03.12.1973
Neðri deild: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hv. 5. þm. Reykv., að við ætlum að bíða eftir úrræðum af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hins vegar fýsir marga að sjá, t. d. í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, hversu vel fari saman orð þeirra og athafnir, hversu ákafir þeir verði þá til að fylgja fram lækkunartillögum við fjárlög til þess að létta af sér þeim áhyggjum, sem íþyngja þeim svo mjög, eða hvort þeir þrátt fyrir allar áhyggjur, sem þeir hafa af ofþenslunni og þjaka þá um þessar mundir, leitist kannske við að hækka fjárlögin. Það var þetta, sem ég vildi sagt hafa. En hv. 5. þm. Reykv. lagði það út með frjálslegum hætti. Annars fannst mér undiralda í hans máli vera af öðrum toga spunnin. Mér fannst kenna nokkurrar afbrýðisemi hjá honum, þar sem hann skýrði frá því, að stjórnin hefði leitað til annars stjórnarandstöðuflokksins og verið á biðilsbuxum við hann um að fá hann inn í stjórnina. Nú get ég huggað þennan hv. þm. með því, að stjórnin hefur ekki enn borið upp bónorð við þennan annan stjórnarandstöðuflokk, svo að hann þarf ekki að hafa mjög miklar áhyggjur af því. Það er nú svo samkv. gamalli reynslu, að sú mær, sem lætur einna ólíklegast til að byrja með, getur orðið leiðitöm að lokum. Þess vegna er ekki fyrir það að synja, þrátt fyrir allar fullyrðingar hv. 5. þm. Reykv., að sá stjórnarandstöðuflokkurinn, sem bann er í fyrirsvari fyrir, mundi ganga í sæng, ef boðið væri, hann tæki það til velviljaðrar athugunar, ef formlegt bónorð væri borið upp. En það bíður nú sjálfsagt fram yfir áramótin a. m. k.