03.12.1973
Neðri deild: 33. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

107. mál, lántökuheimild vegna framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar 1973

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Menn hafa hér verið að deila nokkuð um, hvort það sé byggðastefna eða ekki byggðastefna að verja allmiklu fé, sem íslenska ríkið á kost á að fá að láni hjá Alþjóðabankanum, til þriggja hafna á Suðurlandi. Um það atriði vil ég aðeins segja það, að ástæðulaust er að metast um þetta, því að á þessu fé átti íslenska ríkið engan kost nema vegna þeirra óskapa, sem yfir dundu í Vestmannaeyjum, og þá til umbóta á þeim höfnum, sem Vestmannaeyjaflotinn þá varð að notast við, þó að aðstaða væri þar ekki góð til þess, að hann gæti stundað þaðan veiðar. Það þarf því enginn nokkurs annars staðar á landinu að sjá ofsjónum yfir því, að þessar hafnir fá þetta fé. Það varð annaðhvort að segja já við fé til þessara hafna, sem sérfræðingar bankans töldu að kæmi sér best, eins og þá horfði við, sem aðstoð við Vestmannaeyjar, eða hafna því. Þó að nú hafi farið betur en á horfðist og Vestmannaeyjahöfn komið fyrr í gagnið en nokkurn óraði fyrir og þó að Vestmannaeyjauppbyggingin sé nú komin lengra á veg en nokkur gat gert sér vonir um, þá var þessu máli slegið föstu á þeim tíma, þegar svartast var útlitið, og var þá ákveðið að taka þessu boði, að Alþjóðabankinn legði fram lánsfé, óvenju háar upphæðir á okkar mælikvarða, til þeirra hafna, sem helst komu að gagni fyrir Vestmannaeyjaflotann, en það voru Grindavíkurhöfn, þar voru margir Vestmannaeyjabátar og höfnin stórhættuleg, a. m. k. ókunnugum, Þorlákshöfn og svo Höfn í Hornafirði. Það var einnig litið á möguleikana á gerð nýrrar hafnar á suðurströndinni og það skoðað af sérfræðingum Alþjóðabankans og íslensku n., sem um þetta fjallaði. Það var álit þeirra, að þó að farið væri í þá framkvæmd, þá kæmi hún ekki að gagni fyrr en eftir a. m. k. 5 ár. En menn gerðu sér vonir um það, að innan 5 ára tímabils væri orðið útséð um það, hvort Vestmannaeyjar yrðu byggðar aftur eða ekki, og sennilegt, eins og nú hefur reynst, að Vestmannaeyjar væru þá búnar að ná sér að mestu eftir þetta áfall.

Að fengnu þessu áliti erlendu sérfræðinganna athuguðu íslensku nefndarmennirnir þann möguleika, að snúa sér að gerð nýrrar hafnar, enda var þál., sem frammi lá, eingöngu um það, að ef Vestmannaeyjahöfn eyðilegðist, þá yrðu kannaðir möguleikar á gerð nýrrar hafnar á suðurströndinni. Það var enginn svo svartsýnn að slá því föstu, að Vestmannaeyjahöfn væri algerlega úr sögunni. Hins vegar var ekki til neins að ráðast í úrbætur vegna óskapanna í Vestmannaeyjum, sem ekki kæmu að gagni fyrr en eftir 5–6 ár. Og þá var enginn kostur annar fyrir hendi en að snúa sér að umbótum á þeim höfnum, sem útlit var fyrir, að Vestmannaeyjaflotinn yrði að halda sér að, ef hann ætti að vera í gangi, stunda veiðar við suðurströndina, og það voru fyrst og fremst þessar hafnir. Ég undirstrika það, að ég er alveg sammála því, að í fremstu röð bar þar að líta á Þorlákshöfn, eins og gert hefur verið með þessum fjárveitingum.

Ég hygg, að það hafi ekki verið á valdi fjmrh.. Íslands eða neinna íslenskra yfirvalda að breyta till. Alþjóðabankans um þetta. Ef við hefðum sagt: Við þurfum ekkert vegna Grindavíkurhafnar, — þá hefði sú upphæð, sem þeir höfðu lagt til að hún fengi, verið skorin af lánsupphæðinni. Þetta var þeirra till.: Þorlákshöfn, Grindavíkurhöfn og Höfn í Hornafirði og eftir þeirri till. hefur verið farið, og það hefði öllum þótt eðlilegt, ef ekki hefði birt eins í lofti og gert hefur nú varðandi Vestmannaeyjamálin, sem betur fer. En það sá enginn fyrir þá.

Það hryggir mig mjög, ef illa staddar hafnarstjórnir á Vestfjörðum, Norðurlandi eða Austfjörðum sjá ofsjónum yfir þessu. Þetta fé hefði ekki komið að gagni neinum öðrum á Íslandi. Og ég hygg, að það spilli ekki heldur fyrir möguleikum neins staðar á Íslandi, að þetta er gert. Ættu þessar 3 hafnir þá að vera léttari á fjárveitingum til hafnamála, a. m. k. eftir að þessi áfangi hefur verið framkvæmdur. Og þá hefðu e. t. v. skapast möguleikar til að sinna meira með íslenskum fjárveitingum öðrum höfnum og hinum miklu þörfum þeirra.

Þetta taldi ég ástæðu til að segja út af þeim umr., sem hér hafa farið fram, og þar með er máli mínu lokið.