04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

377. mál, viðurkenning á herforingjastjórninni í Chile

Fyrirspyrjandi (Svava Jakobsdóttir) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svar hans. Ég vil fyrst lýsa yfir ánægju minni yfir því, að sérstök viðurkenning hefur þó ekki verið gefin herforingjastjórninni. En ég skil svar hans samt sem áður svo, að stjórnmálasambandi sé haldið uppi milli landanna. Það er kannske ekki hægt fyrir hæstv. utanrrh. að svara því fyrirvaralaust, en það hefði þó verið fróðlegt, ef það hefði komið fram í máli hans, hvort ríkisstj. hefði í hyggju að slíta stjórnmálasambandi alveg, sem ég hefði talið rétt að gera. Ég vil enn fremur upplýsa það, að fulltrúar andspyrnuhreyfingar Chile, sem ferðast nú um lönd og ræða við ríkisstjórnir og þm., leggja mikla áherslu á, að lýðræðisríki geri þetta, og telja það mjög áhrifaríkt, ef önnur ríki einangra herforingjastjórnina alveg. Ég hygg, að slík afstaða, sem hefði verið alveg skýr af okkar hálfu, hefði verið í samhljóðan við það ákvæði málefnasamningsins, að núv. ríkisstj. ætlaði sér að styðja ríki þriðja heimsins í baráttu þeirra fyrir efnahagslegu og stjórnmálalegu sjálfstæði. Hér hefði verið raunverulegur prófsteinn á það ákvæði. Ég hefði gjarnan viljað fá það fram hjá hæstv. utanrrh., ef hann sér ástæðu til að svara, hvort hann hefði í hyggju að taka upp á ríkisstjórnarfundi, hvort slíta ætti algerlega sambandi við herforingjastjórnina.