29.11.1973
Sameinað þing: 27. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

43. mál, samgönguáætlun fyrir Norðurland

Flm. (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. flestum, sem hér hafa tekið til máls, fyrir jákvæðar undirtektir undir þessa þáltill., enda hygg ég, að málið sé þannig vaxið, að allir, sem það kynna sér, hljóti að vera sammála um nauðsyn málsins.

Ég vil í sambandi við það, sem einstakir þm. ræddu hér, gera nokkrar aths. við sumt af því. Hv. 1. þm. Vestf. tók mjög jákvætt undir þessa till., og þakka ég honum fyrir það. En hann benti á það, að þarna væri ekki stjórnvöldum um að kenna, heldur værum við að samþykkja hér á hv. Alþ. áætlanagerðir um allt, sem hugsast getur, allt milli himins og jarðar, og þetta væri svo mikið áætlanaflóð, að áætlanadeild Framkvæmdastofnunarinnar réði ekkert við það. Þetta má kannske til sanns vegar færa. En ég held, að það hljóti að liggja í hlutarins eðli í þessum efnum, að það sé verkefni stjórnvalda að meta og vega, hvað sé nauðsynlegast, ekki síst ef stjórnvöld vilja hafa fyrir markmið eðlilega byggðastefnu, sem ég efast ekki um að hv. 1. þm. Vestf. sé mér sammála um, að eigi að vera leiðarljós í þessum efnum, a. m. k. þegar verið er að meta forgangsaðgerðir í þeim efnum, sem horfa til heilla fyrir byggðaþróun í landinu. Mér sýnist, að þarna sé um að ræða, að stjórnvöld þurfi að hafa skipulag á sinni áætlanagerð. Þau þurfa m. ö. o. að skipuleggja skipulagsstörfin hjá sér. Ég hygg, að ég hafi frá upphafi, frá því að lög um Framkvæmdastofnunina voru sett og frá því að þau stóru orð féllu hér um áætlanagerð, einmitt hent á þetta atriði, að þessi stofnun og þeir, sem henni stjórnuðu mundu fljótlega reka sig á nauðsynina í þessum efnum, að skipuleggja sitt eigið skipulagsstarf.

Hv. 3. þm. Vestf. ræddi hér um þetta mál og taldi, að það væri ekki ný bóla, að vanefndir yrðu á samgönguáætlun. Nú er þessi hv. þm. nýstiginn úr ráðherrastóli samgöngumála og viðurkenndi raunar með þessum orðum, að hann hefði vanefnt Norðurlandsáætlun, sem heyrði undir hann sem samgrh. á þessum árum, sem hann sat í því embætti. Svo langt vildi hann seilast til að sýna fram á, að það hefði verið vanefnd samgönguáætlun um Vestfirði á sínum tíma, sérstaklega að því er varðaði jarðgöng gegnum Breiðadalsheiði. Mig minnir, að það hafi staðið þannig af sér um þessa framkvæmd, að þá hafi verið nýlokið gerð jarðganga um Strákagöng, sem kölluð eru, við Siglufjörð og reynslan af þeirri gangagerð hafi orðið mönnum mikið umhugsunarefni, og þá hafi verið horfið að því ráði að leggja þetta fé í aðrar samgöngubætur á Vestfjörðum eftir þessari áætlun. Það má vel vera, að það hafi ekki fengist heimild til þess hér. En ég hygg, að það hafi ekki farið svo á Vestfjörðum, að því fé, sem var aflað til þeirrar áætlunar, hafi ekki verið varið til samgöngubóta á Vestfjörðum, öfugt við það, sem gert var þegar hv. þm, var samgrh. Þá samþ. Alþ. 120 millj. kr. til framkvæmda samkvæmt Norðurlandsáætlun í vegamálum, en 20 millj. sáu aldrei dagsins ljós, það var aldrei framkvæmt fyrir þær á Norðurlandi.

Hv. 1. þm. Austf. leiðrétti mál mitt, og var það að nokkru leyti rétt, sem hann sagði. Ég mun hafa verið ónákvæmur í orðavali, þegar ég talaði um, að það væru 55% af samgönguþörf á Austurlandi, sem áætlunin hefði verið gerð um. Þar var um að ræða, eins og hann réttilega tók fram, 55% af svokölluðum millibyggðavegum, sem slíkar áætlanir ná til. En á hinn bóginn er það alveg sambærilegt, sem ég nefndi hér, að 11–12 hundruð millj. kr. mundi þurfa til samskonar samgöngubóta á Norðurlandi, ef í þær væri ráðist. Þá mundi þurfa 11–12 hundruð millj. kr. til sams konar samgöngubóta og eru í Austfjarðaáætlun, þannig að það stendur óhaggað, sem ég sagði um samanburðinn á þessu, þótt orðaval mitt hafi ekki verið nógu nákvæmt, og bið ég hv. alþm., velvirðingar á því. En það var alveg rétt, sem hann sagði, að þarna er auðvitað miðað við ákveðna vegi, því að þessar áætlanir, bæði Norðurlandsáætlun og Austurlandsáætlun, ná til ákveðinna vega.