03.12.1973
Neðri deild: 33. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

107. mál, lántökuheimild vegna framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar 1973

Pálmi Jónsson:

Herra forseti.Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið frá því, sem þegar er orðið. Ég vil þó taka undir það, sem fram hefur komið, að hvort tveggja er, að meðferð þessa máls er með nokkuð sérlegum hætti, þegar við 2. umr. málsins hér í hv. d. er flutt brtt. um heimild til að taka hvorki meira né minna en 7 millj. dollara lán, en það er slíkt stórmál, að ástæða hefði verið til, að það hefði komið fram þegar við 1. umr. þessa máls eða þá að flutt hefði verið um það sérstakt frv. Hitt er svo annar þáttur þessa máls, að nokkuð sýnist sitt hverjum um það, hvernig meiningin er að verja þessu fé. Enginn hefur mælt gegn því, að lán þetta væri tekið. En svo er nú komið með aðstæður í Vestmannaeyjum og við suðurströndina, að nokkur efi er í hug manna, hvort ekki hefði verið ástæða til að verja þessu fé til fleiri hafna en frv. gerir ráð fyrir.

Þegar ósköpin dundu yfir í Vestmannaeyjum á s. l. vetri, var það einhuga þjóð, sem studdi það dyggilega og af fullum drengskap, að þar skyldi brugðist skjótt við og hafin í fyrsta lagi björgun og síðar uppbygging með myndarlegum hætti, svo að þessi þýðingarmikla byggð mætti rísa að nýju. Sem betur fór hefur svo til tekist, að tjón varð minna en ýmsir óttuðust að yrði, og þarf ekki að lýsa því. Það, sem mestu skiptir þó, er það, að það er álit manna, að höfnin, lífæð byggðarlagsins, hafi staðið af sér þessi áföll, svo að hún sé nú jafnvel betri en nokkru sinni fyrr. Það gefur aftur tilefni til þess, að hér á hv. Alþ. sé vakin athygli á því, eins og gert hefur verið í þessum umr., að ástæða kynni að vera að verja þessu fé á annan veg en fyrirhugað er að gera og láta það fjármagn, sem hér um ræðir, renna víðar um landsbyggðina en frv. gerir ráð fyrir. Verði það ekki, þá hlýtur það að leiða til þess, að bæði Alþ. og fólkið víðs vegar um landsbyggðina gerir þær kröfur á hendur núv. ríkisstj., að auknu fé verði varið til hafnarframkvæmda og til þess að létta byrði hafnarsjóða vítt og breitt annars staðar um landið en nú virðist gert ráð fyrir.

Í sambandi við þær horfur, sem nú eru við suðurströndina, vil ég aðeins bæta við það, sem sem ég sagði um hafnaraðstöðu í Vestmannaeyjum nú. Í Þjóðviljanum í gær er sagt, að búist sé við því, að allir Eyjabátar muni gera út frá Vestmannaeyjum á komandi vertíð, og að aðalvandinn þar sé fólginn í því, að ekki sé vissa fyrir, að nægilegt fólk fáist þar til starfa, en aðstaða til að taka á móti vertíðarfólki sé jafngóð og fyrr. Það eru því breyttar aðstæður fyrir hendi, miðað við það sem var, þegar það kom á dagskrá að taka þetta lán. Og þær breyttu aðstæður eru fagnaðarefni fyrir þjóðina alla. Þær gefa hins vegar tilefni til þess, að þær umr., sem hér hafa farið fram um þetta efni, hafa snúist nokkuð á þann veg að krefjast þess, að fari svo sem ætlað sýnist vera, að þessu fjármagni verði varið í því skyni, eins og sagt er, að bæta aðstöðu Vestmannaeyjabáta við suðurströndina, þá verði sterklegar unnið en nú sýnist fyrirhugað að bæta einnig aðstöðu þeirra hafna sem hvarvetna annars staðar á landinu búa við mjög léleg skilyrði.

Ég þarf ekki að ítreka það hér, ég hef minnt á það fyrr hér á hv. Alþ., hversu fjárveitingar hafi verið af skornum skammti til hafna í mínu kjördæmi. Ég ætla ekki að fara í skæklatog um þetta mál, en á það má benda, að bæði þar og ég hygg annars staðar séu aðstæður þannig, að naumast sé legarúm fyrir heimabáta. Það er til, að nýir skuttogarar standi á botni, nema þegar háflóð er, og bæði bátar og mannvirki eru í stórhættu af völdum veðra ef eitthvað ber út af. Þess vegna vil ég taka undir með hv. 2. þm. Vestf., að við hljótum að krefjast þess, að jafnframt þeim miklu fjármagnsflutningum, sem hér eru fyrirhugaðir í sambandi við þessar miklu framkvæmdir við suðurströndina, verði til mótvægis auknu fjármagni verið til hafnarmannvirkja við Norður-, Vestur- og Austurland. Þetta vildi ég láta koma hér fram, og hæstv. ríkisstj. má vita það, að Norðlendingar, Vestfirðingar og aðrir landsmenn, sem fjær búa þessum stöðum, taka eftir þessu máli. Það þrýstir og enn á um það, að unnið sé að því að fullgera nýja hafnaáætlun, þar sem fólkinu í landinu og Alþ. sé gerð grein fyrir því, hvað ríkisstj. hyggst fyrir í þessum málum.