04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki misnota tímann eða tefja hann lengur en brýn þörf er á.

Svar mitt við þeirri fsp., sem beint var til mín um húsnæðismálin og ég svaraði 6. nóv., virðist hafa valdið nokkrum misskilningi, að ekki sé fastar að orði kveðið, því að þar sagði ég, og virðist mér ekki af veita, þótt svarið, eins og það var raunverulega, hafi verið birt tvisvar sinnum í Morgunblaðinu, að það verði lesið einu sinni enn þá, til þess að menn sjái, hvað hér er um að ræða. Ég sagði:

„Hinn 19. okt. s. l. voru 127 þessara íbúða (þ. e. a. s. þær, sem fokheldar eru fyrir 15. nóv.) orðnar fokheldar, og má gera ráð fyrir eða leiða líkur að því, að þær geti orðið um 300 a. m. k. Þó er þetta nokkurri óvissu háð, þær geta eins orðið eitthvað fleiri. Og það er þegar ljóst af þeim aðgerðum, sem hafa verið gerðar í fjármálum Byggingarsjóðs, að unnt er að veita þessi lán fyrir áramót.“

Þetta sagði ég. Og ég hygg, að það þurfi ekki mikinn skilning og ekki ýkjamikinn velvilja til þess að sjá það, ef menn lesa þetta svar mitt, að ég á auðvitað við þessar 300 íbúðir eða rúmlega það, sem ég tala þar um, en ekki við eitthvað, sem ófyrirséð kæmi. Það held ég, að öllum hljóti að vera ljóst. Nú er það svo, að í reglum og lögum eru ákvæði um það, að þeir, sem sækja eftir 1. febr. á hverju ári, geti ekki vænst neinnar meðferðar og neinna lánsloforða á því ári. Það segir t. d. í 6. gr. reglugerðar frá 1970, sem hefur þá væntanlega ekki verið sett af þeirri ríkisstj., sem nú situr:

„Þeir aðilar, sem óska eftir láni samkv. a-lið 2. gr. reglugerðar þessarar, skulu sækja um það á þar til gerðu eyðublaði, er húsnæðismálastjórn lætur í té. Umsókn skal berast húsnæðismálastjórn fyrir 1. febr. það ár, sem lánsloforðs er óskað. Umsóknir, sem síðar berast, verða ekki teknar til greina á því ári.“

Þessa reglu hefur húsnæðismálastjórn auglýst ævinlega fyrir hver áramót, þ. á m. fyrir áramótin 1972, og þeir, sem sóttu síðar, hafa því vitað það allan tímann, að það var undir því komið, hversu fjármálakerfi húsnæðisbyggingasjóðs væri háttað, hvort hægt væri að veita þessi lán. Það hefur að vísu oft verið gert, þegar þannig hefur árað, en þegar svo hefur ekki verið, þá hefur það verið látið ógert, og gæti ég nefnt dæmi um það og þau af miklu verri enda en það, sem hér er nefnt. Sem aðeins eitt lítið dæmi nefni ég það, að 10. júlí 1968 fór fram veiting frumlána út á íbúðir, sem voru þá orðnar fokheldar fyrir löngu. Svo bágborinn var þá hagur Byggingarsjóðs, að ekki var unnt að láta þessi lán koma til greiðslu fyrr en eftir 1. apríl 1969, þ. e. a. s. 10 mánaða bið, frá því að lánsloforðin voru gefin út. En þeir, sem hér um ræðir og hv. þm. her fyrir brjósti og ég er ekki að misvirða það við hann út af fyrir sig, þeir fá biðtíma upp á rúman mánuð fram yfir það, sem ítrast var hægt að gera ráð fyrir, að þeir fengju.

Um þetta mál er það annars að segja, að ég taldi það auðvitað skyldu mína, þegar ég var aðspurður á Alþ., að gefa þær upplýsingar, sem ég bestar vissi, og ég aflaði mér þeirra heimilda um það, sem ég gat, og ég veit, að þær voru gefnar af fullri samviskusemi, því að starfsmenn húsnæðismálastjórnar eru ágætir starfsmenn og gefa áreiðanlega ekki rangar upplýsingar. Ég hef hér fyrir framan mig skýrslu stofnunarinnar frá 1. nóv., þ. e. a. s. 5 dögum áður en fsp. kom til umr., þar sem gert er ráð fyrir, að frumlánin öll, bæði þeirra, sem sóttu fyrir og eftir 1. febr., væru upp á 140 millj. Ég vann að því að útvega fjármagn, til þess að það væri unnt að svara þessari upphæð, og það er einmitt sú upphæð, sem kemur til útborgunar nú fyrir nýár í samræmi við þær upplýsingar, sem ég áður taldi. Hitt er annað mál, að þegar á síðustu stundu og á örfáum dögum kemur fram, að þessar íbúðir eru hvorki 300 né 350, heldur rétt 700, þá skapast vandi, sem ekki er auðleystur. Og sannleikurinn er sá, að það var ekki auðvelt að fá þessu þannig fyrir komið, að menn gætu þó fengið alveg lánsloforðin í hendur, allir, sem hér áttu hlut að, og vitað nákvæmlega, hvar þeir stæðu. En þeir höfðu enga ástæðu, hvorki fyrr né síðar, til þess að vonast eftir íbúðalánum á þessu ári. Hitt er annað, að mér þykir mjög miður, að ekki skyldi vera unnt að útvega nægilegt fjármagn til þess, að allir, sem höfðu gert fokhelt fyrir 15. nóv., fengju lán. Ég gerði tilraun til þess og bar niður, þar sem hugmyndaflug mitt bauð mér að gera, og fékk þá fyrirgreiðslu, sem nægði til þess að gera hreint borð að því leyti, að allir, sem hér áttu hlut að máli, vita nákvæmlega, hvar þeir standa. Ég vil ekki trúa á viðskiptabankana eða aðra lánardrottna þessara manna, sem hér eiga hlut að, öðru en þeir taki ekki þennan eins mánaðar frest á sig. Ég vil ekki trúa því, að viðskiptabankakerfið og lánakerfið í landinu sé orðið svo þröngt.

Um það, að ég hafi kannske gjarnan viljað gera hér betur en raun hefur á orðið, en ég hafi verið ofurliði borinn af öðrum, þá er það alger misskilningur. Þessi háttur er algerlega á mína ábyrgð og einskis annars, og þar sem ég hef leitað til annarra, þá hefur því verið mætt af skilningi og kerfinu verið veitt sú fyrirgreiðsla, sem ég gat frekast búist við.