29.11.1973
Sameinað þing: 27. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

43. mál, samgönguáætlun fyrir Norðurland

Flm. (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Gunnari Gíslasyni, Halldóri Blöndal og Eyjólfi K. Jónssyni að flytja á þskj. 44 till. til þál. um að hraða gerð Norðurlandsáætlunar í samgöngumálum. Tillgr. er svo hljóðandi :

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hraða gerð samgönguáætlunar fyrir Norðurland. Skal að því stefnt, að sérstök byggðaáætlun um vegi, brýr, hafnir og flugvelli á Norðurlandi fyrir a. m. k. næstu 2 ár verði staðfest af stjórnvöldum eigi síðar en um n. k. áramót.“

Till. þessi er flutt hér á hinu háa Alþingi til þess að vekja athygli á, hvernig staðið hefur verið að gerð samgönguáætlunar fyrir Norðurland, og freista þess að hafa áhrif á vinnubrögð til úrbóta í því efni. Samgönguáætlun fyrir Norðurland hefur verið gerð fyrir árið 1972 og 1973, hvort um sig í senn, auk þess sem áætluð hefur verið heildarfjárhæð til vegaframkvæmda samkv. áætluninni 1972–1975, þ. e. a. s. gildistíma núgildandi almennrar vegáætlunar. Bæði framkvæmdaárin 1972 og 1973 hefur komið til stórfelldur niðurskurður framkvæmda, miðað við till. sérfræðinga og heimamanna, auk þess sem áætlunin var einungis gerð fyrir hvort árið í senn og drógst fram á vor í bæði skiptin. T. d. var fundur haldinn með þm. Norðurl. seint í maí s. l. um áætlunina á yfirstandandi ári. Má geta nærri hver heildaryfirsýn fæst þá um verklegar framkvæmdir samkv. áætluninni, þegar svo er staðið að málum, og einnig má geta nærri, hver undirbúningur vegaframkvæmda hefur orðið s. l. sumar, þegar áætlunargerðinni var ekki lokið fyrr en síðast í maí eða byrjun júní. Ég vil taka það skýrt fram, að hér er ekki við viðkomandi starfsmenn að sakast, það er mér persónulega kunnugt um, né heldur við Fjórðungssamband Norðlendinga, sem hefur frá upphafi unnið að áætlanargerðinni ásamt sérfræðingum ríkisvaldsins á hverjum tíma og mótað stefnu heimamanna varðandi áætlunargerðina. Hér er fyrst og fremst um að ræða óhæf vinnubrögð frá hálfu hæstv. ríkisstj.

Í þessu sambandi er rétt að gera nokkra úttekt á því, hvernig staðið var á sínum tíma að gerð samgönguáætlunar fyrir Austurland og bera saman við vinnubrögðin í gerð samgönguþátta Norðurlandsáætlunar. Þessi samanburður er einkar lærdómsríkur fyrir þá, — sem vilja skoða hlutlægt, hvernig staðið hefur verið í raun að áætlanagerð í tíð fyrrv. og núv. ríkisstjórna, en svo sem kunnugt er var vegáætlun fyrir Austurland unnin í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, en undirbúningi að Norðurlandsáætlun í samgöngumálum var ekki að fullu lokið fyrir stjórnarskiptin.

Austurlandsáætlunin var gerð fyrir fram fyrir 4 ár, þannig að ætlað var ákveðið fjármagn í hvert og eitt verkefni fyrir öll árin. Þannig fékkst heildaryfirlit yfir áætlunarverkefnið, og það samræmt almennri veg áætlun, fjáröflun tryggð og tæknilegur undirbúningur framkvæmda gerður í tíma. Norðurlandsáætlunin var á hinn bóginn gerð sérstaklega fyrir árið 1972 og aftur einungis fyrir árið 1973. Á yfirstandandi ári var áætlunin svo síðbúin, að þm. fengu hana til athugunar síðast í maí, eins og ég sagði áðan. Enn hefur engin heildaryfirsýn fengist yfir áætlunarverkefnið, sem er einn höfuðtilgangur áætlunargerðar, svo að unnt sé að skipuleggja betur framkvæmdir fyrir fram. Geta má nærri, hvernig tæknilegum undirbúningi hefur verið háttað, þegar áætlunin var ekki fullfrágengin fyrr en komið var fram í júní. Þá má einnig geta nærri, hvernig aðstaðan hefur verið til að samræma verkefni Norðurlandsáætlunar öðrum framkvæmdaáætlunum, t. d. almennri vegáætlun. Við gerð Austurlandsáætlunar var tekið mið af ákveðnum grundvallarforsendum, þ. e. a. s. að ljúka skyldi 55% þeirra sérstöku samgöngubóta, sem þörf er á á Austurlandi, á áætlunartímabilinu. Ekkert slíkt markmið eða frumforsenda var lögð til grundvallar Norðurlandsáætluninni. Þessu til rökstuðnings má geta þess, að 11–12 hundruð millj. þyrftu til þess að fullnægja 55% framkvæmdaþarfa í vegagerð á Norðurlandi á áætlunartímabilinu, miðað við sama verðlag og lagt var til grundvallar Austurlandsáætlun. Frá hálfu ríkisvaldsins er á hinn bóginn gert ráð fyrir að verja 620 millj. kr. til þessara framkvæmda, þ. e. a. s. á Norðurlandsáætlun, tímabilið 1972–1976.

Þegar betur er skoðað, hvernig staðið var að samgönguáætlun fyrir Norðurland árin 1972 og 1973, hvort fyrir sig, kemur glöggt í ljós, að hér voru í raun þverbrotnar allar meginreglur í áætlunargerð. Höfuðkostur áætlunargerðar um opinberar framkvæmdir er sá, að með henni er mótuð markviss heildarstefna yfir áætlunartímann. Heildaryfirsýn fæst yfir tímabilið, þannig að unnt er að skipuleggja betur framkvæmdir og fjáröflun fyrir fram, auðveldara að samræma áætlaðar framkvæmdir öðrum þáttum framkvæmda og athafna. Allir, sem hlut eiga að máli, geta miðað starfsemi sína við, að viðkomandi verk séu framkvæmd á fyrir fram ákveðnum tíma. Því miður hefur þessu ekki verið til að dreifa um Norðurlandsáætlun í samgöngumálum, gagnstætt því, sem var um, Austurlandsáætlun, því að bæði framkvæmdaárin 1972 og 1973 var ekki nóg með, að Norðurlandsáætlun væri síðbúin, heldur vissi enginn fyrr en síðustu dagana, hvað yrði tekið inn í áætlun viðkomandi árs, því að handahófslegur og stefnulaus niðurskurður var framkvæmdur fram á síðustu stundu bæði árin.

Um vinnubrögðin í þessu efni á árinu 1972 vil ég leyfa mér að vitna í skýrslu framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Norðlendinga, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Efnahagsstofnunin lagði til, að 196 millj. kr. væri varið til samgönguáætlunar Norðurlands á árinu 1972. Þessi fjárhæð skyldi skiptast milli greina þannig, að til vega ætti að verja 126 millj. kr., til hafna 56 millj., kr., og til flugvalla12 millj. kr.“

Síðan segir orðrétt í umræddri skýrslu framkvæmdastjóra Fjórðungssamband.s Norðlendinga: „Eins og kunnugt er voru framlög til hafna og flugvalla felld niður úr áætlun fyrir 1972. Framlög til vega voru lækkuð í 100 millj. og hækkað síðan í 120 millj. Nú virðist hins vegar að viðbótin, 20 millj. kr., verði skorin niður í ár.“

Þetta segir framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Norðlendinga um fyrsta framkvæmdaár Norðurlandsáætlunar. Við þennan vitnisburð hef ég því einungis að bæta, að þegar áform ríkisstj. um þennan stórfellda niðurskurð samgönguáætlunar fyrir Norðurland kom fyrir Alþingi seint og síðar meir, mótmæltu allir þm. Norðlendinga sem einn, og fengu því áorkað, að áætlun til vega var hækkuð um þessar 20 millj. kr. Ríkisstj. hefur hins vegar sýnt þá stefnufestu að hunsa algjörlega skýlausan vilja Alþingis í þessu efni, því að þessar 20 millj. hafa mér vitanlega ekki komið til framkvæmda á Norðurlandi.

Að síðustu vík ég að vinnubrögðum við gerð Norðurlandsáætlunar fyrir árið 1973. Áætlanagerðinni fyrir það eina ár var ekki lokið fyrr en mánaðamót maí—júní. Augljóst er, að þegar hér var komið sögu, gilti ekki sú afsökun, sem óspart var haldið á lofti 1972, að of skammur tími hefði gefist til að undirbúa áætlunargerðina fyrir eðlilegt áætlunartímabil. En steininn tók þó úr, þegar ekki var unnt að koma frá sér áætluninni fyrir þetta eina ár, fyrr en komið var fram á sumar. Enn var þessi óhæfilegi dráttur notaður til niðurskurðar fram í rauðan dauðann. Þannig upplýsti forsrh., að nú skyldi tekinn inn hafna- og flugmálaþáttur áætlunarinnar og væri ætlunin að verja 25 millj. kr. til hvors þáttar um sig árið 1973. Á vordögum 1973 kom hins vegar í ljós, að þessi upphæð hafði verið skorin niður, þar sem síst skyldi.

Herra forseti. Ég hef sýnt fram á, að því miður hefur svo til tekist við gerð samgönguáætlunar fyrir Norðurland, að allar meginreglur áætlanagerðar hafa verið brotnar. Tvö ár í röð hefur áætlunin verið gerð fyrir ár í senn og verið afar síðbúin bæði árin. Engin heildarstefna hefur verið mótuð með áætlunargerðinni, og algjör óvissa hefur ríkt með framkvæmd einstakra verkefna. Fyrir dyrum stendur að endurskoða almenna vegáætlun á yfirstandandi þingi. Augljóst er, að nú eru síðustu forvöð að samræma að einhverju leyti almenna vegáætlun og Norðurlandsáætlun fyrir a. m. k. árin 1974 og 1975. Til þess að benda rækilega á þetta hef ég flutt þá till. til þál., sem hér er til umr. Með tilliti til þess, að til endurskoðunar vegáætlunar kemur fljótlega eftir áramót, vil ég leggja áherslu á, að mál þetta fái skjóta afgreiðslu í n. og því verði hraðað í meðförum Alþingis.

Ég legg svo til, að umr. um málið verði frestað og till. vísað til hv. allshn.