04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

379. mál, lán til íbúðarhúsabygginga bænda

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 137 til hæstv. landbrh. um greiðsluhætti hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins að því er tekur til lána út á íbúðarhúsabyggingar bænda. Ástæðan til þessarar fsp. er sú, að ég vil fá upplýst, hvort sömu hættir gildi þar um skilyrði fyrir útborgun fyrri og seinni hluta lánanna og gilda hjá húsnæðismálastjórn. Að því er bændur hafa tjáð mér, mun gilda mjög hið sama um fyrri hluta lánanna, en annað um síðari hlutann. En hér greinir menn á um, hver framkvæmdin sé með útborgun á síðari hlutanum. Sumir hafa sagt mér, að þá fyrst fáist síðari hlutinn greiddur, þegar húsbyggingunni væri algerlega lokið og vottorð þar um komið til Stofnlánadeildar, en aðrir segjast ekki hafa þurft að sæta þeim kjörum. Sé hið fyrra rétt, að ekki megi veita síðari hluta lánsins fyrr en frágangi öllum, úti sem inni, er lokið, þá er hér um að ræða óhagstæðari kjör en gilda hjá húsnæðismálastjórn, þar sem síðari hluti láns er greiddur eftir veðhæfni, eins fljótt og unnt er, eða innan 6–8 mánaða frá útborgun fyrri hluta láns. Um þetta er rétt að skýr svör fáist. Einhvern tíma fékk ég reyndar þau svör hjá starfsmanni Stofnlánadeildar varðandi þessi mál, að bændur væru trassar að ljúka frágengi og innréttingum húsa sinna að fullu og því yrði að gæta vel þar að og setja einhverjar reglur, sem tryggðu, að húsin stæðu ekki lengi hálfköruð. Auðvitað er hér um að ræða algengt fyrirbæri, sem gildir jafnt um sveit og þéttbýli, og því skal ekki trúað að bændur séu hér settir undir sérstaka smásjá og lánareglur í einhverju miðaðar við það.

Ég vil að lokum taka fram, að um öll slík lán til bænda þarf að gæta fyllsta samræmis við aðrar sambærilegar stéttir, og þar inn í fléttast t. d. þau sérstöku kjör, sem byggingarfélög verkamanna bjóða, og breytir engu þar um, þótt bændur fái nokkurn óafturkræfan styrk, svo mikil og fjárfrek sem nauðsynleg byggingarstarfsemi þeirra er, sá styrkur er jafnsjálfsagður. Því vil ég spyrja: Hvernig er háttað útborgun íbúðarhúsalána til bænda frá Stofnlánadeild landbúnaðarins, og í hverju eru greiðsluhættir frábrugðnir því, sem er hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins?