29.11.1973
Sameinað þing: 27. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

43. mál, samgönguáætlun fyrir Norðurland

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, enda sýnist mér, að sumt af því megi bíða framboðsfunda á Norðurlandi. Þá verður tækifæri til að ræða þessi mál og taka það til athugunar m. a., hvað hefur verið gert nú á tveimur síðustu árum í samgöngumálum Norðlendinga og hvað var gert áður.

Ég hygg, að hvað sem öllum áætlunum líður, verði því ekki á móti mælt, að það hafi aldrei áður verið gert þvílíkt átak í samgöngumálum, a. m, k. þar sem ég þekki til á Norðurlandi vestra, eins og á þessu kjörtímabili, sem nú er, og það ætla ég þó, að sé aðalatriðið, hvað sem öllum áætlunum líður.

En ég held, að það sé nokkuð stórt orð að tala um vanefndir á samgönguáætlun Norðurlands. Ég held, að það sé einmitt aðalatriðið í sambandi við áætlanir, eins og hér hefur verið viðurkennt, að það sé ekki verið að búa til pappírsáætlanir, án þess að það sé tryggt nokkurt fjármagn til framkvæmda, og það var einmitt eitt af þeim markmiðum, sem stefnt var að með Framkvæmdastofnuninni, að tengja saman áætlanagerð og fjármagnsöflun til framkvæmdanna, þannig að það væri tryggt, að þessar áætlanir yrðu ekki bara pappírsgögn. Það ætla ég að hafi tekist. Ég held einmitt, að það hafi haldist í hendur, að áætlanirnar hafi verið gerðar þannig úr garði, að jafnframt því sem þær voru gefnar endanlega út, hafi verið séð fyrir fjármagni til þeirra, þannig að ekki hafi staðið á því. Ég held þess vegna, að það sé mjög ofmælt að tala um nokkrar vanefndir í þessu sambandi, vanefndir á samgönguáætlun Norðurlands.

Menn verða að gera sér grein fyrir því líka, hvernig áætlanirnar eru unnar. Að þessum áætlunum vinna starfsmenn Framkvæmdastofnunarinnar. Það er tekið fram, að þeir skuli gera það í samvinnu við heimamenn, og það er gert. En það er bara verið að fjalla um fyrri þáttinn, áætlunina á pappírnum, skulum við segja. Og það er auðvitað ekkert raunsætt í því að taka tölur, sem koma fram í sambandi við slíka undirbúningsvinnu, og telja þær alveg endanlega frágengnar og þar með vera orðnar að áætlun. Áætlunin er fyrst raunverulega orðin áætlun, þegar endanlega hefur verið gengið frá henni af viðkomandi aðilum, hún staðfest af þeim og fjármagn til hennar jafnframt útvegað.

Það getur vel verið, að einmitt vegna þessara vinnubragða, sem höfð eru við þessar áætlanir, hafi vonin kviknað hjá ýmsum um tilteknar framkvæmdir eða meiri framkvæmdir en endanlega var hægt að standa við. En þá vil ég segja, að það, sem þær vonir hafa verið byggðar á, hafi verið uppkast að áætlun, en ekki endanleg áætlun. Ég held því, að það sé óréttmætt algerlega að tala um vanefndir í þessu sambandi, enda hygg ég, að Norðlendingar yfirleitt sjái, hvað gert hefur verið, viti, hvernig að þessu hefur verið unnið, og það er þá a. m. k. alveg eins rétt og hægt að ræða þessi mál við þá, á fundum þar, eins og að eyða dýrmætum tíma hæstv. Alþ. til þess.

Hitt getur svo skeð, að þrátt fyrir fullkomnar áætlanir og þrátt fyrir það, að séð sé fyrir fjármagni til þeirra, komist þær ekki alveg að fullu í framkvæmd, af því einfaldlega, að það vantar annað hvort eða hvort tveggja, vinnuafl eða tæki til að koma þeim í framkvæmdir. Það hefur auðvitað sína þýðingu líka við þessar áætlanir og framkvæmdir, hvenær er hægt að byrja á þeim. Við þekkjum það á Norðurlandi, að það getur orðið þannig ástatt, þegar haust er komið og vetur ber að, að það sé ekki hægt að vinna þá vinnu, sem gert hefur verið ráð fyrir. Þess vegna tek ég undir það út af fyrir sig, að það er æskilegt, að áætlanirnar liggi fyrir nægilega tímanlega og það sé hægt að byrja á þessum verkefnum nægilega tímanlega.

Þetta vildi ég aðeins taka fram og skal svo ekki hafa um það miklu fleiri orð, en vil þó endurtaka það, að ég held það sé alveg óþarfi fyrir hv. þm., a. m. k. þm. Norðurl. v., að kvarta nokkuð í þessum efnum, og ég ætla, að það sama gildi um hv. þm. Norðurl. e., að þeir hafi fengið nokkurn veginn í sinn hlut það, sem þeim bar.

Nú en það er náttúrlega ágætt og fróðlegt fyrir þingheim að hlusta á fyrirlestur frá hv. þm. Lárusi Jónssyni almennt um áætlanagerðir, vegna þess að hann þekkir vel til þeirra, og þekkir sérstaklega vel til áætlanagerða á Norðurlandi. Hann var fyrsti starfsmaðurinn, sem vann að áætlanagerð, og hann ætti kannske að uppfræða hv. þm. um það, hve mikið af þeim áætlunum, sem hann gerði, hafi orðið pappírsgögnin ein og hve mikið af þeim hafi komist til framkvæmda. Ef menn ætla að fara að rekja sögu, þá er best að rekja hana frá upphafi. Sú áætlanagerð, sem hann gerði, og ég vil ekkert vera að gera lítið úr því ritverki, sem frá honum kom, var að mestu leyti tómar hugleiðingar um það, hvað gera þyrfti, en ekki beinar áætlanir, og ekki áætlanir þannig, að þær væru tengdar neinu fjármagni. Það, sem aðallega kom frá honum, voru skýrslur um mannfjölda og mannflutninga á Norðurlandi vestra og eystra, sem út af fyrir sig var tiltölulega auðvelt að vinna, og í annan stað svonefndur atvinnumálakafli. En ég held, að það hafi verið unnið meira að atvinnumálum á Norðurlandi í tíð núverandi stjórnar, eftir að hv. þm. Lárus Jónsson kom á þing, heldur en á meðan hann sat á Akureyri og gerði sínar áætlanir um atvinnumál. Það var vissulega margt rétt, sem þar var bent á, en um hreinar áætlanir var þar ekki að ræða. Ég held þess vegna, að þó að það sé engin ástæða til að undrast það, þó að hv. stjórnarandstæðingar reyni að finna eitthvað að, þá gætu þeir, ef þeir leituðu vel, fundið eitthvað, sem þeim hentaði betur að taka til gagnrýni heldur en samgönguáætlun Norðurlands og yfirleitt áætlanagerð á Norðurlandi, sem er unnið nú að, ég vil segja með fullum krafti.