5 millj. kr., Reykjaneskjördæmi með 100 þús., Vesturlandskjördæmi með 9.3 millj. kr., Vestfjarðakjördæmi 440 þús., Norðurlandskjördæmi vestra 15.7 millj., Norðurlandskjördæmi eystra 8.4 millj. kr. og Austurlandskjördæmi 4.4 millj.

Það er auðvitað alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að hér hallar nokkuð á, og það er ekki skemmtileg staða fyrir stofnun eins og Vegagerðina að þurfa að standa í vanskilum vegna girðingalaganna, þó að ég teldi hins vegar, að sæmilega hafi verið séð fyrir því, sem heitir jarðrask og uppgræðsla og það hafi yfirleitt verið borgað skilvíslega. En hér hefur vegáætlun skorið stofnuninni stakkinn, og vil ég vonast til þess, að þegar vegáætlunin kemur til endurskoðunar nú á yfirstandandi þingi, þá verði hún bætt með því að veita meira fé, nauðsynlegt fjármagn, til þess að hægt sé að standa í fullum skilum við bændur varðandi þær kröfur, sem þeir eiga á grundvelli girðingalaganna.

Ég vona, að með þessu hafi ég upplýst málið nægilega eins og spurningin lá fyrir frá hendi hv. fyrirspyrjanda.