03.12.1973
Neðri deild: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

Umræður utan dagskrár

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það hefur nú komið skýrt fram, sem mig og marga aðra grunaði, að hæstv. ríkisstj. hefur engin úrræði tiltæk til að reyna að ráða bót á þessum mikla vanda. Það kemur fram hjá hæstv. ráðherrum, að ríkisstj. muni nú taka öll þessi mál til skoðunar, að væntanlega þurfi eitthvað að hægja á ferðinni á næsta ári, að ríkisstj. hafi verið ljóst, að hér gæti verið vandi á höndum. Þetta er gott og blessað. En þetta er ekkert nýtt, sem kemur fram í þessum ályktunum L. Í. Ú. Það er ljóst hverjum manni, sem hefur haft opin augu, að undanfarin tvö ár hefur verið hér vaxandi verðbólga og mikill skortur á vinnuafli, þó að nú virðist keyra um þverbak. Þess vegna hefði hæstv. ríkisstj. átt að vakna fyrr, standa á verðinum þegar frá upphafi og gera á hverjum tíma þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar voru til þess að forðast þessa þenslu eða draga eins mikið úr henni og þjóðfélaginu var nauðsynlegt. Hins vegar kemur fram í ræðu hæstv. forsrh., að um leið og stjórnin virðist ekki hafa nein úrræði, þá setur hún allt sitt traust á stjórnarandstöðuna, því að mér skilst, að hún bíði nú eftir því, að fjárlögin komi til 2. og 3. umr. og þá muni stjórnarandstaðan leggja fram till., sem væntanlega geti leyst málið.

Þetta er ekki sérstaklega skemmtileg mynd af einni ríkisstjórn, að hún gefist upp við eitt aðalvandamál sitt og bíði eftir því, hvað stjórnarandstaðan kunni að vilja leggja til. E. t. v. er það þess vegna, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt svo mikla áherslu á að fá annan stjórnarandstöðuflokkinn inn í stjórnina og gert margítrekaðar tilraunir til þess, þó að það hafi ekki borið árangur enn. Ég vil taka fram, að slíkt bónorð hefur ekki verið borið upp við Sjálfstfl., enda held ég, að því yrði heldur kuldalega tekið.

Nú er það öllum mönnum ljóst, sem fylgst hafa með þróun efnahagsmála, að hér er geysilegur vandi á höndum, og það er augljóst mál, að hin sjálfsögðustu og einföldustu lögmál efnahagslífsins hafa verið þverbrotin nú að undanförnu. Það er lögmál, held ég, í öllum löndum, að þegar þensla er í atvinnulífinu, — ég vil segja, þegar góðæri er, bæði inn á við og út á við, þá er það skylda hins opinbera að hafa heldur minni umsvif í bili til þess að keppa ekki um vinnuaflið við atvinnuvegina, reyna þá heldur að leggja fyrir og safna í sjóði til þess að geta verið tilbúið að grípa inn í, ef þrengist um atvinnu eða atvinnuleysi verður. Þessa hefur, held ég, ekki verið gætt vegna þess, að á undanförnum tveimur árum, síðan hæstv. ríkisstj. komst til valda, hefur af hendi hins opinbera verið kapphlaup um vinnuaflið við atvinnu vegina með þeim afleiðingum, sem nú blasa við.

Það er vissulega sorglegt, að hæstv. ríkisstj. skuli nú eftir rúmlega tveggja ára feril enn ekki hafa komið auga á nein úrræði til að bæta hét úr. Það er auðvitað gott, ef hún ætlar að fara að reyna að bisa við þetta, eins og hæstv. fjmrh. komst að orði í sjónvarpinu nýlega. Það er gott, ef hún er að vakna til skilnings á því, að hér er sá vandi á höndum. En það hefði þurft að gerast miklu fyrr.

Ég taldi rétt að vekja athygli á þessu mikla vandamáli hér, alveg sérstaklega vegna þess, að hæstv. ríkisstj. virðist hafa sofið á verðinum. Þrátt fyrir þá nefnd, sem hæstv. sjútvrh. skipaði fyrir mánuði til þess að kanna, hve marga menn vantaði til sjávarútvegsins, hefur L. Í. Ú. eða formönnum þess ekki þótt meira um það vert en svo, að á þessari ráðstefnu nú rétt fyrir helgina er komist svo að orði, að ekki sé að sjá, að þeir, sem landinu stjórna, hafi miklar áhyggjur af þessari þróun, hið opinbera virðist hvergi draga úr umsvifum sínum eða sýna vilja til, að hér þurfi að verða breyting á.

Það er ekki nægilegt að setja n. til þess að kanna það í ýmsum verstöðvum, hversu marga starfsmenn kunni að vanta á næstu vertíð. Það, sem hefði þurft að gera fyrir löngu, var að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma á jafnvægi í efnahagslífi þjóðarinnar.