29.11.1973
Sameinað þing: 27. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

43. mál, samgönguáætlun fyrir Norðurland

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu framkvæmdaáætlun Norðurlands og hafa umr. manna beinst að því, að það sé ótækt, að slíkar áætlanir verði pappírsgagn eitt og ekki sé við þær staðið. Það er áreiðanlega rétt, að það eru skynsamleg vinnubrögð að gera slíkar áætlanir, og vissulega minnkar ágæti þeirra verulega, þegar það verður almennt reynslan, að þær sé lítið að marka og þær séu bara gagnslítil pappírsgögn. En þetta er því miður ekki alveg ný bóla.

Það er hv. alþm. kunnugt, að fyrsta áætlun þessarar gerðar, sem hér var gerð, var hin svokallaða Vestfjarðaáætlun. Lengi var hún dularfullt fyrirbæri og erfitt að fá upplýsingar um það, hvar hún væri eða hvort hún væri yfirleitt til. Að síðustu fór svo, að plaggið reyndist finnanlegt og það kom í leitirnar. Og eftir margítrekaðar tilraunir fékk ég aðstöðu til að ná þessu plaggi í mínar hendur. Þetta var fyrsta áætlunin, sem gerð var. Svo kom þar á eftir Austfjarðaáætlunin, og hún hefur um nokkurra ára skeið verið í framkvæmd, og svo þar á eftir Norðurlandsáætlunin, sem er þó ekki hægt að segja, að sé annað en í sköpun enn þá, en hún er yngst þessara áætlana.

En svo að ég víki að því, sem hv. alþm. hver á fætur öðrum hafa nú rætt um, vanefndum á þessum áætlunum, þá skal ég síst mæla því bót. En þá sögu er þó að segja um Vestfjarðaáætlunina, að sá eini þáttur af Vestfjarðaáætluninni, sem varð til, samgöngumálaþátturinn, varðandi vegi um hluta af Vestfjarðasvæðinu og flugvelli á þremur stöðum og nokkrar hafnagerðir, — annað fólst ekki í þessari áætlun, — hefur ekki verið framkvæmdar nema að nokkrum hluta. Það eru þó nokkur atriði, sem alls ekki hafa komið til framkvæmda af þessari takmörkuðu áætlun.

Ég vil svo að ég fari ekki í neitt af því stærra, nefna bara tvö atriði.

Á Vestfjarðaáætluninni var ákveðið að gera jarðgöng í gegnum Breiðadalsheiði á Vestfjörð um. Sú framkvæmd hefur alveg verið lögð til hliðar og er ekki framkvæmd enn, ekki byrjað á henni, þrátt fyrir það að búið sé að framkvæma hliðstæða framkvæmd í Austfjarðaráætlun, sem Oddsskarðsjarðgöngin, sem nú er verið góðu heilli að ljúka. Mér er ekki kunnugt um það, að neinn aðili hafi fengið umboð til þess að skera Vestfjarðaáætlunina að þessu leyti niður. Það hefur alveg farið fram hjá mér, ef nokkur aðili hefur fengið heimild til þess frá Alþ. að breyta henni á þennan hátt og skera þessar framkvæmdir niður, en þetta hefur samt aldrei séð dagsins ljós. Það var þó samkvæmt Vestfjarðaáætluninni búið að ákveða fjáröflun til þessa verks sem annarra á áætluninni. Það átti að gerast með erlendri lántöku, og lánið mun hafa verið tekið, svo mikið er víst. Það var úr hinum rómaða flóttamannasjóði Evrópu, sem þetta fé átti að koma, og það kom. En það hefur aldrei farið í jarðgangagerðina í gegnum Breiðadalsheiði.

Önnur framkvæmd, sem var ákveðin á Vestfjarðaáætluninni, var malbikun Ísafjarðarflugvallar. Sú framkvæmd er óframkvæmd enn. En nú finnst mér alveg tilvalið, þar sem verið er að ljúka jarðgöngunum í gegnum Oddsskarð, að það verði haldið áfram slíkri mannvirkjagerð með því að hefjast nú handa um jarðgöngin í gegnum Breiðadalsheiði í beinu framhaldi af hinni framkvæmdinni, þegar henni er lokið. Og nú stendur þannig á líka, að félagsskapur hefur verið myndaður á Vestfjörðum til þess að afla fullkominna og mikilvægra tækja til malbikunar gatna og vega og þau tæki verða til með vordögum, og þá finnst mér, að ætti að nota tækifærið til að nota þau tæki til þess að malbika Ísafjarðarflugvöll, svo og þá vegi út frá Ísafjarðarkaupstað, sem hafa verið á framkvæmdaáætlun liðins árs og þessa árs í leiðinni.

Finnst mér ekki vera nema sanngjarnt úr því að um margfaldar vanefndir er að ræða á áætlunum, að þá sé byrjað á elstu vanefndunum og staðið við þau hátíðlegu loforð og þær fjárveitingar notaðar, sem til þess voru upphaflega ætlaðar, en svo aldrei látnar til þess renna, sem þeim var ætlað. Það voru fjárveitingar, bæði útlend lántaka og loforð um mótframlag úr ríkissjóði til þessara mannvirkja, sem er óframkvæmt enn, og er best að ganga á röð vanefndanna og ráðast fyrst í það að fullnægja Vestfjarðaáætluninni, síðan Austfjarðaáætluninni og þá í þriðju röð Norðurlandsáætluninni. Skal ég engum þessum vanefndum mæla bót, en þetta finnst mér sanngjarnt.