29.11.1973
Sameinað þing: 27. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

43. mál, samgönguáætlun fyrir Norðurland

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki bæta miklu við þær ræður, sem hér hafa þegar verið fluttar og sýna ljóslega, hver nauðsyn er, að breytt verði um vinnubrögð í sambandi við undirbúning og framkvæmd Norðurlandsáætlunar í samgöngumálum. Ég vil bæta því við eða leggja aukna áherslu á það í þessu sambandi, að á þessu þingi á að endurskoða hina almennu vegáætlun, og ég tel það algera nauðsyn, að áður en til þess verks kemur, hafi verið gengið frá samgönguþætti Norðurlandsáætlunar, svo að ljóst sé, hvaða verk þar falla undir, og þurfi ekki að grauta þessum áætlunum saman af handahófi, eins og gert hefur verið til þessa. Á síðasta vori, eins og lýst var af hv. frsm. till., gafst okkur þm. loks færi á því að mæta á fundi til þess að ræða þetta mál með þeim starfsmönnum, sem um þetta fjalla, og var það vonum seinna, en á þeim fundi voru lagðir fram svokallaðir arðsemisútreikningar einstakra framkvæmda. Það verk hygg ég, að hafi verið vel unnið og sé til mikils stuðnings við gerð slíkra áætlana. Nú nær þessi áætlun yfir meira en Norðurland. Hún nær einnig yfir Strandabyggð, og það vakti furðu mína, svo að ekki sé meira sagt, að með tilliti til þess landssvæðis, sem áætlunin nær yfir, skyldi vegarins yfir Holtavörðuheiði, þ. e. a. s. þess hluta hans, sem er í Strandasýslu og tengir þessar byggðir við Vestur- og Suðurland, hvergi getið í þessum arðsemisútreikningum. Nú er þarna um að ræða aðalþröskuldinn á þeirri leið, sem allir vegfarendur þurfa að fara, sem aka milli Norður- og Suðurlands, og er það í rauninni fáránlegt, að úr því að þessi áætlun nær yfir Norðurlandskjördæmin bæði og Strandasýslu, þá skuli þessi vegarkafli ekki tekinn þar inn í.

Ég skal ekki hafa um þetta miklu fleiri orð, en ég tel algera nauðsyn, að nú á næstu vikum verði unnið svo að þessu máli, að áætlunin liggi fyrir, a. m. k. þegar þing kemur saman að nýju eftir jólaleyfið, og að staðið verði við þá áætlun, sem þá verður gerð. Eins og tekið var fram hér áðan, hefur það gerst hvað eftir annað, að skornar hafa verið niður fjárveitingar, sem búið hefur verið að heita Norðlendingum til þessa verkefnis. Og þær kröfur verðum við að gera til áætlanagerða, að ef á að taka eitthvert mark á þeim, þá sé staðið við þær fjárveitingar, sem til þeirra er ætlað að renni. Ef litið er til verðlagsþróunar og annarra slíkra þátta og framkvæmdamáttar fjárins, er augljóst mál, að bara af þeim sökum skerast framkvæmdir niður, enda þótt staðið sé við fjárupphæð. En þegar það bætist við, eins og gerðist 1972, að 20 millj. voru skornar niður eða beinlínis hurfu, þá er ekki von, að öllum líki vel.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég einungis ítreka það mjög ákveðið, að nú verði fast að þessum málum unnið og áætlunargerðinni lokið í tæka tíð, áður en Alþ. þarf að fjalla um endurskoðun hinnar almennu vegáætlunar.